12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis á Egilsstöðum. Anna Mjöll Matthíasdóttir

07:20 Kominn tími til að fara á fætur eftir um klukkutíma langt snús. Langþráður draumur um að verða hin fullkomna A-manneskja verður ekki að veruleika þennan daginn, frekar en aðra daga. Fyrsta verk er að setja tónlist í eyrun til að rífa mig í gang. Bursta tennur, fer í það fyrsta sem ég sé í fataskápnum (eftir að hafa skipt um skoðun nokkrum sinnum) og set á mig andlitið fyrir daginn. Næ ekki að fá mér morgunmat heima enda klukkan orðin 7:58 og best að haska sér í vinnuna.

08:00 Morgunfundur með mínum góðu kollegum. Alltaf gott að byrja daginn á rjúkandi kaffibolla og léttu spjalli um vaktamál og áhugaverð tilfelli.

08:20 Vikuleg æfing lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutningamanna. Í dag kom það í minn hlut að stjórna æfingunni og förum við saman í gegnum öndunarvegabúnaðinn í sjúkrabílnum og ræðum um loftvegameðferð.


Anna Mjöll við skrifborðið sitt á heilsugæslunni við Lagarás á Egilsstöðum.

09:00 Tek við vaktsímanum þar sem ég er með flýtivaktina í dag. Byrja á að rölta niður í matsal og fæ mér morgunmat sem samanstendur af brauðsneið með osti og gúrku ásamt mjólkurglasi. Fer því næst upp á skrifstofu og sé að það er byrjað að bóka á mig nokkur erindi fyrir daginn.

09:10 Flýtivaktin hefst og inn koma fjölbreytt tilfelli eins og vanalega. Leikskólabarn með langdregið kvef og öndunarfæraeinkenni, unglingsdrengur með brotna tá, eldri kona með byrjandi ristil og drengur með skurð á hné sem þarf að sauma.

10:30 Vaktsíminn pípir og ég sé að það er F1 útkall. Fer með sjúkrabílnum í heimahús og reynist þar vera eldri einstaklingur með brjóstverk. Við förum með sjúklinginn upp á heilsugæslu til skoðunar og tökum þar EKG og veitum fyrstu meðferð. Í kjölfarið er tekin ákvörðun um flutning á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem frekari uppvinnsla leiddi í ljós NSTEMI.

12:15-13:00 Maðurinn minn sækir mig á heilsugæsluna og förum við út að borða á veitingastaðnum Salt þar sem er alltaf ljúffengur matur í hádeginu. Hittum þar Fanneyju lækni og manninn hennar og spjöllum um allt annað en vinnuna. Allir panta sér rétt dagsins sem að þessu sinni er chili con carne með hrísgrjónum og salati. Vaktsíminn er til friðs.

13:00 Endurnærð eftir hádegismatinn held ég áfram með flýtimóttökuna. Sinni ýmsum verkefnum á vaktinni en þar ber hæst að inn koma tveir menn með stuttu millibili vegna þreytu og mæði. Þeir reynast báðir vera með nýtt gáttatif sem óljóst er hvenær byrjaði. Ég set þá á meðferð í samráði við ráðgefandi hjartalækni á Landspítalanum og legg upp plan varðandi uppvinnslu og eftirfylgd. Sannkölluð tveir-fyrir-einn afgreiðsla.

16:00 Vinnudegi lokið og kominn tími til að fara heim. Ég tek við bakvaktarsímanum en þar sem annar reyndur sérnámslæknir er á forvaktinni er líklegt að það verði rólegt.

16:20 Fer í góðan göngutúr um Selskóg með hundinn og manninn. Skrepp því næst í búð og sinni helstu heimilisverkum. Fáum okkur grjónagraut og lifrarpylsu á meðan við horfum á einn Kappsmál á voddinu (sannkallaðir Rúv-arar hér á ferð).

19:00-20:30 Fer á fimleikaæfingu ásamt góðum vinkonum úr vinnunni. Er með vaktsímann á hliðarlínunni á meðan við rifjum upp gamla takta og reynum að slasa okkur ekki alvarlega.

20:40 Áfram er allt með kyrrum kjörum á vaktinni. Ég ákveð því að skella mér með vinkonunum í Vök eftir æfinguna með vaktsímann í fyrsta flokks plastvasa utan um hálsinn. Úti er stjörnubjart og sé ég að það glittir í norðurljós læðast yfir fjallið. Þær sem vilja fá sér drykki á barnum og eigum við notalega stund saman úti í vökinni.

22:00 Kem heim og heyri strax spangólið í hundinum sem er greinilega glaður að sjá mig enda búin að vera að heiman í næstum þrjá klukkutíma. Við horfum á heimildaþátt um raðmorðingja, sem er alltaf kósý svona fyrir svefninn.

23:00 Kominn tími til að skríða í ból. Ljúf rödd Veru Illugadóttur svæfir mannskapinn með frásögn af morðinu á Olof Palme. Áfram hef ég háleit markmið fyrir morgundaginn að verða hin fullkomna A-manneskja.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica