11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Kallar 1000 Íslendinga inn í mígrenirannsókn, Ólafur Árni Sveinsson taugalæknir stýrir henni

Talið er að um 50.000 Íslendingar þjáist af mígreni og er 1000 þeirra
boðið að taka þátt í rannsókn á áhrifum líftæknilyfs á einkennin.
Ólafur Árni Sveinsson taugalæknir stýrir rannsókninni

„Mígreni er sjúkdómur. Það eru fordómar að halda annað,“ segir Ólafur Árni Sveinsson, læknir á taugadeild Landspítala og í Læknasetrinu í Mjódd. Misjafnt sé hversu erfiður sjúkdómurinn sé fólki. „Sumir fá köst einu sinni á ári, aðrir oft í mánuði. Sumir geta tekið töflu og haldið áfram við iðju sína á meðan aðrir liggja kvaldir í rúminu með allt slökkt.“ Mígreni sé truflun í raf- og boðefnakerfi heilans sem hrjái um 15% þjóðarinnar. Algengara hjá konum en körlum.

„Það eru ýmsar ástæður. Horft hefur verið til hormóna og sterkra tengsla við þau. Konur fá gjarnan mígreni í tengslum við blæðingar. Það er líklega helsta skýringin á að mígreni er tvö- til þrefalt algengara meðal kvenna.“

Ólafur Árni stefnir á að safna saman 1000 Íslendingum fyrir lyfjarannsóknir við mígreni. Hann segir sjúkdóminn flókinn en þekkingin á honum sé stöðugt að aukast. Mynd/gag

Ólafur segir flesta sem betur fer hafa vægt mígreni og eingöngu fá einstaka sinnum köst. „Þó er nokkur stór hluti sem fær mörg köst í mánuði þar sem mígrenið hefur slæm áhrif á lífsgæði, bæði í starfi og leik,“ segir hann. „Mígreni veldur einna flestum fjarvistum úr vinnu af öllum sjúkdómum. Það reynir afar mikið á að vera með mígreni marga daga í mánuði og því fylgir mun meira en bara höfuðverkurinn.“

Skoða áhrif lyfs og erfða

Ólafur er aðalrannsakandi fasa fjögur rannsóknar sem kannar sambandið milli svörunar við nýja mígrenilyfinu erenumab (Aimovig) og erfðaþátta. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Amgen og Íslenska erfðagreiningu.

„Við þurfum ekki nema 1000 manns fyrir rannsóknina. Erum komin upp í 350,“ segir hann. „Rannsóknin sýnir að vel er hægt að stunda stórar klínískar rannsóknir á Íslandi.“ Framkvæmdin fari fram hjá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna í Kópavogi. Ólafur segir þau leita að einstaklingum sem hafi verið með mígreni minnst fjóra daga í mánuði síðastliðna þrjá mánuði.

„Þetta líftæknilyf kom á markaðinn í Ameríku og Evrópu fyrir nokkrum árum og hefur reynst mjög vel, meðal annars hér á landi. En það svara ekki allir lyfinu á meðan það slekkur nánast alveg á mígreninu hjá sumum og er þá algjör bylting.“

„Lyfið hemur virkni CGRP (calcitonin gene-related peptide) sem er eitt af lykilpróteinum í meingerð mígrenis,“ segir hann. Mígreni sé þekkt í ættum. „Þekktir eru yfir hundrað undirliggjandi erfðabreytileikar. Við viljum kanna hvort einhverjir erfðaþættir spái fyrir um hversu vel sjúklingurinn svarar lyfinu.“

Dýrt en áhrifaríkt lyf

Ólafur segir að erenumab sé stungulyf. Sjúklingar sprauti sig sjálfir með einföldum lyfjapenna í kvið eða læri einu sinni í mánuði. Þeir þoli lyfið vel og innan við 3% hætti á því vegna aukaverkana. „Og þær eru yfirleitt vægar.“ Hann segir þátttöku hvers einstaklings taka um 7 mánuði, einn mánuð án lyfja og 6 mánuðir með lyfjum.

„Allir fara á virkt lyf. Engin lyfleysa er notuð en fyrsta mánuðinn er viðkomandi ekki á lyfinu heldur skráir eingöngu höfuðverkjadaga.“ Fólk geti fengið lyfið eftir rannsóknina ef það uppfylli skilyrðin fyrir greiðsluþátttöku. „Og þau eru nokkuð ströng,“ Klínískar ábendingar í sérlyfjaskrá segi að hver þurfi að hafa mígreni í fjóra daga eða fleiri daga í mánuði til að fá lyfið en hjá Sjúkratryggingum Íslands sé markið hærra svo sjúklingar fái niðurgreiðslu.

„Viðkomandi þarf að vera með svokallað krónískt mígreni sem felur í sér höfuðverk að minnsta kosti 15 daga mánaðarins og þar af þurfa að minnsta kosti 8 að vera mígreni. Auk þess þarf viðkomandi að hafa prófað tvö önnur fyrirbyggjandi lyf án nægjanlegs árangurs.“

Tíminn lækni lyfjaverðið

Eru þetta ekki of ströng skilyrði? „Ég get skilið sjónarmiðið en ég vona að með tímanum verði lyfið ódýrara. Það gerist með aukinni samkeppni og samheitalyfjum. Fólk sem er ekki með svakalegt mígreni getur tekið þátt og komist að því hvort það virkar fyrir það.“ Önnur fyrirbyggjandi lyf gætu því einnig virkað.

Ólafur segir lyfið hafa verið rúmlega tvö ár á íslenskum markaði. Það sé það fyrsta í þessum flokki, fleiri séu á leiðinni. Lyfjaflokkur líftæknilyfja verði að öllum líkindum ráðandi sem fyrirbyggjandi lyf við mígreni næsta áratuginn. Hann viðurkennir þó að fleira geti hjálpað en lyf við sjúkdómnum.

„Heilsusamlegur lífsstíll, reglusemi og að forðast kveikjur getur hjálpað,“ segir hann en erfitt geti verið að stunda hreyfingu ef einstaklingurinn fái stöðugt köst. „Auk þessa eru köstin á sjálfstýringu hjá sumum og koma alveg óháð lifnaðarháttum.“

Að lokum segir hann þekkinguna á mígreni alltaf að aukast. „Þar hafa ekki orðið stór stökk enda mígreni flókinn sjúkdómur. Framfarir eiga sér því langan aðdraganda. Eins og þetta lyf. Fyrir 20-30 árum áttuðu menn sig á mikilvægi CGRP, en fyrst núna skilar það sér í lyfi.“

Fólk sem hefur áhuga á að taka þátt getur skráð sig á: migreni.rannsokn.is/

Svalar vísindaþorstanum enn í Svíþjóð

„Ég valdi mér taugalækningar því það er mest spennandi sérgreinin,“ segir Ólafur Árni Sveinsson taugalæknir. „Hún fjallar um miðtaugakerfið og heilann sem er það líffæri sem gerir okkur að því sem við erum. Skilgreinir okkur.“ Hann hafi haft áhuga á heimspeki, lyflækningum og geðlækningum.

„Í taugalækningum hefur þú snertifleti við allar þessar greinar,“ bendir hann á. Ólafur var í sérnámi í Svíþjóð og var í 11 ár á Karólínska í Stokkhólmi. Kom heim 2018.

„Það var fínt og virkilega gaman að koma heim,“ segir Ólafur og að það hafi verið ákvörðun þeirra hjóna að fara heim með fjölskylduna. „Passa ræturnar.“

Hann segir líkt að starfa sem læknir í hér og þar ytra. „Margt er mjög líkt í daglegum praxis en helsti munurinn er þó að meiri rannsóknarstarfsemi er á stærri sjúkrahúsum eins og á Karólínska. Ég sakna þess og fer því reglulega út og er í rannsóknarhópum í Svíþjóð.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica