12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

LR bíður eftir skýrum línum frá yfirvöldum. Guðmundur Örn er starfandi formaður

„Stóra mál Læknafélags Reykjavíkur er samningsleysið við Sjúkratryggingar Íslands. Við þurfum að finna samningnum framtíðarfarveg,“ segir Guðmundur Örn Guðmundsson, nýr starfandi formaður LR fram að aðalfundi í vor. Hann var áður varaformaður en tekur nú við af Þórarni Guðnasyni sem er í leyfi

„Þótt samningsleysið sé efst á baugi snúa verkefni LR einnig að innra starfi,“ segir Guðmundur Örn sem starfar sem bæklunarskurðlæknir í Orkuhúsinu og auk þess að starfa við að meta örorku einstaklinga sem lent hafa í slysum. Verkefnin hafi undið upp á sig. „En veturinn leggst ágætlega í mig.“

Guðmundur Örn Guðmundsson, bæklunarskurðlæknir í Orkuhúsinu, er starfandi formaður Læknafélags Reykjavíkur. Hér er hann á einni skurðstofunni í lok vinnudags. Mynd/gag

Hann segir að félagsmenn hittist nokkrum sinnum á ári til að tala um annað en þref og kjarabaráttu. Hagsmunagæslan sé rík en málum sé nú í meira mæli útvistað til Læknafélagsins, eins og til að mynda Lækningaminjasafninu, árshátíð og öðrum félagsstörfum. „Við höfum verið að straumlínulaga starfsemina.“

En hvernig standa samningsmálin? Hann segir merki um að viðsemjandinn, ríkið, vilji standa öðruvísi að samningnum en áður. „Það er þó óljóst hvernig. Ekki hefur verið lagt fram vel afmarkað skýrt módel, heldur aðeins sagt að gera eigi hlutina á annan hátt. Það leggst misvel í félagsmenn.“ Guðmundur segir að þótt venjast megi óvissunni sé hún óþægileg til lengri tíma.

Lítil framlegð af einkarekstri

„Eins og hér í Orkuhúsinu, þar sem eru tugir starfsmanna, gríðarleg fjárfesting í húsnæði og búnaði, þá er ekki besta ástand í heimi að hafa ekki skýra mynd af því í hvaða rekstrarumhverfi við erum,“ skýrir hann. „Við mætum bara í vinnuna og tökum við því sem kemur.“

En sér hann fram á að þessi óvissa eigi eftir að skapa vandræði í rekstri sjálfstæðra stofa? „Við sáum hvað lokanir vegna COVID-19 komu áþreifanlega niður á rekstrinum. Við eigendurnir þurftum að greiða inn í félagið. Það sýnir hver framlegðin er.“ Afdrif Domus Medica sem verður lokað um áramótin gefi innsýn í rekstur fyrirtækja á heilbrigðissviði. „Fyrirtæki í góðu rekstrarumhverfi eru ekki lögð niður.“

Guðmundur bendir á að rekstur sjálfstætt starfandi lækna sé að flækjast. Kröfurnar verði sífellt meiri. „Við verðum að hafa tölvubúnað í hýsingu til að tryggja öryggi, hafa persónuverndarfulltrúa, skrá þjónustuna og senda skýrslur til landlæknis, sem dæmi. Allskonar nýtilkomnir þættir sem ekki voru til staðar þegar upprunalega gjaldskráin var teiknuð upp,“ segir hann. „Veruleikinn er nýr og það virðist ekki alltaf vera skilningur á því.“

Guðmundur lýsir því hvernig sjálfstætt starfandi læknar hafi slitið viðræðum við SÍ í aðdraganda kosninga. Samstaða sé um að hefja þær ekki að nýju fyrr en ný ríkisstjórn taki við taumunum og línurnar skýrist. „Enn er sama staða og fyrir kosningar og því ekki vitað hverjar áherslurnar verða.“ Margir félagsmenn séu þeirrar skoðunar að lítill ávinningur væri af frekari samningaviðræðum.

„Þessir félagsmenn eru hvekktir vegna þess hvernig staðið var að málum þegar samningur gilti. Lokað var fyrir nýliðun og læknar sem höfðu hug á að koma heim og vinna lentu í málaþrefi.“ Félagsmenn séu því varkárir og bíði skýrrar sýnar. „Læknafélagið er að velta vöngum yfir því hvað er skynsamlegt að gera á meðan við fáum ekki skýrari merki hinum megin frá,“ segir hann.

Samstaða meðal félagsmanna

Læknafélag Reykjavíkur er eitt stærsta aðildarfélag Læknafélagsins með 490 félagsmenn. Guðmundur segir hópinn virkan. Samstaða ríki sem sjáist á þeim einhug sem birtist þegar samningaviðræðunum var slitið.

En hvers vegna tekur hann þátt í félagsstörfum? Guðmundur segir að Ragnar Jónsson, sem var formaður Félags íslenskra bæklunarlækna, hafi beðið hann að koma í samninganefndina fyrir það félag. „Ég fór í kjölfarið í samninganefnd LR.“

En af hverju er hann læknir? Hann var ungur og ómótaður og elti félaga sína í námið. Enginn læknir er í fjölskyldunni. „Það var tilviljun. „En ég byrjaði og gekk ágætlega þannig að þá var bara að halda áfram,“ segir hann.

En af hverju þessi sérgrein? „Margt kom til greina en einhvern veginn komu bæklunarlækningar upp.“ Aðgerðir hafi heillað hann og að vinna með höndunum. „Það brýtur upp flæðið. Svo vann ég á Borgarspítalanum og þar var fagið mjög sýnilegt.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica