7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknanema í sumarafleysingum á bráðamóttökunni. Teitur Ari Theodórsson

7:50 Vakna og skutla konunni í vinnuna. Kem heim og hef það náðugt, reyni að leggja mig.

09:00 Fer á ról og skipulegg daginn. Vil reyna að koma ýmsu í verk áður en ég mæti á vakt á BMT (bráðamóttökuna)
kl. 15:00.

Myndina af Teiti tók Guðrún Karlsdóttir læknanemi á efri hæðinni á slysó.

09:20 Byrja daginn á ísköldum collab (varúð ef bráðaofnæmi fyrir fiski). Fer yfir efri meltingarvegsblæðingar á RCEMlearning (síða sem sérhæfir sig í námsefni fyrir bráðalækningar). Er að reyna að fara yfir eitt atriði á umræddri síðu á dag, sjáum til hversu lengi það endist. Hlusta á meðan á tónlist úr In the heights, söngleiknum sem ég sá í London um árið. En undirritaður á einmitt bíómiða á kvikmynd byggða á fyrrnefndum söngleik. Um að gera að skella sér áður en næsta afbrigði veirunnar lítur dagsins ljós.

11:00 Kíki aðeins á handritið fyrir næsta þátt af Dagáli læknanemans sem stendur til að taka upp á eftir. Fer því næst í ræktina. Ótrúlegt en satt er chest (brjóstvöðvar) í dag. Kippi með mér maikai-skál úr ræktinni til þess að borða í kvöld á vaktinni.

12.30 Mættur í höfuðvígið, Skaftahlíðina, með kollegum; Sólveigu Bjarnadóttur og Magnúsi Karli Magnússyni, sérfræðingi í blóðlækningum. Tökum upp þátt af Dagáli læknanemans. Að þessu sinni fjallar þátturinn um klínískar lyfjatilraunir og er ferill COVID-bóluefna rakinn frá tilraunastofunni að upphandleggjum landsmanna. Þátturinn kemur vel út.

14:00 Stekk heim í sturtu og beint á vakt.

15:00 Vaktin hefst. Í dag eins og aðra daga stefnir í annríkan dag á bráðamóttökunni. Verð á B-svæði í dag þar sem minna veikir sjúklingar lenda. Fæ rapport um nokkra sjúklinga sem ég erfi frá morgunvaktinni. Svo hefjast hlaupin.

18:00 Vaktin heldur áfram. Búinn að hitta þó nokkuð marga sjúklinga, misveika. Hef fyrstu uppvinnslu. Ber þá svo undir ábyrgan sérfræðing sem býr til plan. Heyri í öðrum sérgreinum. Fæ konsúlt, melda suma til innlagnar, aðrir fá að fara heim. Eitt það skemmtilegasta við starfið eru samskiptin við aðrar sérgreinar. Læri alltaf eitthvað nýtt.

19:30 Orðinn glorhungraður. Fer inn á kaffistofu og borða maikai-skálina sem ég er búinn að hlakka til að gæða mér á. Lít út, hmm sól úti? Var sól þegar ég mætti í vinnuna? Gríp með mér banana og gæði mér á einum Sæmundi í sparifötum áður en ég fer aftur á barinn (B-svæðið á BMT).

19:45 Þrátt fyrir að allir séu búnir að hlaupa alla vaktina, sér ekki á skjáborðinu. Sjúklingar greinilega jafnvel duglegri að mæta en við að koma þeim í farveg. Reyni að klára eitthvað af nótunum og hitti svo næsta sjúkling.

22:00 Næturvaktin mætir á svæðið. Alltaf kærkomið. Margir að bíða og hafa beðið í fleiri klukkutíma eftir mati.

23:00 Sé fram á að allir mínir sjúklingar komist heim. Góð tilfinning þegar náðst hefur að leysa vandamál og áhyggjur sjúklinga án innlagnar. Eins og aðra daga hafa mörg spennandi tilfelli endað á BMT. Hugsa um hvað ég hef lært mikið í dag. Finnst eins og ég hafi byrjað í læknadeild í gær. Svo eru það núna bekkjarfélagar sem svara konsúltsímunum. Tíminn líður. Fer niður í sérfræðingaherbergið og klára nótur. Bý mig undir heimför.

00:30 Kem heim, upptjúnaður eftir vaktina. Fer í gegnum allar tilkynningarnar í símanum sem hafa hlaðist upp og hlusta á tónlist til þess að ná mér niður. Set svo þátt af The Office í gang í tölvunni, Michael Scott enn einu sinni kominn í vandræði, og held á vit ævintýranna í draumalandinu.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica