9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Vandi sem þolir enga bið, - það er mat Steinunnar Þórðardóttur

Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir og formaður læknaráðs Landspítala segir að kórónuveirufaraldurinn hafi opnað augu fólks fyrir uppsöfnuðum vanda Landspítala, vanda sem þoli enga bið. Árum saman hafi heilbrigðisstarfsfólk slökkt elda en það gangi ekki lengur upp og horfa þurfi til framtíðar í stað þess að láta hlutina bara reddast.

Steinunn Þórðardóttir segir löngu tímabært að hætta að tala um hvað megi betur fara og láta verkin tala. „Það er búið að segja alla þessa hluti ítrekað, árum og jafnvel áratugum saman. Tökum Landspítala sem dæmi. Stofnun sem síendurtekið er komin að þolmörkum en samt sem áður breytist lítið. Að lokum endar það með því að starfsfólkið gefst upp, fer annað eða reynir að horfa fram hjá vandanum eftir að hafa reynt án árangurs að benda á það sem miður fer. Ábendingar sem síðan eru sagðar endalaust væl,“ segir Steinunn og vísar þar til þess að heilbrigðisráðherra biðlaði til lækna að hætta að tala Landspítala niður á fundi með læknaráði í janúar 2020. Það sama ár var læknaráð Landspítala fellt út úr lögum um heilbrigðisþjónustu og í kjölfarið lagt niður af stjórnendum spítalans. Læknar ákváðu aftur á móti að stofna nýtt læknaráð sem veitir faglega ráðgjöf og leiðbeiningar.

Fjárskortur blasir við læknum á Landspítala og sjúkrahúsið glímir við margvíslegan vanda. „Er þar sóun í rekstri stofnunarinnar um að kenna eða því að fjárframlögin séu einfaldlega allt of lág? Það er ekki eðlilegt að þjóðarsjúkrahús komist að þolmörkum þegar hópslys verður eða faraldur geisar eins og núna. Eðli málsins samkvæmt er heilbrigðisþjónusta sveiflukennd og við verðum að hafa borð fyrir báru þegar koma upp stór áföll eins og Covid,“ segir Steinunn.

Gengið á góðmennsku starfsfólks

Álag á starfsfólk Landspítala er gríðar-legt eins og fólk getur ímyndað sér þegar rúmanýtingin er víða um og yfir 100%, segir Steinunn. „Við erum stöðugt á fundum þar sem þjarmað er að deildarstjórum að taka við fleiri sjúklingum því spítalinn er alltaf sprunginn. Í stað þess að bjóða fólki upp á eðlileg starfsskilyrði er tilhneiging til að ganga á góðmennsku og meðvirkni þess. Það er til að mynda erfitt að bregðast ekki við ákalli um að taka aukavaktir eða koma jafnvel inn úr sumarfríi þegar þú veist að félagar þínir í vinnunni eru að drukkna úr álagi. Þú gerir það fyrir sjúklingana og þína félaga. Á þetta treysta yfirvöld og þetta gengur ekki upp lengur,“ segir Steinunn.

Aðstæður sem þessar skapa hættu á að mistök verði gerð og Steinunn spyr hver beri ábyrgðina ef það gerist? Þetta hafi bráðalæknar bent á í ákalli sínu í vor sem enn hafi ekki verið svarað af hálfu heilbrigðisráðherra og stjórnenda Landspítala.

„Þetta er einnig hluti af ákalli eitt þúsund lækna – að réttarstaða okkar verði skýrð. Eins og staðan er núna virðist hægt að setja okkur í hvaða ómögulegu stöðu sem er og samt sem áður láta okkur bera ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis í þeim aðstæðum. Aðstæðum sem helgast af kerfislægum brestum en ekki skorti á fagmennsku einstakra starfsmanna.“

Að sögn Steinunnar hefur ekkert verið haft samband við lækna eftir að undirskriftarlista með nöfnum 985 lækna var skilað til ráðuneytisins. Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir, ræddi við Steinunni og fleiri lækna af því tilefni en síðan hefur ekki heyrst hljóð úr því horni. Á fundinum var meðal annars rætt um öldrunarmál, vandamál Landspítala, öryggismál heilbrigðisstarfsfólks og heilsugæsluna, sem og samskipti sérfræðinga og lækna sem starfa utan spítalans.

„Ég hef aldrei orðið vitni að slíkri samstöðu meðal lækna. Við erum sammála og í raun er þetta söguleg samstaða stéttarinnar sem sýnir vel hversu útbreidd reiðin og örmögnunin er orðin. Við stöndum á brauðfótum og það er vegna langvarandi vanrækslu sem ekki er hægt að kenna neinum einum um, en sannarlega tímabært að bregðast við,“ segir hún. Neyðaróp lækna hafa ómað lengi og samt gerist lítið, segir Steinunn. Aftur á móti ákvað Landspítalinn án samráðs við lækna að hætta að greiða þeim álag þegar vöktum er breytt með stuttum fyrirvara en þessi ákvörðun spítalans er nú fyrir Félagsdómi að beiðni Læknafélags Íslands.

Biðlistar lengjast og lengjast

Steinunn er yfirlæknir minnismóttökunnar, heilabilunarhluta öldrunardeildar Landspítala. Þar fer meðal annars fram greining á heilabilunar- og minnissjúkdómum og meðferð við þeim. Hluti greiningarinnar byggist á taugasálfræðimati sem er mikilvægur hluti af rannsókn á heilabilunareinkennum. Aðeins eitt stöðugildi taugasálfræðings er við minnismóttökuna og þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að bæta við hálfu stöðugildi vegna hratt vaxandi eftirspurnar hefur það ekki fengist vegna fjárskorts. Þetta veldur því að biðlistar eftir greiningu lengjast og lengjast og eins og staðan er í dag er næst hægt að komast að í mat taugasálfræðings í febrúar á næsta ári. „Vandi fólks eykst þegar það er látið bíða og bíða. Þetta er það sem læknar í framlínunni standa frammi fyrir. Læknum á öldrunarsviði hefur fækkað, meðal annars vegna stöðunnar á spítalanum, og við eigum erfitt með að sjá hvernig við eigum að reka deildirnar í haust. Þegar við leitum svara við því berast ekki önnur svör en þau að starfsemin verði óbreytt eftir sumarleyfi þrátt fyrir fyrirsjáanlegan læknaskort.“

Steinunn segir að í drögum að stefnu heilbrigðismála fyrir aldraða sé lögð áhersla á heilbrigða öldrun, sem hún er mjög sammála; að áherslan sé á að fólk geti verið sem lengst heima, við sem best lífsgæði. Engu að síður þarf aldrað fólk að leggjast inn á sjúkrahús. Aldraðir, miðað við fyrirliggjandi mannfjöldaspá, verða aðalnotendur sjúkrahússins í framtíðinni enda einn viðkvæmasti hópur þjóðfélagsins.

„Samt sem áður hafa enn ekki fengist skýr svör við því hvort gert sé ráð fyrir öldrunardeildum á nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut og heldur ekki hvort áfram eigi að reka slíkar deildir í úreltu húsnæði á borð við Vífilsstaði, sjúkrahúsi sem var byggt fyrir berklaveika snemma á síðustu öld, og á Landakoti.“

Aðstæður fyrir aldraða óviðunandi

Nýtt hjúkrunarheimili tók til starfa um svipað leyti og fyrsta kórónuveirubylgjan reið yfir og bjargaði það miklu með álag-ið á Landspítalanum. Síðan þá hefur ekkert hjúkrunarheimili tekið til starfa og útskriftarvandinn eðlilega ekki minnkað heldur aukist jafnt og þétt.

„Það eru ekki bara hjúkrunarrými sem okkur vantar heldur þarf að stór-efla heimaþjónustu og bjóða upp á fjölbreyttari úrræði hvað varðar endurhæfingu og búsetu aldraðra,“ segir Steinunn en eitt af því sem aldraðir hafa ekki aðgang að er þjónusta á vegum geðheilsuteyma heilsu-gæslunnar. Það síðastnefnda er skýrt dæmi um mismunun á grundvelli aldurs sem ekki ætti að viðgangast í íslensku samfélagi.

Hópsýking Covid-19 á Landakoti í október í fyrra er eitt alvarlegasta atvikið sem hefur komið upp í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Steinunn segir að það hafi ekki átt að koma neinum á óvart að illa gæti farið enda aðstæður sem öldruðum eru boðnar algjörlega óviðunandi.

„Húsnæðið er barn síns tíma og hefur viðhaldi þess verið illa sinnt þar til alveg nýlega. Eins er Landakot fjarri ýmissi annarri starfsemi spítalans, meðal annars rannsóknardeildum. Þarna dvelst einna viðkvæmasti sjúklingahópurinn sem ætti að búa við nýjustu og bestu aðstæður enda hætt við spítalasýkingum, byltum og óráðseinkennum. Legutími aldraðra er oftast lengri en annarra hópa og því mikilvægt að aðstæður séu góðar og vinni gegn frekari áföllum í legunni. Auk þess þarf að tryggja góða þjálfun og endurhæfingu frá upphafi innlagnar til að vinna gegn færnitapi sem annars er hætt við að eigi sér stað í tengslum við hin bráðu veikindi.“

Að sögn Steinunnar gera læknar kröfu um að heilbrigðismálin verði sett í forgang í næstu þingkosningum. Að innviðir heilbrigðiskerfisins verði styrktir og læknar fengnir inn í það samtal. Læknar upplifi sig oft á tíðum jaðarsetta þegar kemur að stefnumótun í heilbrigðismálum.

„Við sitjum uppi með þessi dags daglegu vandamál og vitum nákvæmlega hvar skórinn kreppir. Við viljum að við séum höfð með í ráðum og gefið leiðtogahlutverk innan þess kerfis. Ef starfsfólkið á gólfinu sem býr yfir þekkingunni og lausnunum talar of lengi fyrir daufum eyrum er hætt við því að neistinn hverfi, en það er því miður allt of algeng upplifun. Könnun sem gerð var meðal lækna á Landspítalanum sýnir að 40% þeirra upplifa kulnunareinkenni, en það er gríðarlega hátt hlutfall sem undirstrikar hve alvarleg staðan er.“

Að hennar sögn er eitt af vandamálunum sem þjóðin stendur frammi fyrir í heilbrigðismálum að hér sé aðeins einn stór spítali og ekki nóg gert til þess að sækjast eftir hæfasta fólkinu til starfa með því að bjóða því góð kjör og starfsskilyrði. Mikið álag og óviðunandi starfsskilyrði verði til þess að Landspítalinn standi frammi fyrir atgervisflótta, svo sem meðal bráða-, geð- og öldrunarlækna.

„Fólk reynir að finna sér aðra farvegi og sem betur fer eru þeir enn til staðar og mikilvægt að svo verði áfram. Að fákeppni ríki ekki um starfskrafta lækna á Íslandi. Það er mikilvægt að tryggja möguleika lækna til að starfa utan spítalans, bæði á öðrum opinberum stofnunum og sjálfstætt, og standa vörð um fjölbreytta og faglega þjónustu utan Landspítalans sem á aftur á móti að vera háskóla- og hátæknisjúkrahús í fremstu röð,“ segir Steinunn og hvetur stjórnvöld til að tryggja það til frambúðar að neyðarástand skapist ekki aftur og aftur á Landspítalanum líkt og gerst hefur ítrekað undanfarin ár.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica