10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Þorbjörg Magnúsdóttir, brautryðjandi í svæfingalækningum á Íslandi - aldarminning eftir Ólaf Jónsson

Um þessar mundir eru eitt hundrað ár frá fæðingu Þorbjargar Magnúsdóttur svæfingalæknis. Hún fæddist 12. október 1921 og lést 24. apríl 2006. Hún var annar tveggja hinna fyrstu sérmenntuðu svæfingalækna hér á landi. Hún hlaut sérfræðileyfi árið 1952. Hinn var Elías Eyvindsson (1916-1980), en hann fékk leyfi sitt nokkrum mánuðum áður. Því miður naut starfskrafta hans sem svæfingalæknis aðeins í stuttan tíma því hann gerðist sjúkrahúslæknir í Neskaupstað um fimm ára skeið en fluttist til Bandaríkjanna árið 1961.

Ástand svæfingamála við skurðaðgerðir hafði lengi verið fremur bágborið í landinu. Ekki voru sérmenntaðir svæfingalæknar, tækjabúnaður frumstæður, lyf til svæfinga fábreytt og engin kennsla á þessu sviði í boði. Á spítölunum voru það kandídatar, hjúkrunarkonur og læknanemar sem önnuðust svæfingar en víða um land voru það hinir og þessir: Eiginkonur læknanna, hjúkrunarkonur, ljósmæður, prestar, bifvélavirkjar, lögregluþjónar og fleiri. Skurðlæknarnir þurftu því oftast að segja til verka þeim sem svæfðu en höfðu sjálfir oft litla reynslu eða þekkingu á því sviði. Þeir munu oft hafa bjargað sér við aðgerðir með deyfingum og sterkum verkjalyfjum. Þeir höfðu miklar áhyggjur af ástandi þessara mála og sáu fram á að ekki yrðu framfarir í skurðlækningum að óbreyttu.

Öld er frá fæðingu Þorbjargar Magnúsdóttur svæfingalæknis. Mynd/aðsend

Eins og kunnugt er var læknisfræðin algjört veldi karla. Þorbjörg sýndi talsvert hugrekki og kjark þegar hún hóf nám í læknadeild því aðeins örfáar konur höfðu lagt í það nám á undan henni. Að læknanámi loknu kom að því að velja starfsvettvang innan lækninganna. Þorbjörg hefur væntanlega meðal annars kynnt sér hið dapra ástand svæfingamálanna sem ekki virtist uppörvandi fyrir unga lækna. Hún hefur séð að þar væri verk að vinna og hún gæti látið gott af sér leiða á þeim vettvangi. Hún sýndi nú aftur kjark og áræðni þegar hún ákvað að sérmennta sig í svæfingalækningum.

Svæfingalækningar höfðu þróast mikið í Bretlandi og Bandaríkjunum en framfarir voru fremur hægfara á Norðurlöndum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stofnaði því til eins árs metnaðarfulls sérfræðináms í svæfingalækningum árið 1949 í Kaupmannahöfn. Fengnir voru færustu og þekktustu svæfingalæknar, einkum frá Bretlandi og Bandaríkjunum, til þess að skipuleggja námið og annast kennslu. Þorbjörg sótti þetta nám og útskrifaðist á tilskildum tíma. Hún hafði áður lokið kandídatsári.

Ætla mætti að henni hefði verið tekið fagnandi hér á landi að loknu þessu sérfræðinámi en svo var ekki í fyrstu. Á einum spítalanum var henni sagt að allt hefði gengið svo vel hjá þeim að ekki væri talin ástæða til breytinga og á öðrum var henni sagt að þeir tækju ekki konur. Hún starfaði við nýopnað Sjúkrahús á Akureyri í þrjú ár en árin 1957-1968 var hún svæfingalæknir við Sjúkrahús Hvítabandsins.

Árið 1968 var hún ráðin yfirlæknir svæfingadeildar hins nýja sjúkrahúss í Fossvogi, Borgarspítalans. Hún mun fyrsta konan sem varð yfirlæknir sjálfstæðrar spítaladeildar. Þegar gjörgæsludeild tók til starfa árið 1970 varð hún einnig yfirlæknir þeirrar deildar.

Í fyrstu var hún eini sérmenntaði svæfingalæknirinn. Henni til aðstoðar við undirbúning og tækjakaup var fyrsti sérmenntaði svæfingahjúkrunarfræðingurinn, Friðrikka Sigurðardóttir. Þá voru þrír aðstoðarlæknar. Árið 1969 gekk til liðs við Þorbjörgu sá sem þessar línur ritar, að afloknu sérfræðinámi erlendis. Annríki var strax mikið og vaktabyrði óheyrilega mikil næstu árin. Við dagleg störf bættist kennsla aðstoðarlækna, læknanema, hjúkrunarfræðinga og fleiri heilbrigðisstétta. Þorbjörg annaðist störf sín af festu, dugnaði og samviskusemi. Hún þótti sanngjörn, var vel liðin og samstarfsfólki var hlýtt til hennar. Hún sinnti viðhaldsmenntun með þátttöku í læknaþingum, námskeiðum og heimsóknum á spítala.

Svæfingalæknar á Norðurlöndum, sem voru örfáir fram yfir 1950, stofnuðu samtök um það leyti og hún tók strax þátt í störfum þeirra. Hún kynntist þannig flestum fyrstu svæfingalæknum á Norðurlöndum. Hún var í stjórn samtakanna um tíma og var formaður og forseti þings félagsins í Reykjavík árið 1973. Hún var stofnandi Félags svæfingalækna árið 1960 og var kjörin heiðursfélagi árið 1985.

Árin liðu og svæfingamálin komust smám saman í gott horf víðast hvar. Svæfingalæknum hafði fjölgað verulega og einnig sérmenntuðum svæfingahjúkrunarfræðingum, tækjabúnaður var fullkominn, fjölbreytt lyf í boði, vöknunaraðstaða og gjörgæsludeildir, kennsla hafin í læknadeild og svo mætti telja. Þegar Þorbjörg lét af störfum í árslok 1987 gat hún horft yfir farinn veg með gleði og nokkru stolti yfir framförum sem hún átti sannarlega þátt í að urðu að veruleika.

Við starfslok fór því fjarri að hún settist í helgan stein. Hún hafði alla tíð yndi af klassískri tónlist og sótti flesta tónleika sem voru í boði. Hún sýndi ennþá einu sinni hve kjarkmikil og dugleg hún var þegar hún innritaðist í söngnám við tónlistarskóla. Hún lauk burtfararprófi í einsöng og hélt glæsilega útskriftartónleika.

Lýkur nú þessari frásögn af þessari dugmiklu konu.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica