11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Lækningar og björgunarstörf. Jón Baldursson

Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtist grein eftir læknana Rögnu Sif Árnadóttur og Hjalta Má Björnsson þar sem farið er yfir útköll björgunarsveita landsins á tveggja ára tímabili, 2017-2018.1 Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem ritrýnd, læknisfræðileg vísindagrein er birt um viðfangsefni íslenskra björgunarsveita. Er það vel og gleður auga þess er hér ritar því þó að björgunarsveitarfólk teljist ekki formlega til heilbrigðisstétta reynist margt líkt með skyldum þegar að er gáð.

Eins og fleiri heilbrigðisstéttir hafa læknar oft átt samstarf við björgunarsveitir landsins og með ýmsum hætti. Segja má að björgunarsveitirnar séu framan við fremstu víglínu heilbrigðisþjónustunnar því þeim er ætlað að bregðast við til bjargar nauðstöddum í aðstæðum þar sem aðrir viðbragðsaðilar þjóðfélagsins, þar á meðal heilbrigðiskerfið, ná ekki til hinna hjálparþurfi með sínum venjulegu úrræðum. Kemur þá í hlut björgunarsveitafólks að veita fyrstu hjálp og koma þeim sem með þurfa í hendur heilbrigðisstarfsmanna. Á síðari árum hefur á vissum stöðum á Íslandi komist á samstarf björgunarsveita og sjúkraflutninga þar sem vettvangsliðar koma inn í fyrsta viðbragð við útkall hinna síðarnefndu og eru þar með orðnir beinir þátttakendur í heilbrigðisþjónustu.

Læknar og björgunarsveitir

Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafa sumir gengið alla leið ef svo má segja og verið virkir félagar í björgunarsveitum um lengri eða skemmri tíma. Í tilefni af erindi sem flutt var á Læknadögum fyrir áratug síðan rifjaði sá er þetta ritar upp til gamans nöfn þeirra lækna sem hann hafði haft veður af við störf í björgunarsveitunum síðustu áratugina. Með hjálp nokkurra úr þeim hópi náði fjöldinn nærfellt þremur tugum og með betri aðferðafræði hefði sú tala eflaust orðið hærri. Tekið skal fram að hér var eingöngu átt við þá lækna sem lokið höfðu nýliðaþjálfun og gerst fullgildir félagar í björgunarsveit. Einnig hafa læknar starfað með íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni og nokkrir lagt með henni í leiðangra til hjálparstarfa á fjarlægum slóðum.2


Höfundur er læknir og félagi í hjálparsveit frá unga aldri, fyrrverandi sveitarforingi, nú ekki lengur á útkallsskrá en virkur í hópi eldri félaga.

Leiðir heilbrigðisstétta og björgunarsveitafólks liggja að sjálfsögðu saman undir formerkjum almannavarna. Þar er eitt af hlutverkum björgunarsveita að koma til liðs við heilbrigðisþjónustuna, svo sem við störf á vettvangi hópslysa. Allir björgunarsveitamenn fá lágmarksþjálfun í fyrstu hjálp en sumir þjálfa sig sérstaklega á því sviði, meðal annars til að búa sig undir þátttöku í verkefnum þar sem reynir á almannavarnir. Læknar og landlæknir hafa stutt við þjálfun og skipulag vettvangshjálpar í óbyggðum (Wilderness First Responder – WFR) sem getið er um í grein þeirra Rögnu og Hjalta.1 Mörg dæmi eru um að læknar veiti ráðgjöf um störf björgunarsveita og taki þátt í kennslu fyrir björgunarsveitafólk og þjálfun þess. Á okkar dögum er líka til komin fjarlækningatækni sem snjallt væri að læknar og björgunarsveitafólk nýttu sér til samstarfs með skipulegum hætti.

Nálgast hundrað aðgerðir árlega

Niðurstöður rannsóknarinnar sem nú birtist eru um margt áhugaverðar eins og vænta mátti. Ber þar fyrst að nefna að fjöldi aðgerða sem björgunarsveitir taka þátt í árlega til hjálpar slösuðum og veikum slagar upp í hundraðið. Það er dágóð tala í ekki fjölmennara þjóðfélagi þegar haft er í huga sem fyrr sagði að björgunarsveitir eru ekki kvaddar til úrlausnar hversdagslegra verkefna heldur óvenjulegra. Undan eru skilin þau tilfelli þar sem vettvangsliðar björgunarsveita voru til kallaðir vegna sjúkraflutninga eins og fyrr var lýst.

Helmingur útkalla var vegna erlendra ferðamanna, enda mikill fjöldi þeirra á ferð hér á landi á árunum fyrir yfirstandandi heimsfaraldur. Mikill meirihluti verkefna kom til vegna slasaðra, mun færri vegna veikinda. Alvarlegir áverkar voru ekki eins algengir og meðal þeirra sem fluttir voru með þyrlu, sem bendir til að sú þjónusta sé vel og réttilega nýtt.3 Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika jafnframt að sumum verður ekki til hjálpar komið með neinum úrræðum öðrum en þeim sem björgunarsveitir búa yfir.

Loks má segja að nú sé kveðin niður sú hviksaga að björgunarsveitir fáist aðallega við að bjarga eigin liðsmönnum úr klandri. Þótt höfundi þessara lína séu kunn örfá slík tilvik á nærfellt hálfrar aldar ferli reyndist ekkert slíkt hafa komið upp á því tveggja ára rannsóknartímabili sem hér var frá sagt.

Björgunarhreyfingin á Íslandi hefur eflst og þroskast vel síðustu hálfa öldina. Um það getur höfundur þessara lína vitnað af eigin raun. Eftir því sem starfseminni vex fiskur um hrygg, kunnátta og þekking eykst og sérhæfing þar með, verður þörf björgunarsveitafólks meiri fyrir bakstuðning sérfræðinga úr hinum ýmsu stéttum þjóðfélagsins. Læknar eru ágætt dæmi um það og hafa sýnt þessu hlutverki áhuga. Mikilvægur liður í að rækja þetta hlutverk er að beita vísindalegum aðferðum læknisfræðinnar til að afla frekari þekkingar og skerpa skilning á starfi björgunarsveitanna. Hér hefur mikilsvert skref verið stigið í þá átt.

Heimildir


1. Árnadóttir RS, Björnsson HM. Útköll Slysavarnafélagsins Landsbjargar, vegna slysa og bráðra veikinda, á árunum 2017-2018. Læknablaðið 2021; 107: 515-21.
https://doi.org/10.17992/lbl.2021.11.659
PMid:34704964

2. Guðnadóttir KE. Hamfarir á Haití. Slysavarnafélagið Landsbjörg. Reykjavík 2010.

3. Pétursdóttir SG. Neyð í óbyggðum á Íslandi. skemman.is/bitstream/1946/29518/1/ms_lokaritgerd_sigrun_juni_2017.pdf - október 2021.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica