9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Þýðingarmikið að sækja þekkingu til útlanda, segir formaður FAL, Árni Johnsen

Læknar vilja vera í sama liði og vinnuveitandinn, segir Árni Johnsen, sem tók við formennsku í Félagi almennra lækna nú í vor. Æskilegt væri að almennir læknar hefðu aukna möguleika á að móta eigið starfsumhverfi. Þá þurfi að halda áfram að byggja upp sérnám hér á landi.

„Breyting á félaginu fyrir rúmum áratug var eðlileg þróun og menn eru lengur í félaginu en áður var,“ segir Árni Johnsen, formaður Félag almennra lækna. Félagið er fyrir starfandi lækna sem hafa ekki lokið sérnámi. Það stendur á gömlum merg, fyrirrennari þess var Félag ungra lækna sem starfaði í áratugi uns það var lagt niður 2010 og Félag almennra lækna tók við.

„Almennir læknar núna eru ekki endilega ungir og hafa sumir starfað í allmörg ár hérlendis meðan þeir eru í sérnámi áður en þeir fara til útlanda í frekara sérnám. Flestir félagsmenn eru með almennt lækningaleyfi en ekki endilega í sérnámi,“ segir Árni, en félagsmenn eru nú tæplega 500.

Félagið aðstoðar við ágreining

Árni segir helstu verkefni félagsins á þremur sviðum um þessar mundir. „Það er félagslega hliðin með árshátíð og fleiri viðburðum, fræðslumálin og síðan hvers konar hagsmunagæsla, til dæmis varðandi túlkun kjarasamninga.“ Stundum sé ágreiningur við vinnuveitendur um út-færslu þeirra og þá aðstoði félagið félagsmenn.

„Fræðsla snýr bæði að kjaramálum og hvernig menn bera sig að við að velja sérnámsleiðir en félagið hefur þó ekki beina milligöngu þar, yfirleitt nýta menn persónuleg sambönd sín. Margir félagsmenn hafa haldið til Svíþjóðar en svo eru íslenskir læknar í sérnámi í ýmsum Evrópulöndum en kannski færri en í Ameríku en áður, sem skýrist kannski að einhverju leyti með öðruvísi vinnuálagi vestra en á Norðurlöndunum.“

Eru almennir læknar tilbúnir að leggja félaginu lið? „Mér hefur fundist það. Þrátt fyrir að margir læknar vinni mikið, hefur ekki verið erfitt að fá fólk til stjórnarstarfa eða annarra verkefna fyrir félagið.“

Hvað er helst á óskalista FAL varðandi umbætur í námi og starfi? „Í efsta sæti væri bætt starfsumhverfi almennra lækna. Kannanir LÍ sýna endurtekið að það er mikið álag í starfinu, að læknar þurfi að vinna mikið og undir miklu álagi. Af þeim sökum væri æskilegt að almennir læknar hefðu aukna möguleika á að móta eigið starfsumhverfi,“ segir hann.

„Annað er að heilbrigðisyfirvöld hlusti í auknum mæli á lækna þegar kemur að ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfinu. Þá finnst okkur nauðsynlegt að vinnuveitendur lækna hætti að gera einhliða breytingar til að skerða kjör lækna, sem kemur of oft fyrir. Almennum læknum ætti að líða eins og þeir séu í sama liði og vinnuveitandinn en það er alls ekki alltaf þannig.“

Enn þarf að byggja upp sérnámið

Árni segir að síðast en ekki síst megi nefna að félagsmenn vilji sjá áframhaldandi uppbyggingu á sérnámi á Íslandi. „Bæði hvað varðar fjölbreytileika og að tryggja að sá hluti sérnáms sem tekinn er hérlendis verði metinn sem hluti af sérnámi erlendis.“

Eru margir möguleikar til sérnáms hérlendis? „Þeir eru þónokkrir og helst í heimilislækningum, geðlækningum, bráðalækningum og almennum lyflækningum og möguleikarnir aukast smám saman. Flestir hefja sérnámið hér og halda síðan til útlanda til að ljúka því eða bæta við sig undirsérgrein á sínu sérsviði. Það verður alltaf þýðingarmikið fyrir okkur að sækja til útlanda nýja þekkingu og reynslu og færa hana hingað heim.“

Af hverju fórst þú í læknisfræði? „Ég byrjaði nú í eðlisfræði sem ég hef mikinn áhuga á og tók BS-próf en lauk svo læknisfræðinni. Ég starfa á heilsugæslunni í Fjarðabyggð, er þar nokkrar vikur í senn og sinni svo litlu sprotafyrirtæki með félögum mínum. Við erum að hanna hugbúnað til að auðvelda rafræn samskipti sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks en í læknadeildinni hefur á seinni árum verið lögð aukin áhersla á að læknar sinni þessum samskiptum vel.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica