03. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Vilja tryggja örugga yfirfærslu frá Danmörku í þrepum, - Ágúst Ingi Ágústsson svarar fyrirspurn
Ekki var æskilegt að Landspítali tæki við öllum sýnunum sem þarf að frumuskoða í einu vetfangi og því var ákveðið að gera það í þrepum. Þetta segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir hjá Samhæfingarstöð Krabbameinsskimana, í svari við fyrirspurn Læknablaðsins. Landspítali hóf greiningu á leghálssýnum þann 1. febrúar.
Ágúst Ingi Ágústsson læknir fagnar því að Landspítali sé farinn að greina leghálssýni tekin hér á landi. Mynd / gag
Ágúst Ingi segir þessa leið farna þar sem þjálfa þurfi sérfræðinga spítalans til verksins. Þá sé tæknivinnan við að samþætta öll tölvukerfi flókin og viðamikil þannig að gagnaflæði sé óheft og öruggt milli Landspítala, Embættis landlæknis og Samhæfingarstöðvarinnar.
„Ég er mjög ánægður með að Landspítali sé nú byrjaður að greina leghálssýni og ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá ráðherra að fela Landspítala þetta verkefni,“ segir hann. Öruggt samkomulag við rannsóknastofuna í Hvidovre verði til þess að hægt sé að bregðast við komi einhverjir vankantar upp.
„Ég vil leggja áherslu á að við fáum öruggar greiningar á sýnunum í Danmörku. Það hefur aldrei leikið vafi á því. Hins vegar er það óhagræði fyrir okkur að senda sýnin til Danmerkur og við reiknum með lengri svartíma auk þess sem ég tel mjög þýðingarmikið að þessi starfsemi og sú þekking sem byggðist upp hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins haldist hér á landi,“ segir Ágúst Ingi.
„Árangurinn af greiningum leghálssýna á Íslandi er ótvíræður og því full ástæða til að viðhalda þeirri þekkingu og færni sem við höfum yfir að ráða.“ Í frétt á vef Landspítala segir að viku taki að greina sýnin hér heima og að stefnt sé að því að spítalinn geti sinnt öllum greiningum í árslok.