02. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Lögfræði 43. pistill. Veikindaréttur lækna sem starfa samkvæmt kjarasamningi LÍ
Á stuttum tíma hafa komið til kasta Læknafélags Íslands (LÍ) nokkur mál þar sem í ljós hefur komið að veikindaréttur læknis hefur ekki verið réttilega ákveðinn. Fyrir þessu reynast tvær ástæður. Annars vegar að launagreiðandi er ekki með réttar upplýsingar um þjónustualdur læknisins vegna veikindaréttar. Hins vegar að ekki hefur verið gætt sérákvæðis í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ um áhrif sérnáms í útlöndum á þjónustualdur lækna gagnvart veikindarétti.
Það er því mjög mikilvægt að kynna ákvæði um veikindarétt fyrir læknum eins og þau birtast í fyrrnefndum kjarasamningi. Hér er ekki fjallað um veikindarétt þeirra sem ráðnir eru til vinnu samkvæmt tímavinnusamningi.
Um veikindarétt lækna er fjallað í kaflanum Réttur starfsmanna vegna veikinda og slysa, sem er 9. kafli fyrrnefnds kjarasamnings. Þar er fjallað bæði um réttindi og skyldur lækna sem lenda í veikindum. Í þessari grein er fyrst og fremst fjallað um réttindin samkvæmt þessum kafla.
Réttindin felast í því að eiga rétt á því að vera fjarverandi frá vinnu vegna veikinda á nánar tilgreindum launum í nánar tilgreindan tíma. Lengd veikindaréttarins fer eftir þjónustualdri hjá ríkinu og raunar fleiri aðilum. Veikindaréttarkafli kjarasamnings lækna er í meginatriðum efnislega samhljóða sambærilegum köflum í kjarasamningum annarra opinberra starfsmanna. Þess vegna er almennt vísað til lækna sem starfsmanna í kaflanum, en ekki lækna.
Starfsmaður, sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum í að minnsta kosti tvo mánuði, skal halda launum svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en rakið er hér á eftir (grein 9.2.1):
0-3 mánuðir í starfi 14 dagar
Næstu 3 mánuðir í starfi 35 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi 119 dagar
Eftir eitt ár í starfi 133 dagar
Eftir 7 ár í starfi 175 dagar
Eftir 12 ár í starfi 273 dagar
Eftir 18 ár í starfi 360 dagar
Við veikindarétt þeirra sem starfað hafa í allt að 7 ár getur bæst við réttur til mánaðarlauna í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Laun sem starfsmaður fær í þann viðbótartíma, eigi þetta við, eru einvörðungu dagvinnulaun, ekki heildarlaun eins og ella gilda í veikindum.
Við mat á þjónustualdri læknis samkvæmt framangreindu skal fyrst horfa til þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda. Til viðbótar skal telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé. Hér þarf að hafa í huga að það eru ekki eingöngu störf sem læknir sem hér telja heldur öll störf viðkomandi hjá þessum aðilum.
Síðan er það ákvæði kjarasamningsins, sem iðulega gleymist. Í lokamálslið greinar 9.2.5 segir:
Þar að auki skal sérfræðingi reiknaður til viðbótar sá tími sem það tekur lækni að jafnaði að afla sér sérfræðiviðurkenningar erlendis, þó aldrei meira en 10 ár.
Þetta ákvæði er mjög mikilvægt. Það getur bætt allt að 10 árum við þjónustualdur læknis gagnvart veikindarétti. Algengast sýnist þó að það bæti við fjórum til 6 árum, allt eftir því hversu lengi læknir hefur verið erlendis í sérnámi og ef því er að skipta námi vegna undirsérgreinar. Taflan hér að framan um lengd veikindaréttar sýnir þó að þessi ár geta skipt sköpum, orðið til þess að þjónustualdur hækkar upp í 7 ár og þar með lengt veikindaréttinn um 42 daga, eða hækkað hann upp í 12 ár og lengt veikindaréttinn um 98 daga, eða upp í 18 ár og þar með lengt réttinn upp í hámarkið sem eru 360 dagar.
Tilgangur þessa mikilvæga ákvæðis í lok greinar 9.2.5 er augljós. Það tryggir að þjónustualdur læknis skerðist ekki vegna sérnáms í útlöndum og gerir jafnsetta lækna sem stunda sérnám á Íslandi, sem með vinnu sinni hér halda áfram að safna þjónustualdri gagnvart veikindarétti, og lækna sem fara til útlanda í sérnámið.
Það skiptir miklu að læknar gæti þess að hjá launadeild þeirrar heilbrigðisstofnunar sem þeir starfa hjá á hverjum tíma samkvæmt framangreindum kjarasamningi séu aðgengilegar upplýsingar um öll störf þeirra hjá ríkinu, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé. Hægt er að kalla eftir slíkum upplýsingum hjá Fjársýslu ríkisins eftir því sem LÍ veit best. Til viðbótar þurfa læknar að gæta að því að hjá launadeildinni séu upplýsingar um það hversu lengi þeir voru við sérnám í útlöndum.
Loks ber að nefna að í þeim tilvikum að veikindaréttur læknis tæmist, annaðhvort af því að viðkomandi læknir hefur áunnið sér tiltölulega lítinn veikindarétt eða af því að veikindi læknisins eru mjög langvarandi, eiga læknar sem fá laun samkvæmt margnefndum kjarasamningi rétt til allt að þriggja mánaða veikindalauna úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði LÍ.1 Eins og fram kemur á heimasíðu LÍ, lis.is greiðir sjóðurinn 80% af grunni inngreiðslna sjóðfélaga í sjóðinn síðustu 12 mánuði áður en greiðslur féllu niður, þó að hámarki 1.200.000 kr. á mánuði í þrjá mánuði.
Hafi læknar spurningar um veikindarétt sinn eru þeir hvattir til að hafa samband við skrifstofu LÍ.
Heimild
1. Úthlutunarreglur Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna, lis.is/is/sjodir/fjolskyldu-og-styrktarsjodur/uthlutunarreglur - janúar 2022.