9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Allir vilja leysa vandann en ekki allir að einkaaðilar komi þar að - 8. spurning

Miðflokkurinn vill að rekstur hjúkrunarheimila taki mið af því að þau séu heimili en ekki sjúkrastofnanir. Viðreisn vill að lögð sé vinna í að þróa fleiri lausnir fyrir aldraða. Sjálfstæðisflokkurinn bendir á gott samstarf við einkaaðila og kallar eftir frekara samstarfi við þá á sem flestum sviðum.

Flokkarnir eru í 8. spurningu spurðir um rekstur hjúkrunarheimila og hvernig þeir vilji taka á vandanum. Samfylkingin segir að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum og fjármagna þá þjónustu með fullnægjandi hætti. Byggja þurfi íbúðakjarna fyrir aldraða. Framsóknarflokkurinn vill virkt samtal milli sveitarfélaga og ríkisins um framtíðarfjármögnun hjúkrunarheimila.

Vinstri græn vilja fjölbreyttari þjónustu í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Píratar sveiganleg úrræði og Flokkur fólksins auka rekstrarfé starfandi heimila og leysa fráflæðisvandann sem fyrst.

Samantekt svara stjórnmálaflokkanna við spurningum Læknablaðsins um heilbrigðisþjónustuna
fyrir Alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi.

Althingi-2

8. SPURNING

Spurt er: Þjóðin eldist og áratugalangur vandi birtist í því að æ fleiri veikir aldraðir bíða eftir viðunandi úrræðum til dæmis á bráðamóttöku, lyflækningadeildum og skurðdeildum Landspítalans. Af þessu myndast gríðarlegur flöskuháls, til dæmis í aðgengi að bráðamóttöku og óásættanlegum frestunum á valaðgerðum og lengingu á biðlistum. Hvernig vill flokkur þinn taka á vandanum?

 

Enga biðlista og auka rekstrarfé starfandi heimila - Flokkur fólksins

Flokkur fólksins vill fjölga hjúkrunar- og dvalarheimilum og auka rekstrarfé starfandi heimila. Það hefur sýnt sig að fjármagn hefur ekki fylgt sem skyldi til að tryggja auknar þjónustukröfur undanfarin ár. Þetta þarf að bæta. Við viljum koma í veg fyrir biðlista, hvort sem það er eftir heilbrigðisþjónustu eða eftir plássi á hjúkrunarheimili. Við teljum fráflæðisvandann grafalvarlegan og viljum fjölga hjúkrunarheimilum, auka rekstrarfé og efla heimaúrræði til að leysa hann sem fyrst.

 

Nýta greiningarvinnuna og móta þjónustu aldraðra - Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að niðurstöður sem verkefnastjórnar um greiningu á rekstri hjúkrunarheimila verði nýttar til gagns og að virkt samtal eigi sér stað milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig framtíðarfjármögnun hjúkrunarheimila eigi að vera hagað. Að mati Framsóknarflokksins gengur það ekki upp að 87% hjúkrunarheimila séu rekin með halla. Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á að ríki og sveitarfélög fari nú þegar í vinnu í tengslum við mögulegt fyrirkomulag þjónustu við aldraða. Horfa verður til tækifæra á lengri búsetu í eigin húsnæði, samspili heimahjúkrunar og heimaþjónustu og sveigjanlegri dagdvöl fyrir eldra fólk. Í þeirri vinnu er m.a. hægt að horfa til þeirra framfara sem orðið hafa í velferðartækni.

 

Efla og styrkja fagmenntun ogheimaþjónustu - Miðflokkurinn

Miðflokkurinn vill bregðast við þeim augljósa vanda sem ríkir á umönnunarsviðinu og þá sérstaklega þegar kemur að öldruðum. Það að vera aldraður er ekki sjúkdómur en um leið og þjóðin eldist þarf að huga betur að þessum málum, meðal annars með átaki í byggingu dvalar- og hjúkrunarrýma. Eins þarf að efla og styrkja fagmenntun þeirra sem starfa á hjúkrunarheimilum. Það gengur ekki að hjúkrunarheimilin séu vel flest rekin með halla og ljóst að það verður að taka á því með einhverjum hætti. Staða hjúkrunarheimila afhjúpar einnig mun á þjónustu þeirra eftir landshlutum. Heimilin eru flest stærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og þar er elsti hópurinn hlutfallslega fjölmennastur og hjúkrunarþyngd meiri en annars staðar. Stærri heimilin á höfuðborgarsvæðinu ráða betur við mikla hjúkrunarþyngd en þau sem eru lítil og á stóru heimilinum er jafnframt best aðgengi að sérhæfðri læknisþjónustu. Mikilvægt er að tryggja að fólk geti sem lengst stuðst við heimahjúkrun og verið sem næst sínum heimaslóðum og ættingjum þegar kemur að því að það þarf að dveljast á hjúkrunarstofnun. Miðflokkurinn vill að rekstur þeirra taki mið af því að þau séu heimili en ekki sjúkrastofnanir.

 

Fjármagna þurfi þjónustuna með fullnægjandi hætti - Samfylkingin

Verkefni stjórnvalda við þjónustu við eldra fólk er margþætt en brýnt. Samfylkingin telur í fyrsta lagi að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum og fjármagna þá þjónustu með fullnægjandi hætti. Rekstraraðilar hafa löngum bent á að daggjöld sem greidd eru með hverju rými séu ekki í tengslum við raunveruleikann og staðfestir ný skýrsla Gylfanefndar, sem falið var að rýna í rekstur hjúkrunarheimila, það. Eldra fólki mun fjölga mikið á næstu áratugum og eitt stærsta verkefni stjórnvalda er því hvernig megi þjónusta þennan stóra og fjölbreytta hóp með fullnægjandi en þó hagkvæmum hætti. Samfylkingin vill auka fjölbreytni húsnæðis- og þjónustukosta fyrir þennan aldurshóp. Auka verður við fjölbreytta heimaþjónustu en einnig þarf að hefja átak í fjölbreyttum húsnæðismálum þannig að millibil milli heimaþjónustu og hjúkrunarrýma verði aukið til muna. Átak verði í uppbyggingu íbúðakjarna þar sem eldra fólk getur sótt lágmarksþjónustu, finnur fyrir auknu öryggi en fær einnig aukinn félagsskap annarra íbúa. Þetta mun leiða til minni ásóknar í hjúkrunarrými síðar. Þá getur aukin velferðartækni aukið aðgengi, lífsgæði, öryggi og sjálfstæði íbúa.

 

Fjölbreytt úrræði og byggja upp hjá hinu opinbera - Vinstri græn

Vinstri græn vilja að í boði séu fjölbreytt úrræði fyrir eldra fólk sem þarf þjónustu. Það er ljóst að með því að halda áfram sömu aðferðafræði með tilliti til þjónustu munum við aldrei komast fyrir endann á þörfinni. Við þurfum að halda áfram að byggja upp þjónustu í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Þar þarf að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu, og sérstaklega að horfa til þjónustu á forsendum notenda, þjónustu heim, og þjónustu sem tryggir að eldra fólk geti búið sem lengst heima. Þá er mikilvægt að auka heilsueflingu og endurhæfingarþjónustu fyrir eldra fólk.

 

Mæta þörfum fólks og tryggja sveigjanleg úrræði - Píratar

Lausnin á hinum margumrædda fráflæðisvanda er ekkert sérstaklega flókin. Enn og aftur snýr hún að þörfum þeirra einstaklinga sem nýta heilbrigðis- og velferðarkerfin. Fólki sem þarf umönnun frekar en dvöl á sjúkrahúsum skal hjálpað að finna húsnæði við hæfi, með þá þjónustu í boði sem þörf er á. Hér reynir á enn eina heimatilbúnu flækjuna, togstreitu sveitarfélaga og ríkis um fjármagn með málaflokkum. Ríkisstjórn Íslands þarf annað hvort að taka þetta umönnunarhlutverk að sér eða veita sveitarfélögum nægilegt fjármagn til að sinna því af virðingu og nærgætni við eldri borgara. Þarfir þeirra eiga að vera í forgrunni og fyrir vikið þarf að tryggja sveigjanleg úrræði fyrir þennan fjölbreytta hóp.

 

Semja á við einkaaðila og frumkvöðla - Sjálfstæðisflokkurinn

Yfirstandandi uppbygging við Hringbraut mun gjörbreyta sjúkrahúsþjónustu hér á landi til framtíðar. Um gríðarstóra fjárfestingu er að ræða sem ætlað er að stórbæta aðstöðu á fjölmörgum sviðum, meðal annars þar sem henni hefur lengi verið ábótavant. Með bættri aðstöðu og auknu rými styttast biðlistar eftir ýmsum aðgerðum og þjónusta batnar.

Aftur á móti er verkefnið stórt og mun taka talsverðan tíma. Þess vegna er mikilvægt að við leitum á sama tíma allra leiða til að auka og bæta þjónustu. Í því felst meðal annars að semja við einkaaðila og frumkvöðla úti í samfélaginu. Við eigum dæmi um afar vel heppnaða uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila af hálfu einkaaðila með samningum við ríkið og eigum að sækja í slíkt samstarf á sem flestum sviðum.

 

Fleiri lausnir í þjónustu við aldraða - Viðreisn

Viðreisn vill fjölbreytt og notendamiðuð úrræði í hjúkrunarmálum aldraðra. Langvinnur skortur á fjárfestingu í hjúkrunarrýmum hefur valdið vanda sem fyrirséð er að muni taka langan tíma að vinda ofan af. Til viðbótar við verulega fjölgun öldrunar- og hjúkrunarrýma þarf að bæta heimaþjónustu og félagsleg úrræði til muna. Við þurfum að svara kalli tímans og leggja vinnu í að þróa fleiri lausnir í þjónustu við aldraða. Ekki er nóg að fólk fái hjúkrun, fæðu og þrif á heimili heldur þarf að aðlaga heimili þess að nýjum og breyttum þörfum.

U14-Flokkarnir

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica