02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Vill 30 Íslendinga í norræna þarmabólgurannsókn: Lóa Guðrún Davíðsdóttir stýrir

Lóa Guðrún Davíðsdóttir meltingarlæknir stýrir íslenskum hluta norrænnar rannsóknar á þarmabólgusjúkdómi sem styrkt hefur verið um þrjár milljónir evra,ríflega 400 milljónir íslenskra króna. „Fjárstyrkurinn er fljótur að klárast,“
segir Lóa sem leitar að 30 þátttakendum

„Þarmabólgusjúkdómur veldur verulegri skerðingu á lífsgæðum en þetta er langvinnur bólgusjúkdómur í meltingarvegi sem hrjáir um 0,5% þjóðarinnar,“ segir Lóa Guðrún Davíðsdóttir, meltingarlæknir á Landspítala, sem stýrir íslenskum hluta norrænnar rannsóknar á þarmabólgu.

Lóa Guðrún Davíðsdóttir, læknir á meltingardeild Landspítala, stýrir íslenskum hluta norrænnar þarmabólgurannsóknar. Hér er hún á göngum Læknasetursins þar sem hún starfar. Mynd/gag

Lóa segir sjúkdóminn skiptast í sáraristilbólgu og Crohns-sjúkdóm. Til að greina hann þurfi að gera ristilspeglun með vefjasýnum og stundum myndgreiningu. „Sáraristilbólga getur teygt sig frá endaþarmi og upp eftir ristlinum. Crohns-sjúkdómurinn getur lagst á alla hluta garnarinnar,“ lýsir hún og að gangur sjúkdómsins geti verið hraður og hann svarað illa meðferð.

„Þetta krefst oft endurtekinna innlagna á spítala og jafnvel aðgerða á görnunum,“ segir hún, og að sjúkdómurinn geti leitt til ristilkrabbameins.

Fá þrjár milljónir evra

Rannsóknin sem kallast Nordtreat, eða nánar tiltekið The Nordic IBD treatment strategy trial, er samstarfsverkefni Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs og Íslands. Aðstandendur hennar hlutu þriggja milljóna evru styrk frá NORDFORSK, sem er stofnun rekin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að stuðla að auknu rannsóknasamstarfi Norðurlandanna. Rannís styrkti Landspítala til rannsóknarinnar en stofnanirnar starfa saman.

„Alþjóðlegt samstarf er að mínu mati mjög mikilvægt fyrir Landspítala,“ segir Lóa. „Helstu rannsakendur innan þarmabólgusjúkdóma á Norðurlöndunum standa að þessari rannsókn. Aðalmarkmið hennar er að ná til þeirra sjúklinga sem líklegt er að hafi verri sjúkdómshorfur með því að greina ákveðin áhættuprótín (novel objective protein signature) í blóði þeirra og veita þeim einstaklingsmiðaða meðferð strax í upphafi.“ Þannig megi mögulega koma í veg fyrir eða minnka alvarlegar afleiðingar sjúkdómsins. Einnig verði aðrir þættir skoðaðir, eins og áhrif baktería í görn, erfðaþættir, lífsstíll og mataræði.

„Við þurfum 750 sjúklinga til að rannsóknin verði marktæk og vonumst til að geta fengið allt að 30 manns á Íslandi. Um 70 greinast hér á landi á ári og því getur orðið á brattann að sækja að ná tilskildum fjölda,“ segir hún en er vongóð enda þurfi aðeins að vera líkur á að þátttakendur séu með þarmabólgusjúkdóm. Þeir þurfi að hafa haft niðurgang og/eða blóð í hægðum í meira en tvær vikur til að koma til greina.

„Ef sjúklingar með þessi einkenni leita til heimilislækna eða annarra sérfræðinga mega þeir gjarnan hafa samband við mig á Landspítala,“ segir Lóa.

Fæddist í Svíþjóð

Aðeins eru 6 ár síðan Lóa sneri frá Svíþjóð þar sem hún lærði og starfaði á Karólínska. Synir hennar þrír fylgdu með en maður hennar, Björn Haraldsson, starfar enn sem verkfræðingur í Svíþjóð; er þar með annan fótinn, svona eins og COVID leyfir.

„Ég er fædd og uppalin til 6 ára aldurs í Svíþjóð og fór alltaf þangað á sumrin að vinna. Það var því augljóst mál að fara þangað í framhaldsnám.“ Lóa sækir læknisáhugann ekki langt en pabbi hennar er Davíð Gíslason ofnæmislæknir sem líka þar var ytra í sérnámi.

„Ég ákvað að fara í læknisfræði eftir að hafa varið unglingsárum mínum á Vífilsstöðum. Fyrst við garðyrkju í fallegu umhverfi spítalans og svo á húðdeildinni og lungnadeildinni. Meltingarlæknisfræði varð svo fyrir valinu þar sem þessi sérgrein er einfaldlega skemmtilegust og fjölbreyttust,“ segir hún sposk og Læknablaðið frábiður sér pósta um að það sé nú ekki rétt!

„Ég flutti til Stokkhólms og hóf mitt framhaldsnám 2004. Við fjölskyldan höfðum það mjög gott þar. Ég var afskaplega ánægð á Karólínska sjúkrahúsinu,“ segir Lóa sem byrjaði í rannsóknum í lifrarlækningum og tók doktorsprófið þaðan en þarmabólgan hafi heillað hana þegar hún hóf að spegla. „Ég hef haldið mig við það síðan enda mikið að gerast í undirsérgreininni.“

Ísland togaði þau heim

Lóa segir að eftir 12 ár í Svíþjóð hafi ekkert annað komið til greina en að koma heim. „Við vorum afar hamingjusöm í Svíþjóð. Búin að kaupa hús og ætluðum ekki að fara. En svo gerðist eitthvað,“ segir Lóa og lýsir því hvernig Ísland togi þau til sín.

„Elsti strákurinn okkar átti að fara í menntaskóla og þá allt í einu kom ekkert annað til greina en að drífa okkur heim.“ Þau séu sæl á Íslandi. „Drengirnir eru mjög ánægðir,“ segir Lóa og lýsir því hvernig sá yngsti hafi aðeins talað sænsku þegar þau fluttu heim.

„Svo skipti hann yfir í íslensku en hefur vart sagt orð á sænsku síðan.“ Þau hjónin hafi þurft aðeins lengri aðlögunartíma. „Við söknuðum Svíþjóðar og förum reglulega saman út.“ Hún hitti fyrrum vinnufélagana og njóti þess að vera ytra. Það hafi þó verið frábært að koma heim. Hún hafi verið í góðu sambandi við Einar Stefán Björnsson yfirlækni á meðan sérnámi stóð og vel hafi verið tekið á móti henni á meltingardeildinni við komuna heim.

„Ég fékk strax að taka þátt í að byggja upp göngudeild þarmabólgusjúkdóma og stofna gæðagagnaskrá þarmabólgusjúkdóma og líftæknilyfja sem heitir því íslenska nafni ICE-IBD.“

Lóa segir að nú einbeiti hún sér að rannsókninni. „Ég hvet lækna til að hafa samband við mig ef þeir telja sjúklinga sína heppilega í þessa rannsókn. Inntaka í rannsóknina hefst í febrúar í ár en henni lýkur eftir eitt ár. Eftirfylgni hvers einstaklings fyrir sig lýkur svo eftir eitt ár.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica