03. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Már Kristjánsson: Þurfum að vera betur undirbúin næst, betur en við vorum fyrir tveimur árum

„Við höfum lært að hlutir sem við lesum um í sögubókum geta hent okkur og þeir koma án þess að gera boð á undan sér. Við þurfum að vera betur undirbúin. Betur en við vorum fyrir tveimur árum,“ segir Már Kristjánsson, smitsjúkdómalæknir. Tvö ár eru frá fyrsta kórónuveirusmitinu hér á landi

„Einn af stóru lærdómunum af kórónuveirufaraldrinum er hve vanbúin við vorum undir svona mikinn atburð,“ segir Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítala og smitsjúkdómalæknir, þegar hann lítur um öxl. Á þessum tveimur árum voru tekin 1,1 milljón sýni, um 94.000 hafa smitast, nærri 2000 manns smitast tvisvar og hátt í 50 látist af völdum veirunnar.

Már Kristjánsson sunnan undir vegg Landkotsspítala og undir verndarvæng styttunnar af Maríu mey sem vitnar um kaþólskan uppruna spítalans. Mynd/gag

„Kórónuveiran er þungt álagspróf á kerfið okkar. Ég held að það hafi staðist það fyrir fórnfýsi margra þeirra sem stóðu að viðbragðinu.“ Hlustað hafi verið á starfsfólk. Kastljósi hafi verið beint á aðbúnaðinn.

„Bæði á heilsugæslunni og spítalanum vorum við með lúin tæki.“ Bólusetningar í yfirgefnum byggingum. Spítalinn vanbúinn. Greiningartæki skorti. Húsnæði þjóðarsjúkrahússins óhentugt.

„Við urðum að ráðast í fjárfestingar á sama tíma og aðrar þjóðir. Áhlaup varð á vörur og við fórum í biðröðina enda eru lækningatæki ekki hilluvara,“ segir Már. Læra megi af því hve margt breytist þegar svo stór atburður verður. Íslensk erfðagreining hafi stokkið til og nýtt tækni og þekkingu sína. „Fólk gerði það besta úr því sem það hafði og saman gátum við þetta allt saman.“

Már segir að persónulega hafi árin tvö verið áhugaverð og lærdómsrík. „Það hefur verið mér mjög kærkomið að fá að glíma við verkefnið í framlínunni, móta viðbragðið, en um leið erfitt,“ segir hann enda hafi verkefnið verið tímafrekt og tekið orku af öðrum hlutverkum í lífinu.

Már segir nöturlegt að ekki hafi verið bólusett víðar um heimsbyggðina á sama tíma og vestrænn heimur upplifi miklar framfarir í læknavísindum. „Búið er að framleiða milljarða skammta. Bóluefnin eru háþróuð, vel reynd vara sem sprautað er í fólk á mettíma,“ segir hann.

Spurður um hvað hafi helst verið krefjandi þessi tvö ár, segir hann að auðvitað sé hvatt til skoðanaskipta og opinnar umræðu og málfrelsi ríki. „Við sem höfum verið í forystu höfum þurft að sitja undir ámæli fyrir til að mynda að nota ekki ormalyfið Ivermectin. Það stappar nærri því að vera falsáróður að hvetja til notkunar þess,“ segir hann og nefnir einnig þau sem stígi fram gegn bólusetningu barna.

„Ég er hugsi þegar heilbrigðismenntað fólk talar gegn þeim vísindalegu rökum sem koma fram fólki til heilla,“ segir hann. „Með starfsleyfinu fæst ákveðin viðurkenning á faglegri nálgun og skynsemi sem mér finnst þorri þeirra sem tala með þessum hætti ekki hafa virt, sem mér finnst miður.“

Starfsfólk flytji skrifstofuvinnuna heim

Undirbúningur er hafinn við að breyta skrifstofum á Landspítala í sjúkrarými og bjóða fólki sem það kýs að vinna heima.

„Við skoðum að rýmka meira um klínískt starf og tökum því stefnuna í fjarvinnu til endurskoðunar,“ segir Már Kristjánsson. Komið hafi í ljós í COVID að mörgum henti betur að vinna stundum heima.

„Hluti af heilbrigðisþjónustunni hefur þegar færst í fjarþjónustu,“ segir hann.

„Við getum gert meira í þessum dúr,“ segir Már. „Við erum að læra og ættum að nýta þá þekkingu sem til er orðin.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica