9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Skömmtun lyfja og öryggi lyfjameðferðar

FRÁ EMBÆTTI LANDLÆKNIS 39. PISTILL

Vélskömmtun lyfja hófst fyrir rúmum 20 árum á Íslandi og var í upphafi einkum nýtt á hjúkrunarheimilum. Í millitíðinni hefur umfang lyfjaskömmtunar til einstaklinga utan stofnana aukist verulega en árið 2020 fengu 14 þúsund manns lyf í vélskömmtun, sjá mynd 1.

Meirihluti þeirra sem fá lyf í skömmtun eru aldraðir og á fjöllyfjameðferð en meðalfjöldi lyfja í skömmtun var 8,5 hjá 67 ára og eldri.1 Þrjú fyrirtæki bjóða vélskömmtun auk 11 apóteka sem bjóða skömmtun í öskjur. Vélskömmtun er stýrt með skömmtunarkorti hjá hverju þessara fyrirtækja. Það getur verið snúið þegar læknar og lyfjafræðingar þurfa að hafa heildarsýn yfir öll lyf sjúklinga sem koma mögulega frá fleiri en einu apóteki/skömmtunarfyrirtæki. Flutningar á milli þjónustustiga, til dæmis við inn- og útskriftir, eða aðkoma fleiri en eins læknis, þegar lyfjabreytingar eru, getur aukið hættu á mistökum í lyfjameðferð einstaklinga sem fá lyf skömmtuð. Við valdar aðstæður og með viðeigandi verkferlum getur vélskömmtun lyfja bætt meðferðarheldni og stutt við öryggi í lyfjatiltekt.

Nýlega gaf Evrópuráðið út leiðbeiningar um skömmtun lyfja.2 Í þeim eru tilgreind atriði sem hafa þarf í huga þegar vélskömmtun er ákveðin. Áhersla er lögð á að metið sé hvort þessi leið henti viðkomandi sjúklingi eða aðstæðum. Ennfremur eru verkferlar útlistaðir, að skýrt sé hvaða læknir beri ábyrgð á skömmtun og tryggt að regluleg endurskoðun fari fram (til dæmis af heimilislækni eða teymi á göngudeild sjúkrahúss) á lyfjum sjúklings.

Embætti landlæknis hafa borist ábendingar um atvik þar sem öryggi sjúklinga í skömmtun var ógnað. Dæmi eru um að einstaklingar hafi fengið sömu lyfin afhent frá tveimur skömmtunarfyrirtækjum á sama tímabili. Einnig er nýlegt dæmi um aldraðan einstakling sem fékk svefnlyfinu zópíklón ávísað frá heimilislæknum til viðbótar við vélskömmtuðu lyfin en zópíklón var þar á meðal. Skýringin á viðbótarávísunum í því tilviki var sú að sjúkraskrárkerfi heilsugæslunnar býður ekki upp á að skömmtun sjáist í gátt og að ekki hafði verið gert ráð fyrir að þetta lyf væri vélskammtað, en samkvæmt leiðbeiningum er það ekki ætlað til langtíma notkunar.

Endurnýjun lyfja í skömmtun hefur leitt til þess að algengara er að læknar séu skráðir fyrir lyfjaávísunum á fjölda sjúklinga sem þeir eru jafnvel í litlu sambandi við. Einnig er það umhugsunarefni þegar margir læknar í senn eru skráðir fyrir lyfjaskömmtun einstaklings. Auk þess eru dæmi um að lyfjaskömmtun sé endurnýjuð til allt að 12 mánaða við útskrift af sjúkrahúsi en þá er læknanúmer þess læknis sem útskrifar á bakvið lyfseðla skömmtunarkortsins.

Í utanumhaldi vélskömmtunar þarf að varast að afgreiðslur verði ekki fleiri eða til lengri tíma en þörf er á. Meðferðarsamband þarf að vera til staðar og gæta þarf að því að lyf séu ekki endurnýjuð sjálfvirkt án þess að endurmat hafi farið fram. Þetta á einnig við um endurnýjanir lyfja gegnum Heilsuveru og útgáfu heildarmagnsávísana sem komu í stað fjölnota seðla og er hver þeirra afgreidd í allt að 12 mánuði.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar í vélskömmtun festast frekar á lyfjum. Þeir taki með tímanum fleiri lyf en þeir sem fá lyf ekki skömmtuð.3 Sambærilegar úttektir hafa ekki farið fram hér á landi. Vísbendingar eru þó um að hlutfallslega fleiri aldraðir Íslendingar fái lyf vélskömmtuð en til dæmis í Svíþjóð. Þar er mælt með að einstaklingar í skömmtun séu forgangshópur fyrir reglulega yfirferð lyfjasögu og lyfjarýni.3

Mikilvægt er að rafræn kerfi og klínísk þjónusta styðji við skömmtun lyfja. Ábyrgð lyfjafræðinga varðandi upplýsingagjöf til sjúklinga er ekki undanskilin í þessu samhengi. Miðlægt lyfjakort þar sem öll lyf og lyfjabreytingar eru skráð í rauntíma verður veigamikið framfaraskref varðandi lyfjaöryggi á Íslandi. Auk þess sem það sparar tíma sem nú fer í að sannreyna þá lyfjameðferð sem viðkomandi einstaklingur er í hverju sinni. Samhliða innleiðingu á miðlægu lyfjakorti þarf að endurskoða reglugerð um skömmtun lyfja enda nauðsynlegt að verkferlar séu samræmdir þegar lyfjameðferð er breytt eða nýjum lyfjum ávísað, hvort sem er innan eða utan lyfjaskömmtunar.

U11-fig-1

 

 

Heimildir

1. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis.
 
2. Leiðbeiningar Evrópuráðsins um skömmtun lyfja. https://www.edqm.eu/en/news/new-automated-dose-dispensing-add-guidelines
 
3. Morin L, Johnell K et.al. The epidemiology of polypharmacy in older adults: register-based prospective cohort study. Clinical Epidemiology 2018; 10: 289-98.
https://doi.org/10.2147/CLEP.S153458
PMid:29559811 PMCid:PMC5856059

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica