12. tbl. 107. árg. 2021
Ritstjórnargrein
Hvernig komumst við út úr COVID-19? Þórólfur Guðnason
Baráttan á Íslandi við COVID-19 hefur nú staðið í um 22 mánuði og sér ekki fyrir endann á henni enn sem komið er. Strax í byrjun faraldursins var ákveðið að helstu markmið sóttvarnaráðstafana yrðu að beita ekki of íþyngjandi aðgerðum en á sama tíma að hamla útbreiðslu faraldursins það mikið að hann yrði ekki of íþyngjandi fyrir heilbrigðiskerfið. Með þessari nálgun var hins vegar ljóst að það myndi líða langur tími þar til að hjarðónæmi næðist og faraldurinn dæi út.
Hjarðónæmi er náð þegar stór hluti samfélagsins er orðinn ónæmur fyrir smitsjúkdómi þannig að smit milli manna verður ólíklegt. Þannig verður allt samfélagið ónæmt fyrir sjúkdómnum en ekki einungis þeir sem eru ónæmir sem einstaklingar. Ekki er ljóst hversu stórt hlutfall þjóðarinnar þarf að smitast til að hjarðónæmi náist en talið hefur verið að það sé um 60-80%. Margir þættir hafa áhrif á hjarðónæmið eins og hversu virkt ónæmi myndast eftir sýkingu eða bólusetningu, hversu lengi ónæmið varir og hvort nýir stofnar kórónaveirunnar (SARS-CoV-2) koma fram sem fyrra ónæmi verndar ekki gegn.
Miklar vonir hafa verið bundnar við að þeir sem smitast af COVID-19 öðlist varanlegt ónæmi gegn endursmiti. Hér á landi hafa einungis 27 manns endursýkst af 15.321 sem greinst hafa með COVID-19 (0,2%) sem sýnir að gott ónæmi myndast við náttúrulegt smit. Ekki er vitað hversu lengi það endist.
Í lok árs 2020 var byrjað að bólusetja gegn kórónu-veirunni og bentu fyrstu rannsóknir til þess að gott ónæmi myndi skapast í kjölfarið. Raunin varð ekki sú því með tilkomu delta-afbrigðis veirunnar varð vernd gegn smiti einungis um 50% eftir tvær sprautur en vernd gegn alvarlegum veikindum um 90%. Þetta er ástæða þess að faraldurinn hefur verið í mikilli uppsveiflu þrátt fyrir að tekist hafi að fullbólusetja um 76% landmanna og 89% allra 12 ára og eldri. Ljóst er því að hjarðónæmi mun ekki nást með núverandi fyrirkomulagi bólusetninga.
Þó að óhætt sé að fullyrða að bólusetning gegn COVID-19 hafi skilað góðum árangri hérlendis, erum við þrátt fyrir ýmsar takmarkanir að sjá það mörg smit að alvarleg veikindi eru spítalakerfinu og ýms-um samfélagslegum innviðum nánast ofviða.
Hvernig komumst við þá út úr COVID-19? Að mínu mati eru tvær meginleiðir í boði fyrir okkur til að komast út úr covid-krísunni. Annars vegar þurfum við að fá virka lyfjameðferð gegn veirunni og/eða hins vegar þurfum við að ná hjarðónæmi í samfélaginu.
Nú eru vonir bundnar við að fljótlega komi á markað tvö ný lyf við COVID-19. Lyfin eru frá lyfjafyrirtækjunum Merck (Molnupiravir) og Pfizer (Paxlovid) og eru nú metin hjá Lyfjastofnun Evrópu (EMA). Í skoðun er hvort sækja eigi um undanþágu fyrir notkun lyfjanna hér á landi þannig að ekki þurfi að bíða eftir markaðsleyfi en ljóst er að lyfin munu verða dýr og einungis í boði fyrir þá sem líklegt er að veikist alvarlega af COVID-19. Einnig á eftir að koma í ljós hversu mikil virkni lyfjanna raunverulega er og hvort þau eru laus við aukaverkanir.
Okkar helsta von er sú að við náum víðtæku ónæmi í samfélaginu sem stöðva mun samfélagsleg smit. Ef við ætlum að ná hjarðónæmi með náttúrulegri sýkingu mun það taka 1-2 ár ef miðað er við að dagleg smit verði ekki fleiri en 100. Allan þann tíma þyrftum við að búa við töluverðar takmarkanir til að missa ekki tökin á fjölda smita og jafnvel 100 smit á dag væru of mörg fyrir okkar spítalakerfi og samfélag.
Hvað þá með bólusetningu? Mun okkur takast að ná hjarðónæmi með bólusetningu? Ljóst er að hjarðónæmi mun ekki nást með tveimur sprautum af núverandi bóluefnum fyrir hvern einstakling. Örvunarbólusetning 5-6 mánuðum eftir grunnbólusetningu (skammt tvö) gefur hins vegar góðar vonir um að með henni muni nást gott ónæmi sem hindra muni samfélagslega útbreiðslu. Því er mikilvægt að í fyrsta lagi takist að bólusetja sem flesta með grunnbólusetningu og í öðru lagi að flestir/allir þiggi örvunarbólusetninguna.
Þannig tel ég raunhæfa möguleika á því að okkur muni takast á næstu vikum og mánuðum að komast að mestu út úr COVID-19. Hins vegar er óljóst hvort reglulega muni þurfa að gefa örvunarskammta í framtíðinni eða hvort þörf verði á nýjum bóluefnum.
Eitt er þó ljóst að baráttunni við COVID-19 mun ekki ljúka fyrr en tekist hefur að vinna bug á faraldr-inum í heiminum öllum en það getur tekið nokkur ár. Við þurfum því að vera tilbúin til að beita ýmis konar aðgerðum á næstu árum í samræmi við þróun faraldursins hér á landi og annars staðar.