01. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Valtýr Stefánsson Thors vill víðtækari bólusetningar barna hér á landi

Allt að 20% barna undir 5 ára aldri fá niðurgang af völdum rótaveiru á hverju ári sem koma mætti í veg fyrir með bólusetningu. Þetta segir Valtýr Stefánsson Thors, barnalæknir. Hann hefur ekki áhyggjur af því að óöryggi margra við að bólusetja börn gegn COVID-19 dragi úr fólki að þiggja aðrar bólusetningar fyrir þau

Bólusetja ætti íslensk börn með rótaveirubóluefnum, segir barnasmitsjúkdómalæknir.

„Rótaveira er meltingarfærasýking sem sýkir 10-20% allra barna undir 5 ára aldri á hverju ári. Hún er algengasta ástæða garnasýkinga hjá börnum á þessum aldri og veldur niðurgangi og uppköstum. Hún kemur í faröldrum og þá veikjast oft allir á heimilinu. Hún veldur fjarvistum foreldra frá vinnu,“ segir Valtýr en hann og læknarnir Íris Kristinsdóttir og Ásgeir Haraldsson gerðu rannsókn á sýkingunni.

Valtýr Stefánsson Thors vill sjá börn á Íslandi bólusett fyrir rótaveiru. Hann hvetur einnig foreldra 5-11 ára barna til að bólusetja þau gegn COVID-19. Mynd/gag

„Við höfum sýnt fram á að það væri verulega hagkvæmt að taka upp þetta bóluefni hér á landi.“ Þau hafi rætt við sóttvarnayfirvöld sem hafi tekið vel í málið en það svo fallið í skugga COVID-19. „Það er algjörlega orðið tímabært að við tökum þessa bólusetningu upp.“

Valtýr segir árangur bólusetninga á Íslandi ríkan og nefnir sérstaklega árangur bólusetninga við meningókokkum C. „Við sjáum vart heilahimnubólgu og blóðsýkingar hjá börnum nú orðið, sem var býsna algengur sjúkdómur um aldamótin.“ Einnig sé árangurinn frábær eftir bólusetningar gegn pneumókokkum sem teknar voru upp fyrir áratug.

Valtýr bendir á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hafi lagt til að öll börn í heiminum eigi að vera bólusett við lifrarbólgu B. „Ástæðan er að bóluefni við lifrarbólgu B hafa fyrirbyggjandi mátt gegn krabbameini,“ segir Valtýr. Lifrarbólga B er algeng í Asíu.

„Sjúkdómurinn er sjaldgæfur í íslensku samfélagi nema hjá börnum sem hafa flutt til landsins. Rökin hér hafa því verið að bólusetningin sé óþörf. En þetta er eitthvað sem mörg lönd í Evrópu gera. Einnig sum lönd í kringum okkur. Til að mynda er bólusett við lifrarbólgu B í Hollandi og Þýskalandi.“

Valtýr verður með erindi um bólusetningar barna þann 21. janúar á Læknadögum. Hann segir að þótt huga þurfi að því að fjölga bólusetningum barna hér á landi sé mikilvægt að fara varlega í það. Horfir hann til Hollands þar sem hann stundaði sérnám.

„Hollendingar hika við að bæta bóluefnum við af ótta við að það dragi úr þátttökunni. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því hér á landi því viðhorf foreldra er mjög jákvætt og 95% láta bólusetja börnin sín,“ segir hann. En telur hann að mótbárur við bólusetningu barna gegn COVID-19 dragi úr fólki almennt að láta bólusetja börnin sín?

„Nei, ég held ekki. Við þekkjum að inflúensubólusetningar veita aðeins allt að 60% vörn. Málið er að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Það sama á við með COVID-19 bólusetningar.“ Þau bólusettu veikist minna.

Um 4000 börn hafa smitast af SARS-COV-2 veirunni hér á landi. Fimm hafa verið lögð inn á sjúkrahús en öllum fylgt eftir í veikindum sínum. Þrjátíu hafa þurft aðstoð á spítalanum. „Þótt börnin verði ekki það veik að þau þurfi að leggjast inn á spítala glíma þau sum við fylgikvilla. Til að mynda bakteríusýkingar eða þetta svokallaða fjölkerfabólgufyrirbæri. Bólusetningar koma í veg fyrir það,“ segir Valtýr.

„Þær koma væntanlega líka í veg fyrir langtímaeinkenni COVID-19.“ Bólusetningin minnki útbreiðslu sýkingarinnar sem minnki líkur á að loka þurfi skólum og frístundastarfsemi. „Börnin geta þá lifað eðlilegu lífi, sem er afar mikilvægt.“

En óttast hann að fylgikvillar bóluefnanna komi fram síðar á lífsleiðinni? „Nei, það geri ég ekki. Þessi bóluefni hafa verið í gangi í heilt ár og ekkert komið fram sem veldur ugg,“ segir hann, en þó sé mikilvægt að skrá aukaverkanir. Bóluefni séu almennt vel rannsökuð. Þau hafi oft víðtækari áhrif en á sjúkdóminn sem bólusett er fyrir. Áhrifin geti því orðið jákvæð gegn öðrum veirum líka.

„Börn sem bólusett eru gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt með MMR-bólefni eru líka varin gegn margvíslegum öðrum sýkingum. Við sjáum svipuð áhrif vegna bóluefna gegn berklum. Það hefur verndandi áhrif gegn öðrum sýkingum líka.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica