01. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Svört könnun meðal almennra lækna á Landspítala, Berglind Bergmann fer yfir stöðuna
43,5% almennra lækna á Landspítala hafa oft eða mjög oft upplifað einkenni kulnunar síðustu 12 mánuði. 25% eru því frekar eða mjög sammála að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi. 45% hafa íhugað minnst einu sinni í mánuði að hætta. Þetta sýnir ný könnun Berglindar Bergmann
Alls 21,5% almennra lækna hafa mjög oft upplifað kulnunareinkenni á síðustu 12 mánuðum. Önnur 22% hafa oft upplifað þau. Samtals finna því nærri 44% almennra lækna oft eða mjög oft fyrir kulnunareinkennum. Þetta sýna niðurstöður könnunar Berglindar Bergmann fyrir Félag almennra lækna, þar sem hún situr í stjórn.
Berglind Bergmann er fyrrum formaður stjórnar FAL og nú í stjórninni. Mynd/gag
„Rúm 11% læknanna eru svo mjög sammála að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunareinkenna og/eða örmögnunar á síðastliðnum 12 mánuðum, og um 14% eru frekar sammála þeirri staðhæfingu. Samtals eru 45 læknar í þessari stöðu,“ segir Berglind og bendir á að fjöldi lækna íhugi að hætta störfum.
„Tæp 15% læknanna íhuguðu nær daglega að hætta á Landspítala, 17% hafa íhugað það vikulega og tæp 15% einu sinni í mánuði. Þetta þýðir að tæplega helmingurinn, eða 45%, hefur íhugað í það minnsta einu sinni í mánuði að hætta. Það væri slæmt fyrir Landspítala að missa þetta fólk,“ segir Berglind.
Rúmlega 180 læknar svöruðu
Könnunin byggir niðurstöðurnar á svörum rúmlega 180 almennra lækna. 65% þeirra starfa nú á Landspítala, 15% á heilsugæslu og 12% eru komin í sérnám erlendis. Berglind segir að tilefni könnunarinnar hafi verið orð þáverandi heilbrigðisráðherra um að neikvæð umræða um spítalann hefði fælandi áhrif á ungt og heilbrigðismenntað fólk frá Landspítala. Stjórn FAL hafi því farið af stað, safnað sögum og fengið góða innsýn inn í starfsemina.
„Þetta voru margs konar sögur, allt frá óánægju með búningsklefa til alvarlegri ofbeldismála,“ lýsir Berglind sem ákvað í kjölfarið að gera tvær kannanir. „Annars vegar um störf almennra lækna á Landspítala og hins vegar um barnshafandi lækna, sem við vinnum nú einnig að.“
Könnunin nú sýni að álag og vinnuumhverfi stýri upplifun almennra lækna. „Þeir upplifa að vinnuveitandinn sé aktíft að vinna á móti þeim en sé ekki með þeim í liði. Fólk upplifir að reynt sé að hafa af þeim réttindi og kjör,“ segir Berglind og að það sjáist í málaferlum Læknafélagsins fyrir Félagsdómi vegna þess að Landspítali hafi tekið af launaauka vegna forfallavakta.
Berglind bendir á að könnunin sýni að rúmlega 92% almennra lækna meti sem svo að þeir vinni yfir klukkutíma ólaunaða yfirvinnu á viku. „Stór hópur vinnur 3-5 ólaunaða vinnutíma á viku. Mér finnst hræðilegt að sjá 5-10 klukkutíma á viku þar sem fólk situr eftir vinnu, klárar verkin og gefur vinnuna sína,“ segir Berglind.
„Stimpilklukkur eru á Landspítala. Við höfum því óskað eftir gögnum til að skoða hvort upplifunin sé í takti við það sem mælist og eigum von á þeim.“
Finnst spítalinn ekki aðlaðandi
Tæplega 80% almennra lækna eru mjög ósammála eða frekar ósammála fullyrðingunni að Landspítali sé aðlaðandi vinnustaður. Rúmlega 40% eru mjög ósammála eða frekar ósammála um að Landspítali sé framtíðarvinnustaður sinn.
Berglind bendir á að heilsugæslan sé nú í harðri samkeppni við spítalann um mannauðinn enda sýni könnunin að 20 læknar, eða 11%, hafi hætt á Landspítala og horfið til starfa á heilsugæslunni. Þá hafi 5% hætt á Landspítala og flutt sig á annað sjúkrahús og 3% hætt í klíník.
„Læknar hættu vegna álags og -óánægju með starfsumhverfi eða vinnuaðstæður. Aðrar algengar ástæður voru að Landspítali væri ekki nógu fjölskylduvænn vinnustaður. Þeir voru óánægðir með kaup og kjör, og of mikið álag,“ segir hún. Tilfinningin sé að læknar horfi til heilsugæslunnar til betra lífs. Hún geri betur við sitt fólk í launum en Landspítali.
„Algengasti launaflokkurinn þar er 203 en 200 á Landspítala. Þar fylgja launin framgangi í námi en þannig er það ekki á Landspítala sem við getum vonandi breytt,” segir hún. „Almennir læknar, ungt fólk í dag, eru að hugsa um líf sitt. Áður lifði fólk til að vinna og vera læknir. Nú vinnum við sem læknar til að lifa. Við viljum fjölskylduvænt starf.“
Landspítali skoði stöðuna
En er þetta falleinkunn fyrir stjórnendur spítalans? „Ég geri greinarmun á faglegum stjórnendum og öðrum. Við sjáum í svörum að ekki er talað illa um sérnámsbrautir spítalans, miklu frekar aðstæðurnar sem skapast á spítalanum,“ segir hún.
„Yfirlæknir sérnáms og kennslustjórar með fleirum hafa unnið frábæra vinnu í uppbyggingu sérnáms á Íslandi. Það er því mikil synd að aðstæðurnar á spítalanum og kjaramál hafi neikvæð áhrif á þá góðu vinnu,“ segir hún.
„Ég vil ekki segja falleinkunn heldur benda á að við höfum náð núllpunkti, en höfum nú gögn; þessa könnun sem og könnun Læknaráðs og Félags sjúkrahúslækna. Ég væri til í að það myndi skapast virkt samtal til úrbóta nú með nýjum heilbrigðisráðherra og forstjóra.“
Rúmur þriðjungur orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða mismunun
34% almennra lækna telja sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, kynbundinni mismunum, ofbeldi og/eða einelti. Rúm 8% almennra lækna telja sig hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í starfi sínu. Algengast er að það hafi verið af hendi sjúklings.
„Ég hélt að niðurstaðan yrði að fólk væri ósátt með stuðninginn sem það fékk en mig óraði ekki fyrir því að nánast enginn leitaði eftir stuðningi,“ segir Berglind. Verklag sé til hjá spítalanum um hvernig taka eigi á slíkum málum. „En því virðist ekki fylgt,“ segir Berglind. „Það þarf að gera betur.“
Rúm 17% almennra lækna segja að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. „Niðurstöðurnar sýndu að oftast var hún af hálfu sjúklings, næst algengast frá öðrum lækni og þriðja algengast af hálfu aðstandanda sjúklings. Einnig hafa tæp 19% almennra lækna upplifað kynbundna mismunun,“ segir hún. Sláandi fáir leiti sér aðstoðar spítalans en rúm 20% sögðust hafa gert það en fengið lítinn sem engan stuðning.
„Ferlið er ógagnsætt,“ segir hún. „Fólk veit margt ekki hvernig það á að leita sér stuðnings og/eða telur að það hafi ekkert upp á sig.“ Hún segir læknisstarfið sérstakt. „Við almennir læknar, sem komum til baka sem sérfræðingar, erum í þröngri stöðu. Þetta er lítið samfélag, fólk þekkist og við þurfum að hafa leiðir til að láta vita án þess að óttast að það skaði starfsferil okkar,“ segir hún að lokum.