10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Gildi og markmið heimilislækna

„Gildi eru leiðarstjörnur. Þegar gildum er fylgt byggja þau undir traust. Ef þau eru brotin grafa þau undan trausti. Gildin lýsa því mikilvægasta en staðlar hvað er gott eða viðunandi. Gildi eru stöðug en staðlar geta breyst.“

Pendleton and King, BMJ 2002

Árið 2020 birtu Samtök félaga norrænna heimilislækna, Nordic Federation of General Practice (NFGP) siðferðileg gildi sín og markmið í sjö liðum (mynd 1) – gildi sem heimilislæknar telja vera kjarnann í starfi sínu.1,2 Þau leggja þar með grunn að tilhögun samskipta heimilislækna við almenning og sjúklinga, kennslu á öllum stigum háskólanáms, framhaldsnáms og símenntunar heimilislækna, vísindastarfs og þverfarlegs samstarfs heimilislækna við aðrar stéttir og stofnanir. Auk þess kemur þessi lýsing á kjarnagildum heimilislækna að gagni fyrir stjórnendur heilbrigðismála og stjórnmálamenn.

Mótun fagsins

Heimilislækningar eru tiltölulega ný sérgrein. Á sjöunda áratug síðustu aldar jókst áhugi á bættri menntun heimilislækna og að heimilislækningar yrðu gerðar að sérstakri fræðigrein á háskólastigi. Frumkvöðlar við bandaríska og kanadíska háskóla tóku þar fyrstu skrefin. Hugsjónamenn innan breska heimililæknafélagsins (RCGP) tóku forystuna í Evrópu. Hugmyndafræðin fór að mótast og vísindastarfsemi að aukast. Fræða- og fagfélög heimilislækna á Norðurlöndum voru stofnuð, það fyrsta, meðal danskra kollega, Dansk Selskap for Almen Medicin (DSAM), árið 1970 og Félag íslenskra heimilislækna (FÍH), árið 1978. Frá upphafi var lögð áhersla á að fagið byggði á áður rótgrónum gildum, einkum traustum og langvarandi kynnum læknis og sjúklings og samfelldri þjónustu á breiðum grunni. Heimilislæknar áttu sem áður að sinna öllum tegundum vandamála fólks á öllum aldri.

Enda þótt McWhinney, oft nefndur faðir nútíma heimilislækninga, hafi þegar árið 1981 lýst faginu sem samsafni af gildum og viðhorfum við nálgun vandamála sem ekki væri að finna í öðrum sérgreinum,3 var gildum sem slíkum ekki gefinn mikill gaumur næstu áratugi þar á eftir. Mestur tími fór í að skilgreina „hinn nýja heimilislækni.“ Evrópusamtök heimilislækna (WONCA Europe), sem samanstanda af 46 aðildarfélögum í Evrópu, komust árið 2002 að samkomulagi um almenna skilgreiningu á sérgreininni og hvaða kunnáttu, færni og viðhorf læknir þyrfti að tileinka sér til þess að kalla sig sérfræðing í heimilislækningum.

Gildi, sýn og markmið

Enda þótt ensku hugtökin vision, mission og values væru ekki almennt notuð sem slík á þessum tímum má líta svo á að efnislegt innihald þeirra hafi verið samofið fyrri skilgreiningum á sérgreininni. Um og eftir síðustu aldamót varð æ algengara að stórfyrirtæki og félagasamtök skerptu lýsingu sína á því hvað þau stæðu fyrir. Orðin sýn, markmið og gildi urðu algengari. Lífleg umræða skapaðist um þessi mál meðal heimilislækna á Norðurlöndunum. Þeir vildu taka frumkvæði að því að skilgreina eigin verksvið, fagleg gildi og fyrir hvað þeir stæðu þar sem bæði yfirvöld og kollegar í öðrum sérgreinum höfðu oft og tíðum aðrar skoðanir á verksviði þeirra. Félag norskra heimilislækna (NSAM/ síðar NFA) reið á vaðið og birti stefnuyfirlýsingu sína, Sju teser for allmennmedisin um gildi og markmið í sjö liðum árið 2001.1 Yfirlýsingin var stutt, birt í spjaldformi og viðmótsvæn. Danskir kollegar beittu svo sömu aðferð og birtu sína úgáfu, Pejlemærker for faget almen medicin 2016 og Norrænu samtökin sína útgáfu 2020 eftir nokkrar endurbætur. Sú íslenska útgáfa sem birt er á mynd 1, er að mestu byggð á norrænu útgáfunni, með eðlilegri aðlögun að íslenskri tungu og hefðum.

Nútíminn ógnar grunngildunum

Framfarir í rafrænum samskiptum innan læknisfræði hafa vissulega verið til bóta, séu þau rétt notuð. Oftrú á rannsóknum og þrýstingur yfirvalda um að auka afköst með því að nota rafræn samskipti í síauknum mæli geta ógnað tilveru og vinnulagi heimilislækna.

Eins og fram kemur skipta langtímasamskipti læknis og sjúklings mestu máli. Þar er traust lykilatriði. Samfelld og persónuleg samskipti eru að jafnaði forsenda þess að byggja upp traust. Rafræn samskipti læknis og sjúklings nýtast þá best eftir að slík kynni og traust hafa náð að myndast, en geta verið varasöm án slíkra kynna.

Heilsugæslan er mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu. Þar skiptir samstarf við aðrar sérgreinar og stofnanir miklu máli. Samráðsvettvangur er forsenda slíks samstarfs og því mikilvægt að grunngildi heimilislækna séu öllum ljós.

U07-mynd-1

Heimildir

1. Sigurdsson JA, Beich A, Stavdal A. Our core values will endure. Scand J Prim Health Care 2020; 38: 363-6.
https://doi.org/10.1080/02813432.2020.1842676
PMid:33377430 PMCid:PMC7783035
 
2. Nordic Federation of General Practice (Beich A, Auvinen J, Isacson M, et al.) Core Values and Principles of Nordic General Practice/Family Medicine. Scand J Prim Health Care 2020; 38: 367-8.
https://doi.org/10.1080/02813432.2020.1842674
PMid:33284030 PMCid:PMC7782180
 
3. McWhinney I. Principles of Family Medicine. In: A Textbook of Family Medicine, 2nd ed, Ed. Ian R. McWhinney. Oxford University Press, Oxford 1997; 13.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica