12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Augnlæknum hefur fækkað og aðgerðum fjölgað á Landspítala, segir María Soffía Gottfreðsdóttir

Stöðugildum augnlækna hefur fækkað um 36% á 15 ára tímabili

„Starfsemi okkar augnlækna á Landspítala hefur breyst mikið. Mun meiri áhersla er á klíníska starfsemi en lítil á vísindavinnu,“ segir María Soffía Gottfreðsdóttir, eini augnskurðlæknirinn á Íslandi sem sinnir sérhæfðum glákuaðgerðum, sú eina síðustu 20 ár, eða allt frá árinu 2000. „Við gerum fleiri augasteinaaðgerðir og sjáum sprengingu í lyfjainndælingu í augnbotna. Meðferðin hefur þanist út og tekur til dæmis mikinn tíma frá deildarlæknum sem sinna inndælingunum,“ segir hún. „Ég geri mun fleiri aðgerðir en þegar ég kom fyrst heim úr námi.“

María Soffía starfar á Landspítala á göngudeild augnsjúkdóma sem áður hét göngudeild augnlækninga. Mynd/gag

María bendir á að nokkuð af starfsemi augnlækna fari fram á augnlæknastöðvum utan spítalans. Líkur séu á að sú þróun verði nú enn hraðari. „Mikilvægt er að fram fari greining á þörf fyrir sérfræðilækna í mismunandi sérgreinum og samtal um hvernig best er að hafa áhrif á sérhæfingu og menntun yngri augnlækna.“

Hún segir jákvætt að ýmsar smærri aðgerðir hafi flust frá spítalanum. Á sama tíma hafi öðrum verkefnum, sem gætu einnig verið unnin utan spítalans, fjölgað gífurlega. „Það kemur niður á annarri starfsemi, svo sem vísindavinnu, en ég tel að starfsemi háskólasjúkrahúss ætti að snúast um meðferð flóknari sjúkdómstilfella, vísindavinnu og kennslu.“ Vísindastarf deildarinnar hafi verið í miklum blóma um aldamótin en sé nú nær alveg dottið niður.

Augnsjúkdómadeildin er nýflutt af Eiríksgötu 37 vegna myglu og í nýja göngudeildarhúsið að Eiríksgötu 5. María segir deildina með þeim fyrstu sem sé komin í varanlegt húsnæði. Hún hefði kosið meira samráð um aðstöðuna. Skurðstofurnar séu minni og því mjög þröngt komi gestir og nemar. Einnig séu nú opin vinnurými fyrir hvern sem fyrstur kemur að.

„Þau henta kannski sumstaðar en mörgum okkar finnst þau ekki eiga við í okkar starfi. Vinnurýmin eru ópersónuleg og ekki hvetjandi til vísindavinnu en við höfum engar sérstakar hirslur til að geyma vísindagögn fyrir utan svokallaða munaskápa sem eru dreifðir um deildina. Þá er mikilvægt að hafa næði þegar við vinnum með viðkvæm gögn sjúklinga okkar.“

Við flutningana var nafni deildarinnar breytt úr göngudeild augnlækninga í augnsjúkdóma. „Orðin læknir og að lækna hefur verið afmáð úr starfsemi okkar. Það finnst mér bæði skrýtið og leitt því hér snýst allt um lækningar, að greina sjúkdóma og lækna þá,“ segir hún.

María segir að frá því að hún kom heim úr 7 ára sérfræðinámi við Duke- og síðar Michiganháskóla í Bandaríkjunum hafi margt breyst.

Tölur hagdeildar Landspítala sýna að stöðugildi sérfræðinga og yfirlækna deildarinnar voru 7,42 árið 2006 en eru nú 4,77. „Á sama tíma og stöðugildum augnlækna á deildinni fækkar, hefur sjötugum og eldri, sem er meginþorri sjúklingahópsins, fjölgað um 58% frá aldamótum.“ Hún finni fyrir meiri pressu.

„Biðlistinn hefur lengst síðustu ár og ég þarf stöðugt að forgangsraða. Áður gerði ég augasteinsskipti á glákusjúklingunum en ákvað í fyrra að draga verulega úr því þar sem biðlistinn var orðinn of langur fyrir sérhæfðar skurðaðgerðir,“ segir hún.

„Sjúkdómurinn er þannig. Þau sem geta beðið lengur verða því miður að gera það, þótt ég reyni að taka sem fyrst alla sem geta það illa.“

Ævintýraleg þróun meðferðar

María segir þróunina í greiningu og meðferð gláku mjög hraða á síðustu 20 árum. „Við framkvæmum 8 mismunandi glákuaðgerðir í dag, en einungis ein aðgerð var í boði hér á landi áður en ég kom heim. Það heyrir til undantekninga ef sjúklingar þurfa innlögn en áður var eins til tveggja vikna innnlögn eftir glákuskurðaðgerð.“

Gláka getur herjað á allan aldur, líka nýfædd börn, og þá er skurðaðgerð eina úrræðið. „Það er mjög gefandi að að koma í veg fyrir sjónskerðingu og blindu,“ segir hún. „Framfarir frá því að ég fór í sérnám eru ótrúlegar, bæði í greiningu og meðferð og ævintýri að taka þátt í því.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica