02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Ferðin til Iowa. Tryggvi Ásmundsson

Ég kom í heimsókn á minn gamla vinnustað, Duke University Hospital, 1974. Þeir höfðu þá nýlega eignast merkilegt tæki, „bronchofiberscope“, sem olli byltingu í berkjuspeglunum. Á lungnaþingi þetta haust hlustaði ég á Donald C. Zavala við University of Iowa halda skýr og skemmtileg erindi um þannig speglanir. Mér var sagt að þetta væri hálfgerður furðufugl en væri eldklár.

Fremri röð f.v.: Judy Zavala, Agla Egilsdóttir, Ester Eggertsdóttir. Aftari röð f.v.: Guðmundur K. Magnússon, Donald C. Zavala, G. Edgar Folk, Þorkell Jóhannesson. Dr. Folk var hér gistiprófessor frá University of Iowa. Hann var líffræðingur og þekktur sem brautryðjandi í umhverfisfræðum og einn af þeim fyrstu til að setja senditæki á dýr.

Guðmundur K. Magnússon, vinur minn og bekkjarbróðir, var háskólarektor 1979-1985 og kom á tengslum HÍ við University of Iowa. Annar vinur minn, Þorkell Jóhannesson prófessor, hafði unnið þar við rannsóknir. Svo fór að 1986 kippti Guðmundur í einhverja spotta svo mér var boðið að koma.

Við hittum Don Zavala sem vildi allt fyrir okkur gera. Guðmundur hafði sagt að ég mætti bjóða prófessor sem mér litist vel á að koma í heimsókn til Íslands. Við gerðum Don þetta tilboð og um haustið birtust þau hjónin.

Tryggvi Ásmundsson, lungnalæknir

Læknafélögin héldu þá námskeið í september sem voru undanfarar Læknadaga. Don hélt þar erindi og á öllum þremur spítölum Reykjavíkur og á Reykjalundi. Var óþreytandi að heimsækja þessa staði og veita góð ráð. En við þurftum líka að skemmta þeim hjónum og Don sagði að sig langaði að renna fyrir lax. Laxveiðar hafa aldrei verið mitt fag svo ég fékk Stein Jónsson í málið. Hann útvegaði þeim dag í Soginu og sá Don fyrir öllum útbúnaði. Þetta varð dálítið ævintýri. Don óð langt út í ána og lenti í hálfgerðu kviksyndi og Steinn dró hann í land við illan leik! Ef ég man rétt veiddu þeir ekkert!

Don sagði mér sögu sína.1 Hann útskrifaðist læknir frá University of Cincinnati og fór í lyflækningar í Iowa. Síðan bjó hann í smábæ í suðurhluta Kaliforníu og stundaði lyflækningar í 17 ár og vegnaði vel.

Þá fékk hann þá flugu í höfuðið að hann þyrfti að læra lungnalækningar 45 ára gamall. Hann fór að þreifa fyrir sér um sérnám. Alls staðar var hann spurður: 1) Hvers vegna dytti honum í hug 45 ára gömlum í góðu vel launuðu starfi að leggja í langt og erfitt nám? 2) Stendurðu í málaferlum? 3) Eru vandræði í hjónabandinu og ertu að skilja? 4) Ertu alkóhólisti eða fíkill? Þótt svarið við spurningum 2-4 væri neitandi gagnaði það lítið. Þá minntist hann þess að vinur hans hafði lært lungnasjúkdóma og var nýbúið að ráða hann til að stofna lungnadeild í Iowa City. Hann hringdi og spurði hvort hann vildi taka sig í sérnám. Það var guðvelkomið. En við lungnadeildina starfaði aðeins einn læknir, hann sjálfur. Það væri engin legudeild fyrir lungnasjúklinga, engin göngudeild og engin gjörgæsla. Hann væri að fara í sumarfrí daginn eftir og yrði í burtu í mánuð! Don gæti flutt inn í húsið hans meðan hann væri að leita sér að húsnæði. Ráðgjöf lungnalæknis væri eftirsótt og nóg að gera á spítalanum. Álagið samt hóflegt og hann gæti oftast komist heim í kvöldmat. Engar vaktir.

1969 fór Don á ráðstefnu HNE-lækna í Atlanta. Þar talaði japanskur læknir, Shigeto Ikeda, um nýtt tæki til berkjuspeglunar, bronchofiberscope. Don skildi varla eitt einasta orð en myndirnar töluðu sínu máli og hann varð stórhrifinn. Við heimkomuna spurði hann hvort hann gæti ekki fengið fé til tækjakaupa. Það fékk dræmar undirtektir, en því var hvíslað í eyra hans að í Iowa City væri klúbbur kvenna sem lúrði á talsverðum peningum og gætu verið örlátar við menn sem nenntu að flytja þeim erindi. Hann fræddi þær um nytsemi berklaprófa og uppskar 3600 $. Það dugði til að kaupa skóp! Ekki þorði hann að byrja að spegla fólk enda litu skurðlæknarnir uppátækið illum augum. Þeir höfðu sinnt berkjuspeglunum og haft af þeim dágóðar tekjur. Hundurinn Hannibal varð fyrsta tilraunadýr Dons.

Þar kom að Don fékk tækifæri til að spreyta sig á manneskju. Lögfræðingur nokkur var með blett ofarlega í lunga sem ekki hafði tekist að ná sýni úr með stífum spegli. Læknar voru tregir að gera aðgerð án greiningar og leitað var til Dons. Maðurinn spurði hvað hann hefði speglað marga sjúklinga en hann sagðist bara hafa speglað hunda. Maðurinn bað um frest og Don reiknaði ekki með að sjá hann aftur. En hann birtist og greining fékkst. Ísinn var brotinn og eftirspurn varð fljótt mikil.

Eitt sem við Don ræddum var hvort ekki væri hægt að koma íslenskum læknum í sérnám við University of Iowa. Ég spurði hvað við ættum að gera til að fá lækni samþykktan. Hann svaraði að bragði: „You put wings on him!“ Kjartan Örvar var valinn og eftir það voru engin vandræði fyrir Íslendinga að komast þar að!

Heimild

1. Zavala DC. Once upon a time, or ... How it really happened. J Bronchol 2003; 10: 75-8.
https://doi.org/10.1097/00128594-200301000-00017

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica