12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Tveir dauðir Skotar og kattarhræ. - Magnús Jóhannsson skrifar

Ég hóf nám í læknadeild HÍ haustið 1962 en á þessum árum fór drjúgur hluti af náminu á fyrstu þremur árunum í líffærafræði. Við þurftum að læra öll heitin á íslensku, latínu, ensku (Grays anatomy) og þýsku (Lehrbuch der Topographischen Anatomie). Þetta fannst mér blóðugt og hefði frekar kosið að læra meira í lífeðlisfræði og lífefnafræði og ég var vissulega ekki einn um þá skoðun. Við lögðum samt hart að okkur við þetta nám enda var það viss sía inn í læknadeild á þessum árum. Galli á þessu námi var að nánast engin verkleg kennsla var í boði, einungis bækurnar sem þó voru fagurlega myndskreyttar.

Að kryfja kött

Það mun hafa verið á árinu 1963 að vini mínum Sigurði B. Þorsteinssyni áskotnaðist dauður köttur. Hann bauð mér að taka þátt í að kryfja köttinn og læra líffærafræði af því verki. Við fengum aðstöðu í kjallaranum hjá foreldrum Sigurðar í Hafnarfirði og krufðum köttinn látlaust í einar tvær vikur. Krakkarnir í hverfinu lágu löngum stundum á glugganum og fylgdust með af miklum áhuga og við urðum smám saman þess varir að nánast allir íbúar Hafnarfjarðar vissu af þessari iðju okkar sem þótti frekar ógeðsleg. Okkur gekk ekki nema mátulega vel að tengja það sem við fundum við líffærafræði mannsins en eitthvað hljótum við að hafa lært af þessu. Að lokum settum við allt gumsið í stóran pott og suðum lengi, við mikinn fögnuð krakkastóðsins, til að fá beinin hrein. Ætlunin var að setja beinagrindina saman en af því varð aldrei enda tímafrekt. Nokkru síðar stóð Sigurður og beið eftir strætó í Hafnarfirði en á garðvegg labbaði köttur sem Sigurður fór að strjúka. Kemur þá kona strunsandi frá húsinu, þrífur köttinn, horfir manndrápsaugum á Sigurð og hverfur á brott með köttinn undir handleggnum. Við vorum sem sé orðnir frægir að endemum um allan Hafnarfjörð.

Um haustið 1964 breyttist allt. Þá bauðst íslenskum læknanemum, í fyrsta sinn, að fara til Skotlands á alvöru krufninganámskeið. Við vorum 10 sem fórum til Glasgow þar sem við dvöldum í rúman mánuð. Prófessor Jón Steffensen var með okkur fyrstu dagana og aftur undir lokin en hann vildi sjá hvernig þetta færi fram og leggja mat á hugsanlegt framhald slíkra námskeiða erlendis. Við sinntum þessu námi af mikilli elju og áhuga frá morgni til kvölds enda gerðum við okkur vel grein fyrir því að framtíð þessara námskeiða var að nokkru leyti í okkar höndum. Við höfðum ágæta kennara og í lok hverrar viku var próf. Samtímis okkur voru þarna um 30 danskir læknanemar og hafði þetta námskeið staðið dönskum til boða í einhver ár. Þeir dönsku sinntu ekki náminu sem skyldi, mættu illa í krufningar og próf en stunduðu af þeim mun meiri ákafa pöbbarölt og annað slark. Þau höfðu líka í frammi ýmis konar fíflagang með líkin sem ég held að hafi hneykslað okkur Íslendingana. Okkur var sagt að líkin væru ýmist af útigangsfólki sem ekki hefði tekist að bera kennsl á eða fólki sem hefði gefið líkama sinn til kennslu eða rannsókna.

Á stúdentagarði í Glasgow

Í Glasgow bjuggum við á stúdentagarði og vorum þar líka í fæði sem var bæði vont og of lítið. Við vorum því oft svöng og reyndum að útvega meiri mat til viðbótar við það sem við fengum á garðinum. Einn okkar keypti dós með girnilegum kjötrétti en þegar heim var komið og dósin skoðuð betur reyndist þetta vera kattamatur. Ég held að á þessum árum hafi ekki fengist kattamatur í dós á Íslandi. Eitt fyrsta kvöldið okkar fórum við á pöbb til að smakka bjórinn. Ég hef einstakt lag á að koma mér í vandræði og í samræðum við barþjóninn varð mér á að segja „here in England“. Þetta heyrði stór og kröftugur Skoti sem reiddist mjög og hótaði mér meiðingum. Barþjónninn bjargaði mér með því að útskýra snarlega að ég væri fávís útlendingur. Við þetta róaðist gaurinn en ég neyddist til að hlusta á hann í tvo klukkutíma gefa mér yfirlit yfir sögu Skotlands þar sem iðulega var lýst bardaga þar sem Englendingarnir voru margfalt fleiri en Skotarnir sem fóru samt létt með að drepa þá alla.

Við áttum frí á sunnudögum og þá fórum við í heimsóknir í viskíverksmiðjur héraðsins þar sem við vorum oftast leyst út með gjöfum.

Engin kynding var á garðinum fyrr en 1. október þrátt fyrir að veðrið væri orðið rysjótt og kalsalegt. Það útheimti því talsvert átak að skríða í kalt og rakt bælið sitt á kvöldin en Sigurður heitinn Friðjónsson, sem deildi með mér herbergi, fann snjallt ráð við því. Við fengum okkur góðan sjúss af Benediktín-líkjör áður en við fórum í háttinn og þá fann maður ekki eins fyrir kuldanum.

Í september var Edinborgarhátíðin á fullu og nokkrir í hópnum vildu ekki missa alveg af þessari frægu hátíð; enda ekki svo langt á milli Glasgow og Edinborgar. Við drifum okkur á eina tónleika þar sem Svjatoslav Richter og Mstislav Rostropovich fluttu sónötur Beethovens fyrir selló og píanó. Þetta voru ógleymanlegir tónleikar enda fáir sem stóðu þeim félögum á sporði.

Ég viðurkenni fúslega að þetta skoska námskeið opnaði nýja sýn á líffærafræði mannsins og jók stórlega áhuga minn á þessari annars frekar þurru fræðigrein.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica