11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Sjúkratryggingar neita að niðurgreiða ristilspeglanir sem Helgi gerir

Helgi Birgisson, ristil- og endaþarmsskurðlæknir, stendur í málaferlum við íslenska ríkið vegna Sjúkratrygginga Íslands. Þær neita að niðurgreiða þjónustuna hans, ólíkt því sem er hjá kollegunum. Helgi hafði opnað hér stofu en hefur nú lokað henni og heldur í hlutastarfið í Svíþjóð

Helgi Birgisson skurðlæknir var í 18 ár við störf í Svíþjóð, langaði að koma alkominn heim en sinnir hlutastarfi úti þar sem Sjúkratryggingar neita sjúklingum hans um niðurgreiðslu á þjónustunni. Mynd/gag

„Ég vinn sem skurðlæknir í Svíþjóð og geri þar ristilspeglanir. Ég er vel hæfur speglari með mjög góða reynslu af ristilspeglunum í Svíþjóð. Ég hafði opnað stofu fyrir COVID, var kominn inn í Meltingar-setrið, þegar skellt var í lás hjá Sjúkratryggingum og ég setti stofuna á ís,“ lýsir Helgi Birgisson, ristil- og endaþarmsskurðlæknir, sem vann 18 ár í Svíþjóð. Hann er yfirlæknir Krabbameinsskrár í hlutastarfi.

Helgi lýsir því að Sjúkratryggingar hafi neitað að niðurgreiða ristilspeglanir hans þar sem samningur SÍ um speglanir nái aðeins til meltingarlækna en ekki ristilskurðlækna. „Aðrir ristilskurðlæknar fá hins vegar að starfa eftir samningum en ég einn er stoppaður,“ segir hann. Það er staðfest í svari stofnunarinnar til Læknablaðsins.

„Fimm læknar, fyrir utan meltingarlækna, fengu greiðslu frá SÍ fyrir ristilspeglanir á árunum 2020 og 2021,“ segir þar. Spurt hvers vegna Helgi fái ekki niðurgreiðslu er bent á að stofnunin fjalli ekki um „málefni einstakra veitenda heilbrigðisþjónustu“. Bent er á í svarinu að samning þurfi við stofnunina um niðurgreiðslu en enginn sé í gildi og því horft til þjónustu sem samningur hefur áður gilt um.

Helga finnst sér mismunað. „Það er ekki hægt að taka út einn lækni umfram aðra.“ Hann segir að ef hann ætli að skera upp sjúklinga hér á landi þurfi hann nú fyrst að vísa þeim annað í speglun.

„Endaþarms- og ristilspeglanir eru órjúfanlegur þáttur í greiningu og meðferð sjúklinga með ýmis kviðar- og endaþarmsvandamál. Með neituninni get ég ekki metið sjúklinga sjálfur fyrir aðgerðir heldur er gert að treysta á speglanir annarra. Eins og aðrir ristil- og endaþarmsskurðlæknar verð ég að sjá vandann sjálfur og get því ekki unnið mína vinnu án þess að gera speglanir. Það er einfaldlega þannig að það er búið að útiloka mig frá því að vinna sjálfstætt hér á landi,“ segir Helgi.

Gísli Guðni Hall, hæstaréttarlögmaður, rekur málið í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir Helga. Hann vann málið gegn ríkinu eftir að heilbrigðisráðherra fyrirskipaði að loka rammasamningnum fyrir nýjum læknum. Gísli bendir á að nú sé enginn samningur í gildi heldur reglugerð. Það sé sérkennilegt kerfi ef Helgi sem skurðlæknir verði að senda sjúklinga sína til annars læknis til að framkvæma speglanir, vegna kostnaðarþátttökureglna SÍ, þótt hann hafi sjálfur réttu kunnáttuna og uppfylli öll skilyrði til að framkvæma speglanir sjálfur.

„Verði ekki fallist á kröfu Helga, felst í því staðfesting á að það eigi ekki að ríkja jafnræði í heilbrigðiskerfinu,“ segir Gísli sem býst við því að málið fái endi fyrir dómstólum í lok vetrar.

Helgi starfar því enn í eina til tvær vikur á þriggja til 5 vikna fresti í Svíþjóð. Hann bendir á að ristilspeglunum muni fjölga hér á landi þar sem fólk sé hvatt til til að láta skima fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini. „SÍ hefur ekki áhuga á því að þjónustan aukist.“

Helgi segir að hann hefði ekki samvisku í að hitta sjúklinga án þess að þeir njóti niðurgreiðslu Sjúkratrygginga. „Mér finnst framkoman við þá, og mig, ekki fagleg. Það er ómögulegt að svona mál séu í lögfræðiflækju því þetta er ekki aðeins réttlætismál heldur getur það einnig verið lífsspursmál.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica