7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
„Ég hef þungar áhyggjur af stöðunni“ rætt við Ólaf Baldursson
Mannekla, ófjármögnuð vísindi og ábyrgð mistaka á herðum starfsfólks eru helstu mál á borði Ólafs Baldurssonar sem hefur verið endurráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala. Æviráðinn í þetta sinn
„Ég hef þungar áhyggjur af stöðunni,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, um að lögum hafi ekki verið breytt þannig að mistök heilbrigðisstarfsfólks yrðu ekki refsiverð. Honum þykir slæmt að ekki hafi verið unnið eftir þeim tillögum sem starfshópur, sem hann sat í, lagði til í skýrslu um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu í september 2015.
Læknablaðið · Ólafur Baldursson - viðtal í júlí 2021
Ólafur Baldursson hefur verið ráðinn í framkvæmdastjórn Landspítala allt til ársins 2034. Mynd/gag
„Við höfum ítrekað minnt á skýrsluna án árangurs. Þetta eru auðvitað vonbrigði en eitthvað sem við ráðum ekki yfir,“ segir hann.
Félög lækna hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna manneklu á Landspítala í sumar. Félag bráðalækna vísaði nú í maí allri ábyrgð á forstjóra Landspítala, ráðherra og Alþingi ef til alvarlegra atvika kæmi á bráðamóttökunni vegna óboðlegra og óviðunandi aðstæðna sem félagið sagði að stefndi í í sumar.
Ólafur segir afar mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn geti, rétt eins og fagfólk í flugi, sagt satt og rétt frá, komi upp atvik. „Við tókum þá ákvörðun hér að við vildum vera í forystu í heilbrigðiskerfinu við að opna umræðuna um allt sem kemur fyrir. Við höfum notað þá aðferðafræði í um 50 rótargreiningum.“ Lagaumhverfið sé hins vegar ekki í takti við nútímann sem kalli á kvíða og áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks af að standa vaktina.
„Við glímum við þennan misþroska en við getum ekki haldið áfram í gömlu hugmyndafræðinni þar sem atvikum var sópað undir teppið.“ Hún gefi ekki færi á að læra af mistökum. „Mjög mikilvægt er að læknar og aðrar heilbrigðisstéttir hjálpist að í þessu máli, því þetta snýr að okkur öllum.“
Ólafur, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra lækninga frá 2009, hefur nú verið ráðinn allt til ársins 2034. „Ef guð lofar verð ég sjötugur á því ári.“ Ólafur segir að fjarheilbrigðisþjónusta, lagaumhverfið og efling sérnáms á spítalanum sé efst á baugi, enda taki það á manneklunni. Stórefla þurfi vísindastarf og nýsköpun og tengsl við sprotafyrirtæki. Hann er hugsi yfir stöðu vísinda á spítalanum og segir að eyrnamerkja þyrfti sérstaklega fjármagn til þeirra. „Vinna á markvisst með háskólum til að nýta fjármagnið sem best.“
Ólafur sinnir enn göngudeildarþjónustu og tekur stöku vaktir, en sjálfur er hann lyf- og lungnalæknir. „Ég hef áhyggjur af þessari stöðu og skil vel að læknar og fólk almennt hafi það einnig,“ segir hann. „Nýráðinn yfirlæknir bráðamóttökunnar hefur tjáð okkur að mönnunin batni í haust.“ En ber hann sjálfur ábyrgð á stöðunni?
„Mér finnst ég alltaf bera vissa ábyrgð á frammistöðu spítalans en auðvitað er það þannig að ábyrgð á 6000 manna vinnustað er eðli málsins samkvæmt dreifð. Að auki hlýtur ábyrgð stjórnsýslunnar á svo stórum vinnustað að vera umtalsverð.“
Vill bjóða út vaktir á spítalanum
„Óumflýjanlegt er að tryggja fjölbreytilegri rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni vegna fólksfjölgunar á Íslandi. Kröfurnar eru það miklar og stakkurinn þröngur frá ríkinu,“ segir Ólafur.
„Hugsa þarf möguleikann á að bjóða hluta starfseminnar út, jafnvel að bjóða einstaka tegundir af vöktum út og huga að fjölbreyttara rekstrarformi í kerfinu í heild“ segir hann og horfir til fjarheilbrigðisþjónustu. Hún muni hafa hvað mest áhrif á störf lækna næstu 5-10 árin.
„Margir halda að fjarheilbrigðisþjónusta fækki læknum, en það veit enginn. Ég tel að mörgum sjáist yfir það að þegar samskiptamöguleikum sjúklinga við teymi heilbrigðisþjónustunnar fjölgar, aukast samskiptin. Úrvinnslan, sem þarf að vera vönduð, verður meiri,“ segir Ólafur. „Ég vona að Læknafélag Íslands sé með augun á þessu því þetta mun hafa mikil áhrif á störf lækna.“