02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Framvirk hugsun sparar útgjöld og fækkar áföllum, - það er skoðun Steinunnar Þórðardóttur nýs formanns LÍ

„Mér finnst mikilvægt að skilgreint sé hvað er eðlilegt álag á okkur lækna,“ segir Steinunn Þórðardóttir, nýr formaður Læknafélagsins. Hún vill að álagið á stéttina sé metið rétt eins og gert hafi verið hjá hjúkrunarfræðingum. Læknablaðið skyggnist á bakvið tjöldin og fer yfir verkefnin sem bíða nýs formanns

soundcloud

Hversu mörgum sjúklingum getur einn læknir borið ábyrgð á? Hvert er þakið?“ spyr Steinunn Þórðardóttir, nýr formaður Læknafélags Íslands, spurð um það mikla álag á lækna sem afhjúpast í niðurstöðum könnunar Berglindar Bergmann á aðstæðum almennra lækna á Landspítala. Steinunn segir að kortleggja þurfi álagið og skilgreina hvar mörkin liggi.

Steinunn á svölunum á efstu hæðinni í Hlíðasmára 8 sem eru húsakynni Læknafélags Íslands. Morgunroðinn á þorranum lofar góðu um vegferð hennar sem nýs formanns félagsins. Mynd/Védís

„Við læknar upplifum á mörgum stöðum í kerfinu að það sé opinn tékki á starfsframlag okkar. Við erum látin vinna tvöfalt ef það vantar starfsfélaga í vinnu án þess að fá umbun fyrir. Það þykir eðlilegt að við vinnum tvöfalt eða þrefalt og ekki er litið á það sem undantekningartilvik og gerist því ítrekað,“ segir hún.

„Mér finnst mikilvægt að skilgreint sé hvað er eðlilegt álag á okkur lækna. Það er til hugtak sem heitir hjúkrunarþyngd og því ekki hægt að hafa opin legurými ef vantar hjúkrunarfræðinga. Skortur á hjúkrunarfræðingum hefur því oft dregið óbeint úr álagi á lækna og komið okkur þannig til bjargar, ef svo má segja,“ segir Steinunn um aðbúnað og álag á Landspítala. Skilgreina þurfi álagið rétt eins og gert hafi verið hjá hjúkrunarfræðingum.

„Það er mjög íþyngjandi að hafa þennan opna tékka á lækna,“ segir hún.

Steinunn, sem er yfirlæknir heilabilunarhluta öldrunardeildar Landspítala, hefur frá áramótum starfað af krafti sem nýr formaður Læknafélagsins.

„Ég hef ekki stefnt að því árum eða áratugum saman að taka við sem formaður Læknafélagsins en þetta var farið að hvarfla að mér,“ segir hún við fundarborðið á skrifstofu sinni í Hlíðasmára. Læknablaðið ræðir við hana um fyrstu dagana í starfi og helstu verkefni framundan. Ræðir stöðu heilbrigðiskerfisins.

„Við þurfum að komast á þann stað að við séum ekki alltaf að slökkva elda. Á þann stað að við höfum tíma fyrir góða stefnumótun og aðgerðir í samræmi við hana til framtíðar. Þá er ég ekki aðeins að tala um í félaginu heldur í samfélaginu í heild.“ Stefnuleysið sé landlægur vandi. „Við þurfum framtíðarsýn og að vinna að henni. Fá heildræna sýn á kerfið,“ segir hún.

COVID-faraldurinn hafi afhjúpað að heilbrigðiskerfið sé ekki undirbúið fyrir áföll. „Við höfum staðið okkur gríðarlega vel vegna mannauðsins og þar sem fagfólkið okkar hefur fengið að stýra vinnunni umfram það sem oft er á rólegri tímum. Við ættum að nýta þennan lærdóm til framtíðar: að stjórnvöld hafi stóraukið samráð við fagfólkið á gólfinu um hvert eigi að stefna.“

Lengi sinnt félagsstarfi

Þessi öldrunarlæknir og þriggja barna móðir hefur lengi sinnt félagsstörfum lækna, lengur en margur heldur. Hún fylgdi föður sínum Þórði Harðarsyni, fyrrverandi yfirlækni á Landspítala og heiðursprófessor við Háskóla Íslands, fast eftir á aðalfundi félagsins strax á unglingsaldri.

„Já, hann gaf mér þessa bakteríu þótt það hafi verið þroskuð ákvörðun að fara í læknisfræðina. Ég hef alltaf haft áhuga á félagsmálum lækna,“ segir Steinunn sem tók við formennsku nýstofnaðs Læknaráðs á Landspítala eftir að það fyrra, sem var ráðgefandi samkvæmt lögum, var lagt niður 2020.

„Þessi hugmynd hefur vaxið innra með mér og fékk byr undir báða vængi þegar ég varð formaður Læknaráðs,“ segir Steinunn og lýsir hvernig hún hafi séð þörf á að beita sér fyrir betri vinnuaðstæðum og kjörum lækna. Ýmsir hafi hvatt hana áfram þegar ljóst varð að kjósa þyrfti nýjan formann félagsins.

„Ég ákvað að taka þessari áskorun og er mjög spennt,“ segir Steinunn sem hefur líklega forystugenin ekki síður frá móður sinni, Sólrúnu Björgu Jensdóttur, sem varð fyrst kvenna skrifstofustjóri í ráðuneyti hérlendis. Læknar og hjúkrunarfræðingar séu þó allt um kring í fjölskyldunni.

„Já, maðurinn minn er líka læknir,“ viðurkennir hún og vísar til Árna Gríms Sigurðssonar röntgenlæknis í Orkuhúsinu. „Við höfum oft hlegið að því að það vanti meiri breidd í nærumhverfið. Það væri gott að hafa iðnaðarmenn í fjölskyldunni,“ segir hún og brosir.

En verður meira hlustað á lækna nú eftir COVID? „Ég ætla rétt að vona það.“ Hún sjái aðeins jákvæðar hliðar á því að heilbrigðisstéttir séu með í ráðum.

„Það hefur komið mjög sterkt ákall frá læknum um það,“ segir hún og vísar til mótunar COVID-göngudeildarinnar, þar sem heilbrigðisstarfsfólk réð ferðinni. Dæmi um hið gagnstæða sé málið með leghálssýnin, þar hafi læknar kvartað undan samráðsleysi.

„Meðal annars Félag fæðinga- og kvensjúkdómalækna og Félag rannsóknarlækna. Þeim þótti ekki tekið nógu mikið mark á áliti sérfræðinga og ekki nógu mikið leitað til þeirra varðandi útfærslu.“ Vert sé að læra af því máli.

Steinunn hefur verið formaður nýs Læknaráðs á Landspítala frá janúar 2021. „Ég hef sagt mig frá formennskunni þar og Þórunn Jónsdóttir, sérfræðingur í gigtlækningum, hefur tekið tímabundið við formennskunni fram að næsta aðalfundi.“ Hann verði í vor. „Þá verður nýr formaður kjörinn.“

Mikilvægt sé að félagið og ráðið starfi vel saman. „Læknaráð þarf að vera öflugt. Ég beini því hér til núverandi heilbrigðisráðherra að nú gæti verið lag að endurvekja Læknaráð formlega.“ Það hafi verið mistök að strika út lækna- og hjúkrunarráðið. „Í stað þess að finnast of takmarkandi að hafa þessi tvö ráð, hvernig væri þá að endurvekja þau og bæta við ráðum fleiri heilbrigðisstétta?“ spyr hún.

„Læknaráð er með einn fulltrúa í fagráðinu sem nú starfar og við höfum fundið að það er mikilvægt að hafa þessa grasrót sem Læknaráð er á bakvið hann. Það er ekki nóg að einn læknir sé fulltrúi í fagráði sem veita á faglegt aðhald við stjórn spítalans. Hann þarf að hafa strúktúr á bakvið sig.“ Mikilvægt sé að aðrir fulltrúar stétta hafi fagráð sér að baki.

Steinunn er yfirlæknir heilabilunareiningar Landspítala og hverfur nú í hálft starfshlutfall. „Ég er mest á göngudeild í klínískum störfum mínum og ætla að halda henni gangandi eins vel og hægt er og sinna sjúklingunum mínum,“ segir hún. Hlutverk hennar sem yfirlæknir sé að gæta þess að vinnubrögðin séu fyrsta flokks og að nemum sé sinnt.

„Ég mun samræma þetta nýja hlutverki mínu fyrra og tel mikilvægt að formaður hafi tengingu við klíník og við starfið á gólfinu inni á stofnun. Ég ætla sem formaður að kynna mér aðrar stofnanir, fara víða, fara um landið, hitta fólk.“ Mikilvægt sé að vera sýnileg. Stjórnendur þurfi að sjást þar sem atið sé.

Stjórnendur stígi inn á gólfið

„Ég hvet stjórnendur spítalans til að fara á gólfið, fara á bráðamóttökuna, fara inn á COVID-göngudeildina, fara sem víðast um spítalann og hitta fólkið. Fá beint í æð hvað brennur á því. Ég held að við verðum betri í stjórnunarhlutverki ef við erum í góðum tengslum við fólkið sem vinnur vinnuna.“ En vill hún þá meina að skort hafi á þetta hjá stjórnendum spítala?

„Ég get talað út frá Landspítala sem er landfræðilega víðfeðmur. Hann er út um allan bæ. Nú er yfirstjórn spítalans staðsett í Skaftahlíð og ekki í tengslum við neina klíníska starfsstöð lengur. Það er því landfræðilegra flóknara en áður að tengjast fólkinu á gólfinu,“ segir hún.

„Sjálf, hafandi unnið á Landakoti, hefði ég viljað sjá yfirmenn koma oftar og taka á okkur púlsinn, sérstaklega í þessum krefjandi aðstæðum í kringum hópsmitin þar inni,“ segir Steinunn og vísar í það þegar COVID-faraldurinn náði til þess viðkvæma hóps sem þar er og 17 létust í kjölfar hópsmits í október 2020.

„Okkur fannst við týnd í upphafi faraldursins og svolítið gleymd en mér fannst farsóttanefndin taka vel við sér í seinni bylgjum og styðja við bakið á okkur.“ Þétt hafi verið skimað eftir smitið. „Víðtækar endurbætur standa yfir á Landakoti og verið að reyna að bæta húsnæðið í samræmi við þá gagnrýni sem fram kom.“

Bent hafi verið á vankantana árum og reyndar áratugum saman. „Það á við um húsnæði Landspítala víða, ekki aðeins á Landakoti. Húsnæðið stæðist ekki nútímakröfur varðandi sóttvarnir.“ Á daginn hafi komið að ábendingarnar hafi verið réttmætar en viðhorfið verið að leysa vandann ef upp kæmi krísa.

„Við eigum að vera duglegri að horfa fram í tímann. Framvirk hugsun sparar okkur útgjöld og fækkar áföllum seinna meir,“ segir Steinunn. Koma þurfi fram við starfsfólk heilbrigðisstofnana af sanngirni. Það skipti sjúklinga máli.

„Ef læknum líður vel í vinnunni og fá tækifæri til að sinna símenntun, þróast í starfi og fá sína hvíld þjóna þeir sjúklingunum betur.“

Brýnt að semja við stofulækna

„Eitt af okkar allra brýnustu verkefnum er að landa samningum sjálfstætt starfandi lækna við ríkið,“ segir Steinunn. Læknar hafi þurft að hækka gjöld á sjúklinga til að standa undir rekstri. „Við viljum að heilbrigðiskerfið sé aðgengilegt öllum,“ segir hún. Sjálfstætt starfandi læknar séu mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu. „Ef það hriktir í þeirri stoð finnst það alls staðar annars staðar í kerfinu.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica