03. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ingibjörg Kristjánsdóttir
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Á Íslandi og á Norðurlöndunum hafa allir sama rétt á grunnheilbrigðisþjónustu, nægilegt er að hafa búsetu í landinu til að geta gengið að því vísu. Ef við lítum til Bandaríkjanna hins vegar þarf fólk að kaupa sér tryggingar til að fá þessa grunnheilbrigðisþjónustu og þau sem ekki hafa efni á slíku geta átt von á feitum reikningi lendi þau í að þurfa á henni að halda. Slíkar einkatryggingar hafa ekki tíðkast hér á landi en þetta gæti þó breyst sökum þeirrar þróunar síðastliðinna ára að aukagjöld leggjast á einstaklinga er leita þurfa þjónustu á einkareknum læknastofum.
Á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) stendur að hlutverk stofnunarinnar sé „að tryggja réttindi sjúkratryggðra og aðgengi að góðri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu.“ Á Íslandi eru allir sjálfkrafa sjúkratryggðir og því þýðir þetta að SÍ eigi að tryggja réttindi allra Íslendinga, en er raunin sú?
Sérfræðilæknar
Rammasamningar sérfræðilækna starf-andi á stofu sem tóku gildi í janúar 2014 runnu út 31. desember 2018 og þessir læknar hafa því verið samningslausir í meira en þrjú ár. Reglugerðin um endurgreiðslur hefur endurtekið verið framlengd sem einhliða ákvörðun af hálfu SÍ en ekki verið tekið tillit til verðhækkana í landinu, svo sem launahækkana, verðbólgu og kostnaðar við aðföng eða nýjungar í faginu. Sérfræðilæknar hafa neyðst til að taka upp svokölluð komugjöld sem ekki eru niðurgreidd af SÍ til að svara þessum aukna kostnaði við rekstur læknastofa og þannig hefur tryggingavernd sjúklingsins í raun rýrnað án þess hann hafi gert sér grein fyrir. Sjúklingurinn hefur ekki annað val en að greiða gjaldið, vilji hann fá þjónustuna, en án þess að hafa möguleika á endurgreiðslu frá sínu tryggingafélagi, það er Sjúkratryggingum Íslands! Við það bætist að endurgreiðslureglugerðin sjálf er svo flókin að erfitt er að átta sig á fyrirfram hve háum reikningi má búast við, leiti maður sér læknishjálpar á stofu.
Oft hefur verið bent á þá góðu og miklu þjónustu er veitt er á stofum sérfræðilækna og um það þarf ekki að efast. SÍ hefur það hlutverk að hafa eftirlit með þessari þjónustu en slíkt eftirlit er ekki í höndum fagaðila á vegum stofnunarinnar, það er lækna er hafa menntun og reynslu til slíks eftirlits, og verður það að teljast algerlega óásættanlegt! Eins og komið hefur fram í fréttum hefur SÍ frekar viljað greiða fyrir vissar aðgerðir erlendis en gera samning við stofnanir á Íslandi þrátt fyrir að hér sé til nauðsynleg sérfræðiþekking, reynsla og aðstaða. Er þarna verið að veita aðgengi að góðri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu?
Skilgreina þarf mun betur hvaða verkefni eiga tilheyra heilsugæslunni (fyrsta stigi), læknum í undirsérgreinum, svo sem á stofum, (öðru stigi) og Landspítala (þriðja stigi). Því Landspítali er jú þriðja stigs heilbrigðisstofnun (tertiary spítali) með það hlutverk að sinna stærstu og jafnframt flóknustu verkefnunum sem ekki er hægt að veita utan spítala. Þessi þrjú stig þjónustunnar þurfa síðan að vinna saman svo rétt verk séu unnin á réttum stað og þar af leiðandi sem hagstæðast fyrir þiggjendur og greiðendur þjónustunnar.
„Að tryggja réttindi sjúkratryggða og aðgengi að góðri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu“
Er SÍ að uppfylla sitt hlutverk? Er aðgengi að góðri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu tryggt? Eða er með þessu verið að skapa tvöfalt kerfi þar sem þeir sem efni hafa á geta borgað fyrir vissa heilbrigðisþjónustu meðan þeir sem ekki hafa efni á sitja á biðlista í nokkur ár með þeim skertu lífsgæðum er því fylgja?
Það veitir von um betri tíma að núverandi heilbrigðisráðherra svaraði nýlega fyrirspurn á alþingi þannig að ekki skipti máli hvort heilbrigðisþjónusta væri veitt af hinu opinbera eða í einkageiranum.
Að lokum vil ég hvetja heilbrigðisráðherra, forstjóra SÍ, forstjóra Landspítala og komandi stjórn Landspítala til að setjast niður og vinna saman til að skapa kerfi er tryggir áframhaldandi rétt allra Íslendinga að heilbrigðisþjónustu. Eins og skytturnar fjórar sögðu: „einn fyrir alla og allir fyrir einn“.