12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bókadómur. Gilgameskviða. - Óttar Guðmundsson skrifar

Gilgameskviða. Þýðing Stefáns Steinssonar læknis. Forlagið 2021

Á undanförnum árum hef ég skoðað Íslendingasögur og Sturlungu með augum geðlæknis. Það er hægt vegna þess að maðurinn hefur ekkert breyst á eirðarlausri göngu sinni gegnum aldirnar. Neikvæðar tilfinningar eins og öfund, afbrýðisemi, losti og græðgi ásamt jákvæðari eiginleikum eins og hreinskilni, fórnarlund og gjafmildi stjórna öllum gjörðum mannsins. Maðurinn er á engan hátt gáfaðri en hann var í árdaga. Nútímamaðurinn getur auðveldlega skilið sálarlíf Snorra Sturlusonar vegna þess að mannlegt eðli hefur ekkert breyst.

Margur gamall texti höfðar til okkar vegna þess að við þekkjum okkur sjálf í honum. Ræðumenn í afmælisveislum samtímans geta óhikað vitnað í Hávamál vegna þess að hugsun kvæðisins er síung og ódauðleg. Menningarsaga mannkyns er vörðuð bókmenntum sem varðveita sögu og hugsunarhátt genginna kynslóða. Þessar bókmenntir eru tímalausar vegna þess að maðurinn er alltaf samur við sig.

Eitt þessara verka er Gilgameskviða sem er saga herkonungs í Mesópótamíu frá árinu 2700 f.Kr. Gilgames er gæddur sérstökum krafti og gjörvileika eins og Gunnar á Hlíðarenda en hann er líka breyskur og hrokafullur. Hann kemur fram við þegna sína eins og grimmur þjóðhöfðingi og sængar hjá öllum ungum konum áður en brúðguminn fær að njóta þeirra. Hann er markalaus og æðir um eins og graður tarfur. Borgararnir snúa sér til guðanna og þeir skapa annan mann, Enkídú, sem er eins konar spegilmynd Gilgamesar.

Þeir Gilgames og Enkídú verða svo sannfærðir um eigið ágæti að þeir fara að storka guðunum. Það kallar á gamalkunn viðbrögð sem líkist Nemesis í grísku goðafræðinni. Þeir drepa hinn slæga Enkídú og Gilgames situr yfir líkinu í djúpri sorg. Hann áttar sig á eigin dauðleika og heldur af stað í leit að ódauðleikanum. Guðirnir reyna að telja honum hughvarf og biðja hann að njóta þess sem hann hefur en festast ekki í óraunhæfum væntingum og hégóma. Gilgames lætur sér ekki segjast og æðir áfram eins og nútímamaður með adhd í leit að hinum endanlegu veraldlegu verðmætum. Hann áttar sig smám saman á því að ódauðleikinn felst í því sem hann skilur eftir sig.

Gilgames er mikil og ófyrirleitin hetja en jafnframt hrokafullur og narsissistískur og þráir viðurkenningu og völd. Líf hans verður sókn eftir vindi. Hann minnir í þessu tilliti á þá Gissur Þorvaldsson og Sturlu Sighvatsson úr Íslandssögunni.

Þessi saga hefur haft áhrif á fjölmarga höfunda. Hinn vitri Ódysseifur er eins og spegilmynd af Gilgames í eilífri leit sinni að hamingju. Nútímamenn þekkja í Gilgamesi marga nýaldarspámenn og sveppasölumenn samtímans sem segjast hafa fundið tilgang mannlegrar tilveru. Dauðinn er orðinn ósýnilegur í nútímasamfélagi og maðurinn gleymir eigin dauðleika. Það eykur á tilgangsleysi og leiðindi tilverunnar sem gerir leitina að eilífri æsku enn örvæntingarfyllri.

Það er mikið gleðiefni að bókin um Gilgames skuli vera fáanleg á íslensku. Stefán Steinsson læknir hefur þýtt þessar kviður alveg frábærlega. Bókin kom fyrst út 1996 en var endurútgefin á dögunum í endurskoðaðri útgáfu. Þetta er ein þeirra bóka sem hefur lengi legið á náttborðinu mínu. Ég gríp í hana mér til hugarhægðar þegar heimska og tilgangsgleysi tilverunnar er að ríða mér á slig. Þá fletti ég bókinni og tauta fyrir munni mér, „svona hefur þetta alltaf verið.“

Hafi Stefán Steinsson þökk fyrir að hafa þýtt þessar fornu og merku bækur á aldeilis óaðfinnanlegan hátt. Textinn rennur eðlilega með hæfilegri blöndu af nútímamáli og hátíðlegra málfari. Það er ekki sjálfsagt mál að eiga perlur eins og þessa á íslensku. Stefán fetar í fótspor manna eins og Sveinbjarnar Egilssonar sem þýddi kviður Hómers. Meðan gáfaðir menn nenna að setjast niður í önn dagsins og þýða snilldarverk bókmenntanna á íslensku er kannski ennþá von fyrir mína voluðu fósturjörð og enskuskotnu tungu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica