9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

„Landspítalinn virkar ekki“ - viðtal við Kára Stefánsson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir nærri 87 þúsund undirskriftirnar sem hann safnaði fyrir kosningar 2016 litlu hafa skilað. Hann er hugsi yfir stöðunni. Erfitt sé að draga vitrænar ályktanir af því sem gert sé á Landspítala. Heilbrigðisstarfsfólk sé að bugast á þeim tíma sem það ætti að njóta sín best. Læknar hafi glutrað niður stöðu sinni til að hafa áhrif.

 „Félög lækna eru eins og klassísk stéttarfélög að berjast fyrir launum og kjörum í stað þess að vera fagleg stéttarfélög. Það er eitt af vandamálum íslensks heilbrigðiskerfis í dag,“ segir Kári Stefánsson forstjóri með Læknablaðið inni á gafli hjá sér á skrifstofu sinni hjá Íslenskri erfðagreiningu í Vatnsmýrinni. Sólin skín þennan föstudagsmorgun í ágúst.

„Læknar setja sig með þessu í þá stöðu að taka frá sjálfum sér þann möguleika að hafa þau áhrif á heilbrigðiskerfið sem þeir ættu að hafa,“ segir hann. Áherslan á stéttabaráttu hafi áhrif á almenningsálitið.

Hagsmunagæsla umfram fagið

„Samfélagið lítur á lækna sem tiltölu-lega hvassa, harða gæslumenn sinna eigin hagsmuna frekar heldur en samfélagsins. Það er sorglegt vegna þess að eitt af því sem hvetur fólk til að fara í læknisfræði, – hvetur það til að vinna í heilbrigðisþjónustu, er þessi tilfinning sem fæst þegar maður hlúir að þeim sem eru lasnir. Að menn séu að gera eitthvað gott annað en að afla peninga í búið,“ segir Kári og er umhugað um að orðin skiljist ekki sem skammir til lækna heldur sé hann að leggja mat á stöðuna. Henni þurfi að breyta.

„Læknar ættu að vera þeir sem leiða umræðu og hugsun um heilbrigðismál á Íslandi. Þeir ættu að vera þeir sem stjórnvöld leita til þegar verið er að skipuleggja, en upp á síðkastið hefur ekki verið svo,“ segir hann og nefnir að staða lækna í samfélaginu hafi gjörbreyst á einungis aldarfjórðungi. Þeir hafi áður verið mikils metnir en séu nú venjulegir launþegar í augum fólks.

„Ég held að ein af aðalástæðunum sé sú að þeim hafa orðið á mistök í félagsstörfum sínum.“

Landspítali tapað móralnum

Er þetta ástæðan fyrir að læknaráð var lagt niður á Landspítala? „Það er erfitt að draga vitrænar ályktanir af því sem gert er á Landspítala þessa dagana. Hann er í slíku rusli að hann virðist einungis vera að troða marvaða við að halda höfði fyrir ofan vatn og gengur það illa. Ég held að það séu meiriháttar mistök að hafa ekki læknaráð innan spítalans. Ég held að það sé mikilvægt að hafa faglegar ráðleggingar og faglegt framlag lækna inni á svona sjúkrahúsi.“

Kári segir margt hægt að gera til að rétta stöðu Landspítala af. „Ég held því fram að Landspítalanum hafi mistekist að viðhalda því andrúmslofti sem þarf að vera. Eftir faraldurinn blasir við að það gengur best þegar heilbrigðisstarfsmenn taka yfir spítalann, eins og til dæmis þegar var sem mest af innlögnum á spítalann af Covid-sjúklingum,“ segir hann og lýsir hvers vegna.

„Ákvarðanir voru teknar af því fólki sem var að hlúa að sjúklingum á því augnabliki sem þeir gerðu það. Það gekk mjög vel á Covid-göngudeildinni. Þar voru ungir læknar, fullir af eldmóði, að hlúa að sjúklingum,“ segir Kári og er yfirvegaður þar sem hann situr við skrifborð sitt á stórri skrifstofunni í fyrirtækinu sem hefur verið í eigu bandaríska Amgen frá 2012. Fyrirtækinu sem hefur kortlagt íslenskt erfðamengi allt frá árinu 1996.

Hann segir að hann sjái ekki annað en það gangi illa frá degi til dags að halda uppi þeirri stemningu á Landspítala sem sé að vissu leyti nauðsynleg til þess að vel gangi. Læknar þar upplifi ekki að þeir séu að gera vel.

„Ég á mjög erfitt með að hafa einhverja samúð með þeim sem tala um að þeir séu orðnir þreyttir út af þessum faraldri. Vegna þess að þegar maður vinnur þá vinnu sem maður hefur þjálfað sig í að sinna í áratugi, starf sem maður hefur valið sér, og allt í einu er þörf fyrir það, þá á að vera gaman. Menn eiga ekki að vera þreyttir.“

Þreyta lækna mistök í stjórnun

Kári bendir á mismunandi viðhorf starfsfólks Íslenskrar erfða-greiningar og á veirudeildum Landspítala til skimana. „Aldrei heyrðist kvörtun frá rannsóknarstofu okkar þegar við vorum að vinna á þrískiptum vöktum sjö daga vikunnar. Menn voru ánægðir. Þeir fengu að taka þátt. Þeir voru hluti af því því sem var að gerast,“ lýsir Kári.

„En um leið og þetta fór upp á Landspítala þá fóru allir að tala um að menn væru svo þreyttir. Þetta er einhver misskilningur. Ofboðslega gott fólk vinnur að veirurannsóknum uppi á Landspítala. Þetta er afburðarfólk en einhverra hluta vegna er andrúmsloftið á spítalanum þannig að það virðist ekki fá tækifæri til þess að njóta þess sem það gerir. Það er út í hött. Það þarf að gera eitthvað í því.“

Spurður um stöðu bráðamóttökunnar segir Kári hana „mjög klaufalega,“ eins og hann orðar það. Kaós sé bráðamóttökum eðlislægt. „Það má leiða að því rök að ekki sé hægt að vinna til lengri tíma á bráðamóttöku nema þú finnir einhverskonar ró í því kaósi. Það er að segja þér verður að líða vel í auga stormsins.“ Almennilegt fráflæði frá bráðamóttökunni myndi gera hana sem aðrar bráðamóttökur spítala um allan heim.

„Það er svo göfugt starf að fá að hlúa að sjúkum og meiddum að það hlýtur að vera hægt að búa til ástand þar sem menn eru montnir af því að vera þarna. En eins og stendur vill enginn vinna á Landspítala.“ Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sé hér á landi. „Við erum með fleiri sérfræðinga í læknisfræði á nef heldur en nokkurs staðar í gervallri Norður-Evrópu. Af hverju er erfitt að fá þetta fólk til að vinna á Landspítala? Það er eitthvað að þar.“

En blasir þá við hvað það er? „Það væri verðugt verkefni fyrir samstarfsnefnd Læknafélagsins og næsta heilbrigðisráðherra að endurskipuleggja Landspítala. Það þarf að gera átak og það á ekki eingöngu að koma utan frá. Það þarf að koma innan frá.“ Hann sé sammála fjármálaráðherra að vandinn verði ekki leystur með peningum einum saman.

„Það þarf meira til. Það þarf hugarfarsbreytingu. Það þarf breytingu á viðhorfi innan spítalans til að hægt sé að vinna vel og fá ánægju úr þeirri vinnu.“

Illa gengur að reka spítalann

En myndir þú þá kasta inn handklæðinu ef þú værir forstjóri Landspítala? Hefur honum mistekist? Kári hugsar. „Mér finnst Páll yndislegur maður. Hann er ljúfur, góður maður en það hefur gengið illa að reka spítalann. Það má leiða að því rök að hann hafi ekki fengið þann stuðning frá stjórnvöldum sem hann þyrfti á að halda,“ segir Kári. „En það hefur líka gengið illa að fá nauðsynlegan stuðning frá læknum sem stétt.“

Margt þurfi til þess að breyta þessu. „Það þarf hugarfarsbreytingu, svo þarf að koma til meira fé. En það þarf að skipuleggja Landspítalann í samhengi við afgang heilbrigðiskerfisins. Það er ekki hægt að vera með allan þennan mýgrút af stofum sérfræðinga úti í bæ án nokkurs gæðaeftirlits. Eitt af því sem Landspítali þyrfti að gera er að sjá um gæðaeftirlit fyrir afgang heilbrigðiskerfisins.“

Landspítali ströggli því ekki aðeins við eigið hlutverk. Honum hafi líka mistekist að taka að sér verkefni sem sé eðlilegt að hann sjái um.

Lítill árangur af undirskriftunum

Kári stóð fyrir ákalli um betra heilbrigðiskerfi fyrir síðustu Alþingis-kosningar. Hann fékk með sér nærri 87 þúsund sem hvöttu ríkisvaldið til að setja 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið.

Hann segir árangurinn af undirskriftunum 2016 „mjög lítinn“. Þótt sýna megi fram á að meira fé hafi runnið til málaflokksins hafi ríkisstjórnin ekki skilgreint hvert það ætti að renna. Kórónuveirufaraldurinn hafi hugsanlega truflað.

„En engu að síður er dapurlegt hvað hefur gengið illa að fá ríkisstjórnina til þess að styðja raunverulega við heilbrigðiskerfið.“ Hann segir heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðherra þarft framtak. „Búinn var til rammi utan um heilbrigðiskerfið en það á eftir að fylla upp í hann algjörlega.“ Framkvæmdin skipti mestu máli.

„En við erum býsna langt frá því markmiði sem við settum fyrir fimm árum. Við erum langt á eftir þegar litið er til vergrar landsframleiðslu í öðrum löndum Norður-Evrópu. Að vissu leyti segja tölurnar ekki allt. Við erum svo fá að kostnaðurinn hlýtur að vera meiri en meðal stærri þjóða.“

Bylgjur fram að hjarðónæmi

Kórónuveiran. Við ræðum kerfið. Hann bendir á að nú sé ljóst að bólusetningar gegn kórónuveirunni verji fólk ekki gegn smiti heldur sjúkdómnum. „Þetta þýðir að það kemur til með að koma hver bylgjan á fætur annarri þangað til 75-80% af þjóðinni hefur smitast. Það bíður okkar að sjá til þess að hver bylgja fyrir sig verði ekki svo stór að hún sligi okkur sem samfélag; sligi ekki atvinnuvegina og heilbrigðiskerfið.“

Vandamálið nú sé hve illa Landspítali sé í stakk búinn til „þess að gera nokkurn skapaðan hlut.“ Kári segir að það þýði að grípa þurfi til ráðstafana sem vegi að getu landsmanna til að framfleyta sér. „Við þurfum að borga háan prís fyrir að hafa ekki hlúð betur að heilbrigðiskerfinu.“

En talandi um kostnað þá nefndi Kári í upphafi faraldursins að kostnaður Íslenskrar erfðagreiningar við greiningu og skimun veirunnar væri um 1,2 milljarðar króna á mánuði. Færðu þessa upphæð til baka?

„Í byrjun marsmánaðar í fyrra leit þessi faraldur mjög ógnvekjandi út. Þetta leit út eins og fyrsti kaflinn í sögunni um endalok mannkyns,“ segir hann og því hafi verið eðlilegt að allir sneru bökum saman. Eðlilegt hafi verið að nýta tæki og þekkingu DeCODE.

„Við hættum að skima um mánaðamót júní-júlí. Nú er eina framlag okkar að raðgreina veiruna úr öllum þeim sem eru greindir.“ Kostnaðurinn hafi því lækkað hægt og hægt. „Það er engin ástæða fyrir okkur að líta svo á að einhver skuldi okkur fyrir þetta. Við sinntum því sem þurfti að sinna. Nú erum við hér. Höldum áfram. Þetta er í fínu lagi.“ Hann hafi ekki hugmynd um kostnaðinn.

„Við erum á fínum stað.“

 

U04-fig-2-Kari-Stefansson

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir Landspítala hafa misst starfsandann niður svo fólk sé nú þreytt á tímum þar sem það ætti að vera fullt eldmóðs að nýta þekkinguna sem það aflaði sér í því starfi sem það valdi. Mynd/gag

 

Vísindi of dýr fyrir Ísland

„Við erum lítil þjóð. Okkar framlag til vísinda verður aldrei mjög stórt. Lífvísindi hafa þróast á þann hátt að lágmarksstærð á einingu sem leggur eitthvað marktækt til vísinda hefur verið að stækka. Sú staða er orðin þannig að það er mjög erfitt fyrir íslenskt samfélag að standa undir hópum af þeirri stærð að þeir geti lagt eitthvað marktækt af mörkum til vísinda. Það er ósköp einfalt,“ segir vísindamaðurinn Kári Stefánsson beðinn um að leggja mat á stöðu vísinda hér á landi.

„Það eru fáránlegar kröfur að hálfu vísindamanna á Íslandi að ætlast til þess að samfélagið leggi af mörkum þannig að hægt sé að stunda kraftmikil vísindi í þessu litla samfélagi. Þeir verða að sýna meira hugvit í því hvernig þeir afla fjár til sinna rannsókna en að sækja til ríkisins,“ segir hann. „Þetta er staðreynd.“

Kári á sínu 73. aldursári segir að hann sé stoltur af starfi DeCode síðustu 25 árin. „Við komum hingað 1996. Það var engin hefð, geta og þekking hér á þessu sviði. Við höfum lagt feykimikið af mörkum og erum montin af því. Við höfum leitt heiminn á sviði erfðavísinda, sem er að vissu leyti ótrúlegt. Ein af ástæðunum er sú að við vorum dugleg að afla fjár í gegnum allskonar einkaaðila.“

En er staðan nú eins og var árið 1996? Geta læknar stofnað til annars DeCODE-ævintýris? „Já.“

 

Hefði átt að nýta íslenskt handtak

„Maður má ekki fórna vellíðan fólks fyrir eitthvað háleitt pólítískt markmið sem er í sjálfu sér abstrakt. Og það er ennþá asnalegra ef menn leyfa sér þann munað að nota sænskt einkaframtak til þess að framkvæma liðskiptaaðgerðir og neita sér svo um þann munað að notfæra sér það sem er hér í boði á Íslandi,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um þá ákvörðun að senda sjúklinga til Svíþjóðar í liðskipti.

Hann segist deila þeirri hugsjón að heilbrigðisrekstur eigi að vera á hendi ríkisins, en svo virðist sem heilbrigðisráðherra líti svo á að það sé minni uppgjöf gegn einkaframtakinu að semja við einkaaðila í útlöndum en við þá íslensku. „Mér finnst það asnalegt.“ Semja hefði átt við Klíníkina. „Og á þann hátt nýta sér það frumkvæði sem liggur hjá þeim einstaklingum sem búið er að koma upp hjá Klíníkinni.“

Kári segir að nú þegar ráðherra hafi sýnt þennan skort á vilja til að eiga eðlileg samskipti við einkaframtakið, sé hætta á því að eftir kosningar verði einhverskonar sveifla í hina áttina, ráðuneytið lendi í höndum Sjálfstæðismanna.

„Þegar menn fara að leika með svona miklum þunga eftir pólitískri hugmyndafræði er hættan sú að það haldi áfram og sveiflist á milli þessara tveggja andstæðna á þann hátt að það vegi að gæðum kerfisins.“

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica