11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Sjö geðlæknar í 130 manna geðþjónustu heilsugæslunnar

Alls starfa nú 130 manns innan geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar af eru 44 stöðugildi sálfræðinga og 7 geðlæknar. Þetta segir Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri þjónustunnar

„Það er heillaríkt skref að efla geðþjónustu heilsugæslunnar. Þetta er framhald af stefnumótun og geðheilbrigðisþingum síðustu ára,“ segir Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, geðlæknir og framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún hóf störf í byrjun ágúst.

Guðlaug Unnur hafði unnið í aldarfjórðung á geðsviði Landspítala þegar hún söðlaði um og leiðir nú uppbyggingu á geðheilbrigðismálum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mynd/gag

„Efla þurfti þessa þjónustu og færa nær notendum,“ segir hún. „Sjö geðlæknar og sex teymi eru í fullorðinsþjónustunni. Engir sérnámslæknar eða almennir læknar eru til aðstoðar, svo álagið getur orðið mjög mikið.“ Einn geðlæknir bættist í hópinn í september og því 1,4 stöðugildi í stærstu teymunum. Guðlaug bendir á að yfirvöld hafi lagt áherslu á að styrkja geðþjónustuna innan heilsugæslunnar á síðasta kjörtímabili. Kostnaður við hana verði um 1,5 milljarður innan heilsugæslunnar í ár.

Mannauður helsta áskorunin

Athygli vakti þegar Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítala, sagði í síðasta Læknablaði að uppbygging heilsugæslunnar hefði bitnað á Landspítala. Fólk hefði horfið þangað til starfa. Guðlaug, sem einmitt kom frá Landspítala, segist sammála því að mannauður sé helsta áskorun á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í heild.

„Ég trúi því að tilkoma geðheilsuteyma heilsugæslunnar hafi minnkað álag á geðdeild Landspítala.“ Mörg verkefni sem hafi verið á Landspítala hafi flust yfir til heilsugæslunnar. „Margir njóta nú þjónustu geðheilsuteymanna sem hafa verið í innlögnum og göngudeildarmeðferð á Landspítala.“ Oft hafi verið erfitt að útskrifa til heilsugæslunnar eða beina verkefnum þangað, þar sem úrræði hafi vantað.

„Geðlæknum á stofu hefur einnig fækkað mikið og málum í auknum mæli beint til heilsugæslu. Talað er um að 20-30% heimsókna á heilsugæslu séu vegna geðvanda og inn á borð heimilislæknis koma alls konar mál sem þarf að leysa úr,“ segir hún. „Sum eru þung og flókin, önnur væg, en mikilvægast er að það séu til rétt úrræði á réttum stað, á réttum tíma og að við vinnum saman.“

Forvarnir og snemmíhlutun

Guðlaug segir nauðsynlegt að hafa þrepaskipt úrræði sem virki. „Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks og kannski er mikilvægasta hlutverk hennar að hafa úrræði til að beita forvörnum og snemmíhlutun áður en vandinn verður klínískur.“

Hún bendir á að samkeppnin um starfskrafta sé kerfinu holl og góð fyrir notendur. Hún upplifir þá samkeppnina fyrst og fremst milli hins opinbera og einkareksturs. Uppbygging geðheilsuþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi gefið starfsfólki tækifæri til að þróa sig í starfi og taka þátt í að byggja upp nýja þjónustu. „Það er kraftur í fólki og mjög gott fólk sem við höfum fengið til starfa sem brennur fyrir bættri þjónustu.“

Guðlaug hafði unnið í 25 ár á Landspítala þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra hjá heilsugæslunni. Hún segir að á þessum aldarfjórðungi hafi starfsumhverfið breyst mikið. Tími hafi verið kominn á breytingar. Rétt eins og áherslan hafi verið á heilsugæsluna undanfarin fjögur ár voni hún að geðdeild Landspítala fái athygli á nýju kjörtímabili.

„Við þurfum á sterkum Landspítala að halda. Við erum öll í sama liði og viljum að skjólstæðingar okkar fái sem allra besta þjónustu hversu veikir sem þeir eru. Afar mikilvægt er að bæta húsnæðið og úrræðin sem vantar til að sinna veikasta fólkinu. Þar þarf bæði öflug endurhæfingarúrræði, styrkja samfélagsgeðþjónustu og fleiri legudeildarpláss, með opnum, heimilislegum deildum.“

Auka þjónustuna enn

Guðlaug segir að næstu verkefni sín á heilsugæslunni séu að koma ADHD-teymi á koppinn. Það sé dæmi um verkefni sem hafi flust frá spítalanum til heilsugæslunnar. Þá sé í bígerð að bjóða segulörvunarmeðferð á heila við þunglyndi, svokallað TMS.

„Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi frá því í vor, og hillir undir að fljótlega á næsta ári geti starfsemin hafist. Síðan er breyting á barnageðþjónustu innan heilsugæslunnar í undirbúningi. Aukafjárveiting kom inn í það verkefni, en langir biðlistar eru í kerfinu og betri meðferðarúrræði aðkallandi,“ segir hún.

„Þetta er stórt verkefni þar sem samþættingarfrumvarp félagsmálaráðherra, farsældarfrumvarpið er haft til hliðsjónar um hvernig kerfin eigi að tala saman.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica