01. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Breska heimilislæknafélagið heiðrar Katrínu Fjeldsted

 – Segja Katrínu fyrirmynd mun fleira fólks en hún geri sér grein fyrir

Konunglega breska heimilislæknafélagið (RCGP) sæmdi Katrínu Fjeldsted heiðursfélaganafnbót við hátíðlega athöfn þar ytra 19. nóvember. „Það var mjög gaman,“ segir Katrín í símtali við Læknablaðið. „Maður fór bara hjá sér,“ segir hún og hlær.

Í umsögn um ríkulegt félagsstarf Katrínar og starfsferil segir: „Hún er fyrirmynd og mentor fleira fólks en hún getur örugglega ímyndað sér, og áhrif hennar ná ekki aðeins til Evrópu heldur á heimsvísu.“

Katrín Fjeldsted með Mary McCarthy, varaforseta UEMO.

Katrín er ekki aðeins fyrrum borgarfulltrúi og alþingismaður. Hún var kjörin forseti Evrópusamtaka lækna, CPME, árið 2012 en hafði verið fulltrúi Læknafélags Íslands þar frá árinu 2000, setið í stjórn samtakanna frá 2006 og verið gjaldkeri. Hún er heiðursfélagi í LÍ og FÍH, hefur setið í stjórnum félaganna og fjölda nefnda á vegum yfirvalda.

„Það skiptir máli fyrir land eins og okkur að deila hugmyndum og vita hvernig hlutirnir eru hjá öðrum þjóðum, styðja hvert annað og læra af hvert öðru,“ segir Katrín spurð um mikilvægi félagsstarfa lækna.

Katrín hætti að starfa sem heimilislæknir sjötug en er þó ekki hætt að starfa nú 5 árum síðar. „Ég vinn sem verktaki fyrir Tryggingastofnun og tala við fólk sem sækir um örorku,“ segir hún. „Ég fylgdi líðan fólks eftir sem heimilislæknir í hátt í 40 ár. Ég kynntist fólki í gleði og sorgum, en í þessu tilviki er þetta öðruvísi. Ég tala einu sinni við manneskjuna í einn til tvo tíma,“ segir hún og að það sé afar áhugaverð reynsla.

Katrín fékk almennt lækningaleyfi árið 1977 og sérfræðileyfi 1980. Hún hóf félagsstörf fyrir hönd lækna í stjórn Félags íslenskra lækna í Bretlandi á námsárunum þar, samkvæmt bókinni Læknar á Íslandi, H-O. Og restina þekkjum við öll. Til hamingju Katrín.Þetta vefsvæði byggir á Eplica