03. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

450 milljón króna framlag Krabbameinsfélagsins sett á ís, - Halla Þorvaldsdóttir tekin tali

Ekki verður tekin afstaða til þess hvort þiggja eigi 450 milljón króna framlag Krabbameinsfélagsins fyrr en ljóst er hvernig nýta á húsnæði Landspítala. Vonbrigði, segir framkvæmdastjóri félagsins. Undir það taka Signý Vala Sveinsdóttir og Agnes Smáradóttir yfirlæknar á Landspítala

„Aðstaða krabbameinssjúkra á Landspítala er óviðunandi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. Undir það taka Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir blóðlækninga á Landspítala og formaður Félags íslenskra lyflækna, og Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítala.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, vill sjá nýja aðstöðu fyrir dagdeild krabbameinssjúkra og undrast það að engar áætlanir séu um úrbætur. Mynd/gag

„Aðstaðan er algjörlega óviðunandi, bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk,“ segir Signý Vala. „Það er aðkallandi að leysa úr vandanum.“

Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir blóðlækninga á Landspítala.

Halla segir að fyrir tæpu ári hafi verið samþykkt á aðalfundi Krabbameinsfélagsins að veita 450 milljónum króna til byggingar nýrrar dagdeildar fyrir blóð- og krabbameinslækningar með því skilyrði að ný deild verði tekin í notkun á þremur árum í svokallaðri K-byggingu Landspítala í Fossvogi. Boðið sé háð því að brugðist sé hratt við. Signý Vala segir að hugmyndin njóti víðtæks stuðnings.

„Nauðsynlegt er að heilbrigðisráðherra hafi þetta mál sem eitt af forgangsverkefnum sínum, það er að fyrsta flokks framtíðaraðstaða verði sett upp fyrir dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga.“

Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítala.

Agnes segir vandann birtast víða í starfseminni. Dýrari lyf séu notuð vegna plássleysis. Ráða þurfi fleiri lækna en ekki sé pláss fyrir þá. Skoðað sé að kalla fólk til aðhlynningar á kvöldin þar sem ekki er pláss á daginn. „Við styðjum málið heilshugar,“ segir hún. „Það er afar brýnt þar sem ekki er gert ráð fyrir deildinni á nýja spítalanum.“

Krabbameinsfélagið hefur í tvö ár átt í viðræðum við Landspítala um úrbætur, en hefur nú fengið þau svör frá heilbrigðisráðuneytinu, eftir fund með nýjum ráðherra í ársbyrjun, að heildarendurskoðun á húsnæði spítalans sé í gangi. Ákvörðun um framhaldið verði byggð á þarfagreiningu í kjölfar hennar. Halla segir ákvörðun Krabbameinsfélagsins aðeins gilda fram að næsta aðalfundi félagsins í maí.

K-bygging Landspítala. Gert er ráð fyrir í gildandi skipulagi að K-bygging verði framlengd til austurs um 7,2m og fullgerð þannig. Þá er hægt að byggja það sem upp á vantar í samgöngum innanhúss í K-byggingu og tengja hana við eldri hluta húss 1 (álmu F).

„Sjúklingar á deildinni fengu lyf fyrir 2,3 milljarða króna í fyrra. Kostnaður við frágang K-byggingarinnar og flutning dagdeildarinnar er um 1300 milljónir króna. Félagið er tilbúið til að leggja fram rúmlega þriðjung þeirrar upphæðar,“ segir Halla. Hún bendir á að bregðast verði við bágri aðstöðunni því búast megi við að krabbameinstilvikum fjölgi um hátt í þriðjung á næstu 15 árum. Halla lýsir ástandinu á deildinni:

„Á deildinni eru margir að takast á við stærstu áskorun lífs síns. Aðstaðan er allt of lítil og léleg. Meðferðin getur tekið allt að 6 klukkustundir í senn. Sjúklingar geta varla staðið upp úr stólunum og rölt um vegna plássleysis. Aðstandendur eru hreinlega fyrir. Ekkert pláss er til að matast og ekki einu sinni pláss fyrir sjálfsala“ segir Halla: „Starfsfólkið hleypur um, hjúkrunarfræðingar sitja svo þétt að þau eru nánast með hvert annað í kjöltunni.“

Signý Vala segir sárt að ekki sé hægt að grípa til lausna sem liggi á borðinu þegar svona framlag til úrbóta bjóðist. „Það er vont að hugsa til þess að engar úrlausnir eru í sjónmáli.“ Hún staðfestir lýsingar Höllu.

Halla segir mörg kvíðin, döpur og jafnvel sorgmædd. „Fólk leggur mjög mikið á sig og berst fyrir lífi sínu. Alls konar aukaverkanir koma upp og því verður að vera hægt að ræða saman í næði og trúnaði. Ótalmargt skiptir máli svo hámarksárangur af meðferð náist. Lyfjagjöfin sem slík er ekki allt.“

„Vegna þrengsla heyri fólk samtöl sem því koma ekki við. „Salernisaðstaðan er þannig að fólk með lyfjastatíf á erfitt með að komast inn á þau. Dagdeildin er löngu sprungin,“ segir hún og óttast að engin breyting verði þar á næstu árin. Engin áform séu í augsýn.

„Við verðum að gera þetta þannig að sómi sé að. Fólk kvartar lítið sjálft, bítur á jaxlinn, þekkir stöðuna á spítalanum, sér álagið á starfsfólkinu og er þakklátt fyrir að fá lyfjameðferðina.“

Hún segir það hafa verið hugmynd Landspítala að nýta K-bygginguna við Hringbraut sem staðið hafi ókláruð í 30 ár. Krabbameinsfélagið hafi rætt hugmyndina við fjármálaráðherra, fyrrum heilbrigðisráðherra, formann stýrihóps Nýja Landspítala, NLSH ohf., sem látið hefur af störfum og nú nýjan heilbrigðisráðherra í upphafi árs.

„Húsið er til. Það þarf að klára og yrði bylting fyrir þennan hóp,“ segir hún. „Málið varðar okkur öll og það verður að leysa. Stundum finnst mér eins og ástandið varðandi spítalann sé eins og í lærðu hjálparleysi, verkefnið sé svo yfirþyrmandi að við séum hætt að reyna að leysa það en á meðan vex vandinn.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica