03. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Dagur í lífi krabbameinslæknis á geislameðferðardeild. Vaka Ýr Sævarsdóttir

6.35 Á fætur og börnin vakin, við borðum morgunmat saman og við eiginmaðurinn drekkum gott kaffi. Hann þarf að vera mættur snemma í vinnu vegna fjarfundar við útlönd og því geng ég morguntúrinn með hundinn í dag og hann smyr þá nestið.

7:55 Kem mér út, aðeins of seint. Mætt í vinnu upp úr kl 8. og á læknafund á geisladeild.

8.30 Mætt á geisladeild á fund okkar fjögurra lækna þar. Við ræðum meðal annars um innréttingu á nýju viðtalsherbergi á geisladeild.

Vaka Ýr tók þessa sjálfu (selfie) í vinnunni daginn sem hún skilaði inn dagbókinni sem hér er birt.

9-10.30 Hitti sjúklinga sem eru í langri lyfja- og geislameðferð samtímis á mínum vegum. Vandamálin eru misjöfn, aukaverkanir af krabbameinslyfjum, andlegt álag og kvíði sem fylgir oft því að fá krabbameinsgreiningu, verkir og næringarvandi tengt geislameðferð á hálsi.

10.30 Sest við teikniborðið. Vegna frestana, meðal annars út af óveðri, hefur dagskráin og innkallanir riðlast. Ég vinn að geislameðferð sem átti að vinna daginn áður.

12.40 Kem aftur á geisladeild eftir hádegismat, fær mér kaffibolla og drekk á kaffistofunni með geislafræðingum. Er þakklát fyrir að eiga gott samstarfsfólk og kaffispjallið er hluti af því að kynnast betur og viðhalda góðu samstarfi.

13.00 Sest aftur við teikniborðið. Við ákvörðun geislameðferðar er að mörgu að hyggja. Þarf að setja mig inn í fyrirmælin um geislameðferð, niðurstöðu samráðsfundar, myndgreiningu og leiðbeiningar um ákvörðun geislarúmmála.

14:31 Búin að klára að teikna verkefni dagsins, meðal annars geislameðferð vegna krabbameins í endaþarmi. Rifja upp anatomíu grindarholsins og teikna mesorectum og eitlastöðvar í grindarholinu á tölvusneiðmyndir. Ábyrgur sérfræðingur samþykkir verkið.

14.32 Lít yfir uppfærðan verkefnalista sem hefur lengst. Ég samþykki svokallaða innstillingu hjá þeim sem hófu geislameðferð fyrr í dag, en þá er mynd úr meðferðinni borin saman við þá tölvusneiðmynd sem meðferðin var unnin úr.

14:55 Óundirbúið spjall í dyragættinni við hjúkrunarfræðing um sjúklingaupplýsingar og leiðbeiningar hvað varðar fyllingu endaþarms og þvagblöðru við geislameðferð á blöðruhálskirtli, en rúmmál þessara líffæra þarf að vera sem stöðugast meðan á geislameðferð stendur.

15:11 Skoða listann fyrir samráðsfundi morgundagsins. Ekkert tilfelli er á samráðsfundi vegna krabbameina á höfði og hálsi fyrir morgundaginn.

15:13 Fyrst ég þarf ekki að undirbúa samráðsfund, næ ég að vinna aðeins í umbótaverkefni um rafrænar beiðnir og fyrirmæli innan geislameðferðardeildar.

16:01 Tíminn flýgur, ég verð að hætta þó ég sé komin í smá flæði í verkefninu. Geng yfir á skrifstofuna og skipti um föt.

16:15 Umferðarteppa á Miklubraut. Læt mig hafa það þar sem ég þarf alla jafna ekki að aka Miklubrautina, eða lenda í umferðarteppu á leið í og úr vinnu.

16.35 Skíðum barna skilað í skerpingu. Reyndi að kaupa fjölskyldudagatal til að koma heimilislífinu í skipulag aftur eftir um þriggja mánaða tímabil litað af einangrun, sóttkvíum og eftirköstum, en enginn hafði heyrt um svona dagatal í ritfangaversluninni.

17.30 Útréttingum lokið og held aftur heim á leið, nú í mun minni umferð.

Geng frá þvotti á meðan eiginmaðurinn eldar matinn, menntaskólaneminn á heimilinu hafði farið út með hundinn. Fann fjölskyldudagatal í vefverslun og panta.

18.30 Fjölskyldan borðar saman kvöldmat, við kvöldmatarborðið spjöllum við um daginn okkar.

19-20.30 Held áfram að vasast í þvotti og þrifum og reyni að virkja börnin í tiltekt í herbergjunum sínum. Miðjan les upphátt fyrir mig á meðan ég prjóna nokkrar umferðir og hlusta. Við gleymum okkur aðeins og allt í einu er kominn háttatími.

21:00 Börnin sofnuð og ég tek úr síðasta þurrkara kvöldsins. Hundurinn mænir á mig og vælir aðeins, gefur í skyn að hún vilji fá kúrustund uppi í sófa. Ég er alveg til í það líka, kveiki á sjónvarpinu og hundurinn leggst sæll hjá mér og sofnar. Ég gríp aftur í prjónana og horfi með öðru auganu á sjónvarpið.

22:20 Tími til að koma sér í bólið, þó fyrr hefði verið. Hugurinn orðinn rólegur eftir amstur dagsins og augnlokin farin að síga. Nægur svefn er gulls ígildi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica