7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Svör heilbr.starfsmanna: Auka þarf vísindi, taka á reiði og stokka upp. Björn Rúnar Lúðvíksson

1. A) Rétta þarf af bágborna stöðu vísinda og kennslu sem hefur haldið áfram að veikjast á kjörtímabilinu. Fáir læknar eða aðrir sérfræðingar spítalans sjá sér orðið fært eða hag af því að stunda kennslu eða rannsóknir af krafti.

B) Tryggja þarf mönnun og stuðla að eðlilegri endurnýjun innan okkar raða til að taka á almennri þreytu og reiði meðal margra starfsmanna í nær öllum stéttum sem sjaldan eða aldrei hefur verið meiri. C) Gera þarf óháða úttekt á starfsemi spítalans svo tryggja megi öryggi sjúklinga sem nú er ógnað. D) Snúa þarf þeirri ákvörðun við að forstjóri svari aðeins til heilbrigðisráðherra, því slíkt er fáheyrt meðal vestrænna þjóða. Mikilvægi sjálfstæðrar stjórnar yfir Landspítala hefur sjaldan verið skýrari en nú.

2. A) Draga þarf fram í dagsljósið að íslenskt heilbrigðiskerfi er rekið með verulegri arðsemi ár hvert. Því er fráleitt að tala um hallarekstur heilbrigðisþjónustunnar. B) Enn skýrari verkaskiptingu þarf en nú finnst í uppfærðri heilbrigðisstefnu svo þekkt sé hvaða aðilar eru best til þess fallnir að viðhalda heilbrigði heillar þjóðar. Margir mismunandi aðilar og mismunandi rekstrarform þurfa að koma að borðinu. C) Auka þarf áherslu á heilbrigðisþjónustu langvinnra sjúkdóma og endurhugsa aðkomu heilbrigðiskerfisins að forvörnum, eftirliti og lyfjameðferð þeirra. D) Huga þarf að heildrænni nálgun til að tryggja áhyggjulaust ævikvöld því heilbrigðisþjónusta við aldraða hefur beðið skipbrot.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica