7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Rannsókn á skimun fyrir krabbameinum í brjóstum kvenna 40-49 ára

Skimunaraldur kvenna sem fá boð í skimun fyrir krabbameinum í brjóstum hefur verið til umræðu nú þegar skimunin hefur flust frá Krabbameinsfélaginu til Landspítala. Ísland og Svíþjóð eru einu Norðurlöndin sem skima konur á aldrinum 40-49 ára, en hin löndin hefja leit þegar konur eru 50 ára.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna og greinist um ein af hverjum 9 íslenskum konum með brjóstakrabbamein á lífsleiðinni. Á aldursbilinu 40-49 ára greinast 30 konur með brjóstakrabbamein árlega á Íslandi.

Horfur 40-49 ára kvenna eru heldur verri en horfur 50-69 ára og því einkar mikilvægt að greina meinin snemma.

Erfiðara er að greina mein hjá konum undir fimmtugu með hefðbundinni brjóstamyndatöku því brjóstaþéttni þeirra er meiri en hjá konum yfir fimmtugt. Þátttaka yngri aldurshópsins hefur einnig verið nokkuð lægri en eldri hópsins. Þessir þættir valda því að hlutfall brjóstakrabbameina sem greinast við skimun er lægra hjá aldurshópnum 40-49 ára en hjá þeim eldri. En á Íslandi greinast um 30% brjóstakrabbameina á aldrinum 40-49 ára í skimun, borið saman við um 50% meina í aldurshópnum 50-69 ára.

Nýleg rannsókn frá Bretlandi sýndi fram á lækkun á dánartíðni hjá 40-49 ára konum sem mættu í skimun.1 Mein sem greinast við skimun eru minni en þau sem greinast klínískt og hafa síður dreift sér í eitla eða önnur líffæri, sem aftur minnkar meðferðarinngrip og eykur lífslíkur.2

Mikilvægt er að taka inn í myndina neikvæð áhrif þess að skima konur á aldrinum 40-49 ára fyrir brjóstakrabbameini og eru þar ofgreiningar stærsta áhyggjuefnið. Um ofgreiningu er að ræða ef ákveðið hlutfall krabbameina sem greinast á lágum stigum hefði aldrei náð að þróast yfir í að valda einkennum eða dauða.3 Enn er óljóst hve mikið er um ofgreiningar þegar skimað er fyrir brjóstakrabbameini og ekki þekkt hvort hlutfallið sé misjafnt eftir aldri.

Annað áhyggjuefni eru svokallaðar falskt jákvæðar niðurstöður, það er röntgenmynd sem bendir til að um æxli geti verið að ræða og konan er endurinnkölluð, en við nánari athugun reynist allt vera í lagi. Neikvæð áhrif felast hér í tímabundnum auknum kvíða sem yfirleitt gengur þó yfir á nokkrum vikum.4

Í október 2020 birti fagráð um brjóstaskimanir það álit sitt að Ísland skyldi fylgja ráðleggingum Evrópusambandsins og færa neðri aldursmörk skimunar upp í 45 ár, auk þess sem hafin yrði skimun fyrir aldurshópinn 70-74 ára.5 Skimunarráð ályktaði þó í framhaldinu að taka fremur mið af fyrra áliti Embættis landlæknis (frá árinu 2016) um að neðri mörk aldurs skyldu miðuð við 50 ár (bls. 12 álit Skimunarráðs).5 Heilbrigðisráðherra kom svo með þau fyrirmæli um áramótin 2020-2021 að hækka ætti neðri aldursmörk á brjóstakrabbameinsskimun í 50 ár og byggði á áliti Skimunarráðs.

Samfélagið reyndist ekki vera fyllilega undirbúið fyrir þessa ákvörðunartöku og mótmæltu henni einstaklingar og félagasamtök og var ákvörðunin dregin til baka um miðjan janúar 2021 og er nú skimað fyrir brjóstakrabbameinum hjá konum á aldrinum 40-74 ára á Íslandi.

Í framtíðinni verður í auknum mæli lögð áhersla á einstaklingsbundið áhættumat og að aldursmörk og tíðni skimana verði sniðin að áhættuþáttum hvers einstaklings. Fram að því er þó mikilvægt að geta svarað þeirri spurningu hvort rétt sé að hækka neðra aldursbil brjóstakrabbameinsskimunar í 45 ár eins og fagráð og Evrópuleiðbeiningar segja til um, eða í 50 ár eins og Skimunarráð og ráðherra mæltu fyrir um, eða halda óbreyttum neðri aldursmörkum áfram við 40 ár.

Rannsókna- og skráningasetur Krabbameinsfélagsins fékk nýlega styrk frá vísindasjóði Krabbameinsfélagsins til að nýta fyrirliggjandi gögn um brjóstakrabbamein á Íslandi árin 1988-2020 til að gera samanburð á gæðum skimunar, klínískum forspárþáttum og horfum, milli kvenna á aldrinum 40-49 ára og 50-69 ára. Meðal annars verður skoðað hlutfall falskt jákvæðra niðurstaðna og hlutfall millimeina í þessum aldurshópum. Að verkefninu koma, auk starfsfólks Rannsókna- og skráningarseturs, starfsmenn brjóstakrabbameinsleitar og brjóstamiðstöðvar Landspítala.

Það er von okkar að niðurstöður verk-efnisins geti meðal annars hjálpað heilbrigðisyfirvöldum að ákvarða, út frá reynslu Íslendinga, neðri aldursmörk skimana fyrir brjóstakrabbameinum á Íslandi í framtíðinni.

Heimildir


1. Duffy SW, Vulkan D, Cuckle H, et al. Effect of mammographic screening from age 40 years on breast cancer mortality (UK Age trial): final results of a randomised, controlled trial. Lancet Oncol 2020; 21: 1165-72.
https://doi.org/10.1016/S1470-2045(20)30398-3

2. Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins; gæðaskráning: krabb.is/krabbameinsskra/upplysingar- um-krabbamein/krabbamein-a-o/brjost/ - júní 2021.

3. Welch HG , Black WC. Overdiagnosis in Cancer. J Natl Cancer I 2010; 102: 605-13.
https://doi.org/10.1093/jnci/djq099
PMid:20413742

4. Bredal IS, Kareson R, Skaane P, et al. Recall mammo-graphy and psychological distress. Eur J Cancer 2013; 49: 805-11.
https://doi.org/10.1016/j.ejca.2012.09.001
PMid:23021930

5. Embætti_landlæknis. Álit skimunarráðs á skimun fyrir krabbameini í brjóstum, leghálsi, ristli og endaþarmi: stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Alit skimunarrads 2020 (003).pdf 2020: 27-33.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica