10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Metfjöldi í sérnámi til heimilislæknis, 73 alls. Elínborg Bárðardóttir er kennslustjóri

Aldrei hafa jafnmörg stundað sérnám í heimilislækningum og nú. „Við erum með 73 sérnámslækna. Það er frábært,“ segir Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri. Hópurinn hittist á dögunum í fyrsta sinn í um tvö ár í upphitunarteiti fyrir veturinn. „Kærkomið.“

„Heimilislækningar hafa orðið sýnilegri. Sérnámið er gott. Það spyrst út. Svo má velta því fyrir sér hvort lífsstíll ungs fólks sé að breytast. Það horfi til meira jafnvægis milli fjölskyldu og vinnu,“ segir Elínborg Bárðardóttir kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum, spurð um vinsældirnar. Fólk horfi til fleiri átta en Landspítala.

Elínborg fagnar því hve margir sérnámslæknar eru úti á landi. Þrettán fyrir norðan, átta á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fjórir á Austurlandi, tveir á Vesturlandi, einn hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og fjórir á Suðurnesjum. „Alls eru því 32 af 73 utan höfuðborgarsvæðisins, eða nærri 44%. Það eru góðar fregnir fyrir landsbyggðina, því algengt er að sérnámslæknar ílengist á staðnum þar sem þeir læra.“

Elínborg segir aðeins um 200 heimilislækna á landinu. „Á næstu tíu árum má búast við að um tíu heimilislæknar muni heltast úr lestinni árlega sökum aldurs. Það veitir því ekki af fleirum í fagið. Ef við miðum við 1500 landsmenn á hvern lækni, þá þarf að lágmarki 240 stöðugildi heimilislækna en helst um 300.“

U01-fig-2-heimilisl

Læknar í sérnámi til heimilislæknis hittust í móttöku Félags íslenskra heimilislækna á dögunum. Hópurinn hafði þá ekki hist í frá því um vorið 2019. Hér eru Elínborg og kennslustjórar með hópinn sinn fyrir utan Golfskála GKG í Garðabæ. Mynd/gag



Þetta vefsvæði byggir á Eplica