11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Sturlungaferð

Síðustu helgina í ágúst naut ferðaglaður hópur misaldraðra lækna og læknavina vel heppnaðrar ferðar á slóðir Sturlunga í Skagafirði. Eftir erfiða byrjun með bilaða rútu og bið eftir annarri í sunnlensku roki og rigningu gekk ferðin ljómandi vel. Norðlensk veðurblíða stóð vel undir væntingum enda var heitið á Þorlák helga til veðurs.

Óttar formaður rakti harmsögu forfeðra sinna af stakri snilld og kunnáttu og hóf frásögn sína á Esjubergi. Helga ritari tók örstutt innskot um jarðfræði (þótt sérfræðingur í þeirri grein væri um borð). Á leið um Húnaþing urðum við af innleggi Péturs Péturssonar þar sem hann hafði forfallast á síðustu stundu. Þegar ekið var framhjá Þrístöpum las Helga lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi á síðustu aftökunni sem fram fór á Íslandi þegar Friðrik Guðmundsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin þar. Kleinurnar hennar Jóhönnu formannskonu og flatkökur sefuðu hungur og glöddu geð. Magnús Pétursson tók höfðinglega á móti hópnum í hlöðunni sinni og hélt uppi vörnum fyrir málstað Ásbirninga.

Kakalaskáli

Aðaláfangastaður þessa fyrsta dags var Kakalaskáli og hafði okkur þá tekist að vinna aðeins upp töfina frá morgninum. Sigurður staðarhaldari Hansen hefur af ótrúlegri elju og metnaði komið upp sýningu með þátttöku 14 listamanna frá 10 löndum. Þar gengur hver gestur um með hljóðleiðsögn í hálftíma og lifir sig inn í átök 13. aldar þar sem Þórður kakali var lykilpersóna. En aðrar persónur urðu líka ljóslifandi í mynd — Steinvör á Keldum verður minnisstæð. Komið í náttstað á Sigló Hótel um sexleytið, nægur tími til að vökva utan og innan í heita pottinum.

Hópurinn við Þingeyrakirkju,– myndina tók óþekktur ferðamaður.

Laugardagurinn 28. var aðaldagur ferðarinnar. Um morguninn fórum við um æskuslóðir snillingsins Sölva Helgasonar sem á nútímamáli væri jaðarsettur einstaklingur á einhverju rófi. Guðrún frá Lundi virtist ekki eiga marga aðdáendur í hópnum. Fyrst var farið heim að Hólum og tók frú Solveig Lára á móti okkur í dómkirkjunni. Frá miðstöð kristninnar á Norðurlandi var farið lengra inn í Hjaltadal að nýreistu hofi Árna Hegranesgoða að Efra-Ási. Þetta var leyniáfangastaður og kom skemmtilega á óvart. Það logaði glatt hjá goðanum og tók enga stund að grilla pólskar pylsur og margir nutu sín við að taka til hendinni. Goðinn sagði okkur frá Ásatrú nútímans og kvaddi okkur með góðum óskum. Þegar haldið var aftur af stað lifnaði Víðinesbardagi við í frásögn Óttars.

Blönduhlíðin

Farið var um helstu sögustaði Sturlungu, Hegranesþing, Reynistað, Geldingaholt, Víðimýri, Miklabæ og að lokum Örlygsstaði. Mikil átök, svik og tortíming vöknuðu úr dvala sögunnar og urðu ljóslifandi að nýju. Fullharðnaðir læknar sáust snökta yfir örlögum Reynistaðabræðra. Í Víðimýrarkirkju „sáust tár á hvarmi“ þegar söngkonan Helga Rós Indriðadóttir söng „Heyr himna smiður“ og Jóhanna raddaði með í djúpum alt; og þær áttu aukalag, „Þótt þú langförull legðir“. Við fengum lýsingu á kirkjunni: Spýtunum fyrir framan altarisspjaldið, skírnardallinum og pallinum þar sem presturinn stendur þegar hann talar.

Siglufjörður

Á sunnudagsmorgun fóru þeir sem vildu á Síldarminjasafnið, þar sem við fengum hnitmiðaða leiðsögn og góða innsýn í heimsborgina Siglufjörð á síldarárunum. Á leiðinni um Sauðárkrók benti Óttar á sýninguna „1238, baráttan um Ísland“ en þar má upplifa og taka þátt í bardögunum sem hann sagði frá daginn áður í sýndarveruleika. Þegar komið var í Húnaþing kom Þórður Harðarson frammí og rakti framlag margra nafngreindra Húnvetninga til Íslandssögunnar og mátti skilja að án þeirra hefði lítið orðið úr sagnaritun og annarri mennt á fyrri öldum né heldur framförum í heilbrigðismálum í byrjun 20. aldar. Síðasti áfangastaður ferðarinnar voru Þingeyrar. Það var Önnu Salvarsdóttur, sem var þarna í sveit fyrir einhverjum áratugum, að þakka að við fengum að koma inn í kirkjuna og aðgang að snotru safnaðarheimili sem smellpassaði fyrir hópinn að snæða nestið úr bakaríinu á Siglufirði.

Ýmsir fleiri urðu til þess að grípa míkrófóninn og miðla fróðleik eða fara með gamanmál. Allnokkrir blunduðu og byrjuðu að melta minningar um góða ferð. Komum heilu og höldnu í Hlíðasmára um sjöleytið.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica