10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Doktorsvörn í skugga COVID-19, rætt við Huldu Hjartardóttur

Óvissa um framtíð fæðingardeildarinnar truflar starfsemina. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir. Deildin hafi misst gott fólk frá sér vegna myglu. Hulda segir COVID-faraldurinn hafa breytt starfseminni til frambúðar en þótt álagið hafi verið mikið tókst henni að ljúka doktorsprófi sínu nú í maí.

Undanfarið hálft annað ár hefur verið krefjandi, einkennilegt og erfitt hjá stjórnendum deilda Landspítala. Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu spítalans, er þar engin undantekning. Auk þess að vera yfirlæknir á deild sem mikið mæddi á í faraldrinum, var hún í þeirri óvenjulegu stöðu að vera á lokaspretti í doktorsnámi er COVID-faraldurinn skall á. Áætlanir hennar eins og annarra fóru úr skorðum, en ekki nema að hluta. Þann 28. maí síðastliðinn varði hún doktorsritgerð sína: Ómskoðanir til að meta framgang og snúning fósturhöfuðs í fæðingum frumbyrja. Þá var vel þegin stund milli stríða og faraldurinn í lægð

Hulda tók þátt í stefnumótun um þróun Landspítala fyrir 20 árum. Síðan breyttist margt, nú eru byggingakranarnir áberandi fyrir neðan deildina hennar, hávaðinn minnir á framkvæmdirnar, en þar verður henni ekki ætlaður staður að óbreyttu. Mynd/aób

,,Þetta var mjög skemmtilegur dagur, þrátt fyrir hífandi rok og rigningu. Ég gat boðið fólki að gleðjast með mér á þessum degi og allir nema annar andmælandinn minn gátu komið og verið við vörnina,“ segir Hulda. Andmælandinn tók þátt í vörninni gegnum fjarfundabúnað. Frá því í janúar 2020, þegar Hulda bjó sig undir birtingu síðustu vísindagreina sinna fyrir vörnina og til þessa minnisstæða dags í maílok gerðist margt.

 

Starfsmenn hætt vegna myglu

,,Við hér á deildinni höfum verið heppin að fá gott fólk til starfa. Deildin er vinsæl hjá læknanemum, kandídötum og nýútskrifuðum læknum sem hafa hafið sitt sérnám á deildinni hjá okkur og síðan lokið því erlendis og snúið heim aftur.“ Hulda hefur veitt deildinni forstöðu frá árinu 2017 og þar á undan leyst forvera sinn af um hríð. Hún segist hafa tekið við góðu búi.

,,Ég vildi halda áfram því góða starfi sem hér er unnið. Stærsti spítalinn leiðir óhjákvæmilega stefnumótun varðandi fæðingar, eftirlit á meðgöngu og viðbrögð við helstu fylgikvillum sem upp geta komið. Þjóðin getur verið stolt af góðum árangri. Á fáum stöðum í heiminum er öruggara að eignast barn, bæði fyrir mæður og börn. Ég hef reynt að hvetja gott fólk til starfa og skipuleggja vinnu þess þannig að allir séu sem ánægðastir. Það sem helst truflar þetta góða starf er óvissa um framtíð deildarinnar og húsnæði,“ segir hún.

„Okkur er ekki ætlaður staður á nýja spítalanum. Erum nú í gamalli heimavist Ljósmæðraskólans, sem var byggð af vanefnum, eldra hús fæðingardeildarinnar er yfir 70 ára og nýrri álman að verða 50 ára. Vegna myglu í húsnæðinu höfum við því miður misst frá okkur gott fólk áður en það lýkur starfsaldri.“ Hulda segir frá því að fyrir næstum 20 árum hafi hún verið í vinnuhópi til að móta hugmyndir um uppbyggingu Landspítalans, hvernig nota ætti peninginn sem fengist við sölu Símans.

„Svo breyttust áherslur, okkur er ekki ætlaður staður í nýja húsnæðinu og það eru vonbrigði. COVID-19 hefur opnað augu okkar enn betur en fyrr fyrir því hvað mikið vantar uppá að hægt sé að tryggja góðar sýkingavarnir og minnka umgang um sameiginleg rými. Stofurnar okkar eru þröngar og yngra fólkið gerir meiri kröfur en fyrri kynslóðir, vill einbýli og að pláss sé fyrir maka. Stytting legu eftir fæðingu nær ekki að gera okkur kleift að uppfylla kröfur um meiri þægindi og rými.“

 

COVID-19 sýktar í fæðingu

,,COVID breytti miklu, hér hafa verið konur alvarlega veikar af COVID og fylgikvillunum. Á fyrri stigum þurftum við að grípa til óvinsælla aðgerða, svo sem að stytta viðverutíma maka við fæðingu. Einu tilvikin þegar þurfti að útiloka maka alveg frá fæðingum var í keisaraskurði. Konur máttu ekki hafa aðstandanda með í ómskoðunum né í viðtöl á göngudeild. Ráðstafanirnar voru nauðsynlegar, meðal annars til að vernda starfsfólkið fyrir smiti. Það hefði ekki gengið að missa sérhæft starfsfólk úr vinnunni. Þá hefði þurft að takmarka eða leggja niður ómskoðanir, til dæmis. Þannig þurftum við sífellt að finna réttu línuna milli þess að tryggja öryggi fólks og ánægju,“ segir hún.

„Nú eru allir orðnir vanir að gæta að fjarlægð við næsta mann og að vera með grímur. Við höfum ekki þurft að grípa til mikilla takmarkana í þeirri bylgju sem gengið hefur yfir í sumar. Helst hefur þurft að takmarka viðveru aðstandenda þegar fæðing er framkölluð. Það getur tekið tvo til þrjá sólarhringa. Þá er látið nægja að aðstandendur komi þegar fæðing nálgast. Einnig þegar konur eru ekki einar á stofu.“

Þegar ljóst var hve delta-afbrigðið var bráðsmitandi í fjórðu bylgju COVID-faraldursins hafi þótt rétt að ráðleggja þunguðum konum að fara í bólusetningu. ,,Margar þeirra voru fegnar að fá þessa hvatningu. Í upphafi bólusetninga var víða lagst gegn því að ófrískar konur fengju bóluefni. Hér á landi máttu þær fara í bólusetningu en voru ekki hvattar til þess fyrr en nú í sumar þegar ljóst var að veikindi voru alvarlegri með nýjum afbrigðum veirunnar og hætta á börn fæddust fyrir tímann. Ávallt er farið varlega þegar ný lyf og bóluefni koma til sögunnar. Auðvitað er ekki hægt að segja með fullri vissu að bóluefnin hafi engin áhrif en það er ólíklegt.“ Hvað finnst Huldu um mótmælin kringum bólusetningar þungaðra kvenna, þar sem gífuryrði féllu?

,,Mögulega hafa þau fælt einhverjar verðandi mæður frá. Konur hafa hringt og spurt bæði lækna og ljósmæður um áhættuna. Þetta er viðkvæmur tími í lífi fólks og mæður vilja síst af öllu gera eitthvað sem kynni að skaða barnið. Það að veikjast illa getur hins vegar sett barnið í hættu og því var mælt með bólusetningunum á seinni stigum meðgöngu.“

Of fljótt er að líta í baksýnisspeglinn nú, en fjölgun fæðinga og nýjar lausnir hafa þegar haft áhrif. ,,Fyrir flesta hefur faraldurinn haft í för með sér breytingar á vinnulagi til frambúðar. Fólk hefur lært að nýta sér fjarfundabúnað. Eflaust verða fjarfundir algengari í framtíðinni, þótt ekkert komi í staðinn fyrir persónuleg kynni. Við höfum lært að vinna öðruvísi, oftar að heiman og nú þegar hefur verið opnað fyrir ákveðinn sveigjanleika fyrir starfsfólkið okkar. Ýmsir veggir hafa verið brotnir og fólk lært að hugsa út fyrir kassann.“

 

COVID-19 tafði doktorsnámið

Við hverfum til baka til ársbyrjunar 2020 þegar Hulda var á endaspretti doktorsnámsins og vænti þess að útskrifast í desember. ,,COVID tafði mig um hálft ár. Vísindagreinar sem ég ætlaði að fá birtar snemma á árinu voru settar til hliðar. Ekki var litið á aðrar greinar en þær sem fjölluðu um COVID fyrr en í ágúst 2020.“ Í rannsóknum sínum fylgdi Hulda eftir 100 frumbyrjum með ómskoðun í fæðingu.

,,Með því að fylgjast með svona mörgum fæðingum í sónar hefur verið hægt að finna mynstur sem lýsir fæðingum á markvissari hátt en áður var unnt. Ómskoðun er bæði nákvæmari en að nota fingurna til að meta stöðu fæðingar, óþægindin minni og sömuleiðis sýkingarhættan. Með því að þekkja ferli fæðingar í smáatriðum er auðveldara að greina og grípa inn í ef frávik verða. Skoðunartækin verða sífellt nettari og þægilegri. Víða um heim eru áhugaverðar rannsóknir á þessu sviði.“

Hulda fékk kærkomið frí eftir margra ára vegferð þegar áfanginn var í höfn. Oft stundaði hún námið með fullu starfi en fékk einnig styrk sem gaf henni kost á að einbeita sér að rannsókninni hluta tímans. ,,Án góðs samstarfsfólks hefði þetta orðið erfitt.“

Torbjørn Moe Eggebø, yfirlæknir á sjúkrahúsi í Stavanger í Noregi, hvatti hana upphaflega til að fara út í rannsóknir er þau störfuðu þar saman fyrir hartnær tíu árum. Hann varð síðan leiðbeinandi hennar enda lágu áhugasvið þeirra vel saman.

,,Við sáum bæði hvað það gæti verið mikið gagn að því að beita ómskoðun við fæðingu og út frá því vann ég mína rannsóknaráætlun. Margt af því sem við byggjum okkar vinnubrögð á er allt að 100 ára gamalt og ekki of traust. Ég sannfærðist enn frekar um að betur mætti gera þegar ég fór í gegnum gamlar kennslubækur í faginu. Stundum fannst mér ekkert ganga í rannsóknunum en svo komu stór stökk fram á við.“ Niðurstöður rannsóknar Huldu munu án efa hafa áhrif á rannsóknir á þessu sviði víða um heim. Og hún er þegar farin að sjá fyrir sér næstu skref. ,,Næst væri gaman að rannsaka ekki bara frumbyrjur, heldur konur sem hafa fætt áður.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica