10. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Ávísanir á ópíóíða aukast enn á höfuðborgarsvæðinu. Andrés Magnússon

Andrés Magnússon |fíknigeðlæknir| læknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

doi 10.17992/lbl.2021.10.652

Í þessu hefti Læknablaðsins birtist grein eftir Sigríði Óladóttur og félaga sem sýnir að enn eykst notkun ópíóíða á höfuðborgarsvæðinu. Síðasta aldarfjórðung hefur notkun ópíóíða margfaldast í Bandaríkjunum. Þar í landi hefur hálf milljón manna á besta aldri látist frá aldamótum vegna ofskammta ópíóíða, flestir vegna ávísaðra ópíóíða. Talað er um ópíóíðafaraldur. Faraldurinn er ekki bundinn við Bandaríkin, sama þróunin hefur verið í mörgum Evrópulöndum, til dæmis Bretlandi.

Þessi mikla aukning hefur meðal annars verið rakin til óvæginnar markaðsherferðar lyfjafyrirtækja sem framleiða ópíóíða. Bandarískir dómstólar hafa úrskurðað að lyfjafyrirtækið Purdue Pharma hafi gefið í skyn að lítil hætta væri á að mynda fíkn í ákveðin ópíóíðalyf, blekkt markaðinn, borið fé á lækna og hunsað vitneskju um að auðvelt væri að misnota lyf þeirra. Fjölmargir einstaklingar, ættbálkar, fylki, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar hafa stefnt Purdue Pharma og unnið mörg mál. Nú er svo komið að búið er að taka Purdue Pharma til gjaldþrotaskipta upp í skaðabætur auk þess sem eigendurnir þurfa að borga persónulega milljarða dollara í skaðabætur.

Þetta sýnir meðal annars að læknasamfélagið stjórnast ekki eingöngu af vísindum heldur geta fjárhagslegir hagsmunir í ákveðnum tilvikum haft veruleg áhrif á starfshætti þess. Það er eftirtektarvert að hvorki löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið né læknasamfélagið skar upp herör gegn ópíóíða-far-aldrinum í Bandaríkjunum heldur dómsvaldið. Nú þurfa Íslendingar að gyrða sig í brók svo að hið sama verði ekki upp á teningnum á Íslandi, sérstaklega þar sem langflestar ávísanir lækna á ópíóíða á Íslandi eru utan ábendinga. Þar ber læknirinn aukna ábyrgð.

Sigríður og félagar benda á að langalgengasti ópíóíðinn á Íslandi er parkódín, en í Sérlyfjaskrá segir að því skuli aðeins ávísað í þrjá daga í senn nema að sérstaklega standi á. En hvað er til bragðs að taka? Heilbrigðisráðuneytið gaf út skýrslu fyrir þremur árum síðan um hvernig sporna mætti við notkun ávanabindandi lyfja en erfitt hefur reynst að hrinda þeim ágætu hugmyndum í framkvæmd. Þó hafa þau gleðitíðindi gerst að í nýjum umferðarlögum, 6 lið 48 greinar, er komið inn ákvæði sem heimilar að settar verði svipaðar reglur um akstur undir áhrifum slævandi lyfja og gilda í Noregi og Danmörku. Langalgengustu ópíóíðarnir á Íslandi eru parkódín og parkódín forte en óheimilt er að aka bifreið í Danmörku og Noregi ef þessum lyfjum hefur verið ávísað, þar sem áhrif á akstursgetu eru svipuð og eftir neyslu áfengis. Ætla má að draga myndi úr eftirspurn eftir þessum lyfjum á Íslandi ef sjúklingurinn vissi að hann yrði tilkynntur til Samgöngustofu ef ávísað yrði á hann parkódíni, líkt og dönskum og norskum læknum er uppálagt að gera. Heimilt er að aka bifreið í Noregi og Danmörku ef ávísað hefur verið í ákveðinn tíma langvirkandi ópíóíðum af þeim tegundum sem krabbameinssjúklingar fá.

Aukningin í notkun ópíóíða er aðeins hluti af stærri mynd, nefnilega aukningu á notkun alls konar ávanabindandi efna. Aukning hefur orðið síðustu áratugi í öllum þremur flokkunum: ólöglegum vímu-efnum, ávanabindandi lyfjum og áfengi. Á Íslandi hefur áfengisneysla til dæmis fimmfaldast frá 1950. Talið er að fóstur séu 15 sinnum meira útsett fyrir fósturskemmandi áhrifum áfengis í dag heldur en var 1950.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að ópíóíðar eru afar léleg lyf við langvinnum verkjum, svo sem bakverkjum, þótt þeim sé sennilega langmest ávísað við slíkum kvillum. En því má aldrei gleyma að ópíóíðar eru frábær lyf í bráðaaðstæðum og þegar hilla fer undir lífslok. Aðeins 5% ópíóíða er ávísað vegna krabbameinsverkja.

Árin 2011-2013 voru 7-10 andlát á ári á Íslandi vegna ofskammta ópíóíða en 2018 til 2020 voru þau orðin að meðaltali 17,3 á ári. Þessar tölur renna enn frekari stoðum undir niðurstöður Sigríðar og félaga um að ópíóíðafaraldurinn sé alls ekki í rénun á Íslandi. Það er öfugt við það sem hefur gerst til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem viðsnúningur varð fyrir um það bil 5 árum síðan. Það er lofsvert að Sigríður og félagar hafi notað þá vönduðu skráningu og gagnagrunna sem til eru á Íslandi til þess að vekja athygli á þessum skaðvaldi sem ekki hefur tekist að koma böndum á hér á landi.

 

 

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica