7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Lipur penni. Á barmi lækningaleyfis. Sólveig Bjarnadóttir
Það er loksins komið að því, síðasta prófið í læknadeild. Bandarískt próf sem á að gefa mynd af því hvar við stöndum í alþjóðlegum samanburði. Við fáum mánuð í upplestrarfrí og lærdómurinn felst í því að fara í gegnum spurningabanka. Spurningabankinn er óvæginn og hefur einstakt lag á því að draga fram það sem ég kann ekki – miðar á veiku blettina og hittir beint í mark.
31 árs karlmaður kemur til þín á heilsugæslu með nokkurra vikna sögu um hita og hósta. Hann var á ferðalagi í Arizona þar sem hann dvaldi í skóglendi, fór í hellaskoðun og synti í ferskvatni. Maðurinn á páfagauk og þrjá ketti. Margir bólfélagar. Notar stundum vímuefni í æð.*
Gefin er gramslitun sem hjálpar lítið, ótrúlegt en satt. Svarmöguleikarnir samanstanda af 10 mismunandi örverum sem flestar hringja ekki neinum bjöllum, nema þá helst viðvörunarbjöllum! Prófið sjálft er svo 5 klukkustundir. Korterspása í miðjunni þar sem fólk þarf nánast að nærast og fara á salerni á sama tíma. Þrátt fyrir allt gengur íslenskum læknanemum yfirleitt vel í þessum alþjóðlega samanburði og þegar upp er staðið reynist spurningabankinn vera ágætis upprifjun.
Að prófi loknu er ekkert sem stendur í vegi fyrir útskrift. Það sem meira er, með reglugerðarbreytingu frá því í vor fá læknanemar við Háskóla Íslands í fyrsta sinn fullgilt lækningaleyfi við útskrift í stað tímabundins lækningaleyfis. Kandídatsárið er ekki lengur til og í staðinn kemur nýr sérnámsgrunnur sem er hluti af sérnámi. Þessi breyting stafar einkum af vanda almennra lækna sem hugðu á sérnám í Noregi og Svíþjóð. Vegna breytinga á regluverki í þessum löndum var stór hópur sem stóð frammi fyrir því að þurfa að endurtaka kandídatsár úti á þeim grunni að þau hefðu einungis verið með tímabundið lækningaleyfi á kandídatsári á Íslandi. Þannig var litið á íslenska kandídatsárið sem hluta af grunnnámi en ekki hluta af sérnámi. Með því að veita leyfið við útskrift fæst lausn á þessu máli og standa læknanemar við Háskóla Íslands þá jafnfætis læknanemum annarra ríkja við upphaf sérnáms.
Það er ýmislegt sem fylgir lækningaleyfinu, eins konar aukaverkanir af reglugerðarbreytingunni. Má þar nefna nýtt starfsheiti, aukna ábyrgð og nýjan launaflokk. Það er nefnilega skýrt í kjarasamningi lækna að launaflokkur 100 eigi við um „kandídat sem ekki hefur fengið lækningaleyfi” og launaflokkur 200-205 eigi við um „lækni með lækningaleyfi”. Launaflokkur 100 hlýtur þannig að falla út nú þegar það eru engir kandídatar. Það var þó einungis bjartsýnasta fólk sem átti von á að hærri launaflokkur kæmi í fyrstu atrennu. Sumar heilbrigðisstofnanir hófu að senda út ráðningarsamninga með launaflokki 100 en annars staðar ríkti þrúgandi þögn. Stofnanir hafa þó tekið að senda út ráðningarsamninga með réttum launaflokki og við fögnum því. Þau sem voru byrjuð á kandídatsári þegar reglugerðarbreytingin tók gildi hafa hins vegar ekki fengið leiðréttingu á sínum launaflokki þegar þetta er ritað og veldur það augljósri mismunun.
Á köflum virðist einmitt vera hægt að túlka kjarasamning lækna með frjálsri aðferð. Landspítali hefur til dæmis ákveðið að hætta að greiða umbun fyrir vaktir sem eru teknar með innan við sólarhringsfyrirvara. Þetta mun ganga yfir læknanema, almenna lækna og sérfræðinga. Mér skilst raunar að stjórnendur megi ráðstafa frítíma mínum, kalla mig á vakt fyrirvaralaust og án þess að greiða fyrir það launaauka - alltaf til þjónustu reiðubúin. Það var hvergi minnst á þetta í spurningabankanum.
Við stöndum á barmi lækningaleyfis og það er spennandi að sjá hvað gerist næst. Það eru líka óneitanlega blendnar tilfinningar að ljúka námi. Læknadeild hefur verið eins og eitt stórt hópefli í 6 ár, saman í gegnum súrt og sætt, hlátur og grát. Slíkt gefur af sér vináttu og samheldni sem eru vandfundin. Það hefur enda ríkt algjör samstaða meðal almennra lækna og læknanema um ofangreind kjaramál. Nýútskrifaðir læknar munu ekki skrifa undir ráðningarsamning með röngum launaflokki og við væntum þess að kjarasamningar verði ekki túlkaðir gegn okkur. Samstaðan er mikilvæg og hana skal síst vanmeta.
*Ekki er unnt að veita lesendum lausn á tilfelli þar sem undirrituð veit ekki enn svarið.