01. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Fundur norrænu læknablaðanna í Kaupmannahöfn

Það er víst orðin hálf öld síðan norrænu læknablöðin tóku upp á því að funda saman um sín innri mál. Síðustu ár hefur tíminn liðið svo hratt að það hefur þurft að halda fundina árlega en hann féll auðvitað niður COVID-árið mikla í fyrra einsog flest annað. En í byrjun nóvember komu fulltrúar blaðanna saman og Danir skipulögðu og voru gestgjafar.

Fundarmenn höfðu allir stigið ölduna síðan síðast, unnið heima, orðið veikir, og misst sjónina yfir teams og zoom og öllu því. En blöðin nýttu líka af öllum kröftum tækifærin sem fólust í heimsfaraldrinum og komu sér upp stífu verklagi sem leiddi til þess að hægt var að birta ritrýndar greinar um COVID með frekar stuttu tilhlaupi.

Hópurinn fór upp á 19. hæð í nýja Mærsk-turninum í stórborgarrökkrinu. Mynd/Védís

Ef draga má einhvern lærdóm af faraldrinum fyrir blöðin má segja að hann sé sú krafa sem af honum sprettur um að sýna meiri fjölbreytileika í öllum skilningi, að miðla ritrýndu hágæðaefni á fjölbreyttan hátt. Öll blöðin hafa reynt þetta á eigin skinni. Þetta gildir líka um að hugsa um viðtakendur, nú er læknahópurinn mun meira samsettur en áður var, í hópnum eru konur og útlendingar og yngra fólk. Nauðsynlegt að hafa alla breiddina sýnilega, bæði meðal höfunda og ritrýna, en líka í ritstjórnum, og hafa tiltækar tölur um kynjaskiptingu.

Eitt helsta tákn þess að læknar séu í læknafélagi er hið prentaða Læknablað, það gildir alls staðar. Og nú deilast brot úr blöðunum auk þess um allt, þau eru sýnileg á samfélagsmiðlum og fara þar langt út fyrir raðir lækna.

Næsti fundur hópsins verður heima á fróni haustið 2022.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica