9. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Krabbameinsskimanir á krossgötum. Agnes Smáradóttir

Agnes Smáradóttir | yfirlæknir lyflækninga krabbameina Landspítala

doi 10.17992/lbl.2021.09.648

Vart hefur farið framhjá læknum undanfarna mánuði að illa var staðið að flutningi skimana leghálskrabbameina frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar. Krabbameinsfélagið var brautryðjandi í skimun krabbameina á Íslandi. Ég tel að sú ákvörðun að flytja skimanir til heilsugæslunnar hafi verið rétt því eðlilegt er að sú starfsemi eigi heima innan heilsugæslunnar til framtíðar litið. Á undirbúningsfundum var ítrekað bent á mikilvægi þess að standa vel að þessum flutningi þar sem skipulag í kringum lýðgrundaðar skimanir eins og innköllunarskrár, greiningar og eftirfylgd er umfangsmikið og flókið verkefni. Að fylgjast síðan með hvernig að þessu var staðið var með ólíkindum.

Nú virðist sem rofi til og að það takist að snúa við þeirri óheillaþróun að senda sýni til Danmerkur með þeim flækjustigum og öryggisógn sem því fylgir. Heilsugæslan hefur nú tekið við mikilvægu lýðheilsuverkefni á krefjandi Covid-tímum. Til að skimun krabbameina skili tilætluðum árangri þarf að byggja upp traust á kerfinu og þannig auka þátttöku í skimun. Undanfarin ár hefur mæting í skimun verið langt undir væntingum og Íslendingar eftirbátar annarra Norðurlanda í því tilliti.

Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa tekið við framkvæmd skimana fyrir brjóstakrabbameinum en heilsugæslan heldur utan um innkallanir. Í dag líður of langur tími frá því að konur fara í brjóstamyndatöku þar til svar liggur fyrir. Sá vandi er ekki nýr af nálinni því skortur á sérhæfðum röntgenlæknum hefur verið viðvarandi undanfarin ár. Tafir við greiningar krabbameina geta haft veruleg áhrif á hvaða meðferð er hægt að beita og hvort lækning er möguleg. Mikilvægt er að nota þessi tímamót til að einfalda og skerpa ferla milli heilsugæslu og Landspítala svo að sem minnstur tími tapist. Ennfremur þarf að styrkja mönnun þeirra sem sjá um brjóstamyndgreiningu.

Í 20 ár hefur staðið til að hefja skimanir á krabbameinum í ristli og endaþarmi á Íslandi. Þrátt fyrir álit helstu sérfræðinga í þessum málaflokki, árlegt ákall krabbameinsfélaga og að tugum milljóna króna hafi verið varið í undirbúning, er sú skimun ekki byrjuð. Fyrir 20 árum hefðum við getað verið í forystu Norðurlanda að hefja slíka skimun en nú höfum við glatað því tækifæri. Þar sem ég starfaði, og skimað er fyrir ristilkrabbameini með ristilspeglun, var fáheyrt að æxlið væri orðið það stórt að það kæmi fram í myndgreiningarrannsókn.

Í þessu tölublaði er yfirlitsgrein um skimanir fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi, nýgengi, dánartíðni, kostnað og árangur. Nýgengi þessara krabbameina hefur hækkað á undanförnum árum og má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram með hækkandi meðalaldri þjóðar. Þrátt fyrir að búið sé að sýna fram á gagnsemi skimunar með óyggjandi hætti þá hefur lýðgrunduð skimun ekki verið tekin upp hér á landi. Slík skimun á þó ekki síður rétt á sér en þær skimanir sem þegar eru gerðar og mikilvægt að nýta þá þekkingu sem til er á tilurð þessa sjúkdóms í þágu þjóðarinnar. Fleiri Íslendingar deyja úr krabbameini í ristli og endaþarmi ár hvert en samanlagt úr brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini.

Í greininni er einnig fjallað um mismunandi skimunaraðferðir: Leit að blóði í hægðum (FIT-test) og ristilspeglun. FIT-test er ekki eins næmt og ristilspeglun. FIT-test er einfaldara í notkun en greinir frekar æxli á frumstigi en forstigi. Báðar skimunaraðferðir eru mun betri en engin skimun. Þó tel ég ristilspeglun vera betri kost þar sem með slíkri skimun er hægt að lækka nýgengi ristilkrabbameina með því að fjarlægja sepa sem síðar geta þróast yfir í illkynja mein. En FIT-test eru vissulega betri en engin skimun og best væri að einstaklingar hefðu val um skimunaraðferð.

Fyrir kosningar er ávallt rætt um að efla forvarnir í heilbrigðismálum. Nýta takmarkað fé eins vel og hægt er. Illa er farið með almannafé þegar ákveðið er hvað eftir annað að setja fé í að undirbúa skimun ristilkrabbameina og ákveða síðan að byrja ekki. Í greininni eru sett upp dæmi um mögulegan kostnað við mismunandi skimunaraðferðir. Þar er þó ekki reiknað með þeim mikla kostnaði sem hlýst af meðhöndlun þessara krabbameina, skurðaðgerðum, geislameðferðum, lyfja-meðferðum og vinnutapi þeirra sem greinast.

Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á þann ávinning sem skimun á krabbameinum í ristli og endaþarmi getur skilað, það er að lækka nýgengi. Enn mikilvægara er að skimun getur bjargað mannslífum.

Hefjum lýðgrundaða skimun á ristilkrabbameinum strax!

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica