12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bókadómur. 11.000 volt – þroskasaga Guðmundar Felix. - Jóhann Róbertsson skrifar

11.000 volt – þroskasaga Guðmundar Felix. Skrásett af Erlu Hlynsdóttur, Sögur 2021

Íslenska þjóðin hefur fylgst með Guðmundi Felix frá því hann slasaðist í janúar 1998 og þessi saga því verið að gerast fyrir framan okkur. Undirtitillinn þroskasaga er réttnefni. Frásögnin er eiginlega í ,,Maður er nefndur“ stíl þar sem hann rekur lífshlaup sitt. Inn í það skotið stuttum umsögnum samferðafólks og gögnum, svo sem úr málaferlum og fleiru. Þarna eru lýsingar frá gömlu Reykjavík um frjálsræðið sem fylgdi því að alast upp til dæmis í Kleppsholtinu, ævintýragirni og tilraunamennsku unglingsáranna. Lýsingar á ungu fólki að finna sér stefnu í lífinu, mynda fjölskyldu og svo framvegis. Síðan lendir hann í þessu grafalvarlega slysi 26 ára gamall, sem útaf fyrir sig er ótrúlegt að hann hafi lifað af.

Eins og margir Íslendingar þá þekkir maður til sögu hans úr fjölmiðlum. Samt er ýmislegt sem kemur á óvart og þá einkum tengt baráttu hans við alkóhólisma. Hann átti eitthvað í þeirri glímu fyrir slysið en þó á allt öðrum skala ítrekað eftir það. Finnast mér lýsingar hans á þeirri glímu um margt áhugaverðastar í frásögninni. Hann nálgast þann þátt af einlægni og ósérhlífni. Áherslur sem hann leggur á sjálfsskoðun, það að maður hefur alltaf eitthvert val, kærleika og að losa sig við að dæma fyrirfram vekja til umhugsunar. Sá sigur sem hann vann þar er forsenda þess að hann er í þeim sporum sem hann er nú. Einnig þættir í hans persónu, svo sem að hafa auga á markmiðinu og stefna þangað ótrauður. Láta ekki segja sér hvað sé hægt og hvað ekki. Hann hefur sýnt alveg ótrúlega þrautseigju og seiglu í þessari baráttu sinni og er fyrir bragðið í dag í stöðu sem sennilega fáa eða engan óraði fyrir.

Frásögn um mann sem lendir í fjöláverka í háspennuslysi, missir báða handleggi og hlýtur fjölmörg brot; glímir við alvarlega lifrarbilun og fer tvívegis í lifrarígræðslu endurtekið í meðferð vegna áfengis- og fíkniefnavanda og fer að lokum í tímamótaaðgerð þar sem græddir eru á hann handleggir í hæð við axlir, hlýtur að einhverju leyti að fjalla um læknismeðferðir. En þetta er samt ekki bók um læknisfræði. Fyrst og fremst er þetta saga mannsins sem fer í gegnum þetta allt og hans nánustu. Sagan um hvernig hann kemst frá því að vera handleggjalaus ungur tveggja barna fjölskyldufaðir í það að vera sjálfur drifkrafturinn í að fá grædda á sig handleggi. Og einnig um allt það sem lífið færði honum á meðan.

Örugglega má gera ýmsar athugasemdir við frásögnina, einstaka sögur skilja mismikið eftir, mögulega hefði mátt stytta hér og þar en það skiptir engu meginmáli. Við fáum hér sögu manns sem hefur gengið í gegnum ótrúlegan áverka og er nú staddur í miðri sögulegri meðferð.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica