6. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Vísindi eru okkar áhugamál, segja Gunnar og Elías
Lyfjarannsóknir hafa horfið úr íslenskri vísindavinnu. Æ meira þrengir að læknum að stunda vísindi og umhverfið ólíkt því sem áður var. Þetta segir Gunnar Guðmundsson heiðursvísindamaður Landspítala 2021. Læknablaðið hitti þá Gunnar og Elías S. Eyþórsson, sem valinn var ungur vísindamaður Landspítala 2021, og ræddi sameiginlega áhugamálið: vísindi
„Takk, takk fyrir það,“ segja þeir Elías S. Eyþórsson og Gunnar Guðmundsson sem voru nú á vordögum valdir vísindamenn Landspítala 2021. Gunnar heiðursvísindamaður fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferlinum og Elías ungur vísindamaður Landspítala 2021 fyrir athyglisverðan og góðan árangur á sviði vísindarannsókna.
Gunnar Guðmundsson og Elías S. Eyþórsson eru útvaldir vísindamenn Landspítala 2021. Þeir ræddu vísindin og framtíðina við Læknablaðið. Mynd/gag
Gunnar er sérfræðingur í lungnalækningum við lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala. Elías hefur nú að loknum þremur árum í sérnámi í lyflækningum svissað yfir í gjörgæslu- og svæfingalækningar. „Þetta er allt í vinnslu,“ segir Elías. „Ég er enn að velja á milli þessara tveggja framtíða.“
Við hittumst á góðum stað í turninum á Landspítala í Fossvogi. Þeir eru afslappaðir í vorsólinni á föstudegi. Svo mjög að Elías mætir í stuttbuxum – og úlpu. Gunnar á vaktinni og því í sloppnum. Blaðamaður þyngir andrúmsloftið fljótt og ræðir orð Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans, í vikulegum pistli hans frá apríllokum þar sem hann viðrar „áhyggjur af vísindastarfi í lífvísindum á Íslandi almennt og á Landspítala sérstaklega.“ Hann sagði þar eðlilegt að verja 3% af rekstrarfé til vísinda en ekki væri hægt að skera niður þjónustu við sjúklinga til að mæta því.
Vinnuálagið aukist mjög
„Það er alveg rétt að á þessu 21 ári sem ég hef verið hér á Landspítala hefur allt vinnuálag orðið miklu, miklu meira,“ segir Gunnar. „Það hefur gefist lítill tími til að setjast niður og vinna að öðru en að hlaupa í kringum sjúklinga. Þeir sem stunda vísindi eru þeir sem ráða vinnutímanum sínum að einhverju leyti sjálfir. Það er erfitt að láta vísindin ganga heim og saman við venjulegt starf,“ segir Gunnar og bendir á fleiri breytingar.
„Lyfjarannsóknir hafa horfið úr íslenskum vísindum. Það gerðist fyrir um tíu árum. Þá leituðu erlend lyfjafyrirtæki mjög til Íslands því hér týndist fólk aldrei, boðleiðir stuttar og vönduð vinnubrögð. Klínískir læknar komu þar að og unnu með sjúklingum en annað var unnið af lyfjafyrirtækjunum,“ segir Gunnar. „Ég sakna þessa mjög. Þetta var gott fyrir alla og mjög góður skóli.“
Hann bendir á að vísindin þurfi nú að vera áhugamál vilji klínískir læknar stunda þau. „Ég hef því aldrei komið á golfvöll nema á sk´íðum til að stytta mér leið og ég hef ekki hug á að fara í golf á næstunni.“
En á vísindastarfið að taka golfiðkunina af læknum? „Þannig er það ekki erlendis. Þar er reiknað með að læknar stundi vísindi. Ofmannað er á háskólasjúkrahúsum til að heilbrigðisstarfsfólk geti stundað vísindi. Þar er hægt að kaupa sér frí frá vinnu með því að fá stóra styrki til vísindastarfa. Þeir borga þá launin,“ segir hann og bendir á að þeir sem hafi verið heiðursvísindamenn hjá Landspítala séu undantekningarlítið yfirlæknar.
„Þeir geta ráðið sínum tíma sjálfir og eru ekki fastir í vinnuskyldu sem þeir verða að uppfylla.“ Vísindin þarfnist skipulagningar. Eitthvað þurfi að sitja á hakanum. Fjölskyldan? „Nei það myndi ég ekki segja,“ svarar hann örugglega.
Fjórar vikur nægja ekki
En eru vísindin aðlaðandi miðað við þessar breytingar sem orðið hafa? „Sko,“ svarar Elías sem vart þekkir annað en þessa nýju tíma sem Gunnar lýsir. „Þótt sérnámið í lyflækningum sé mjög gott að því leytinu til að þar eru fjórar til sex vikur innbyggðar til vísindarannsókna, þá er það kannski minna en þarf til þess að stunda vísindi sem leggja þarf tíma og metnað í. Vísindastarf tekur lengri tíma en fjórar vikur.“
Elías segir að hann ímyndi sér að allsstaðar þurfi læknar hins vegar að hafa metnað til að gefa hluta frítíma síns í vísindi. „Þau eru ekki eins og önnur störf þar sem maður stimplar sig inn og út. Eðli þeirra er ekki þannig.“ Álagið af þeim komi í holskeflum.
„En fyrir mína parta get ég tekið undir með Gunnari að þetta er að mörgu leyti áhugamál mitt. Ég myndi ekki segja að það skarist við fjölskyldutímann minn, heldur er þetta það sem ég geri og hef gaman af. Ég er heldur ekki í golfi,“ segir hann og hlær en bætir svo við með alvarlegri tóni.
„Ég á bágt með að sjá að framförum í læknavísindum verði eingöngu náð af áhuga manna í frítíma.“ Elías bendir á að vísindum fylgi mikill rekstur. Þau kalli á starfsfólk, styrki, kostnað. Fáar rannsóknir séu stórar í dag.
„Það hafa ekki sést margar slembirannsóknir, inngripsrannsóknir, hér á Íslandi að mér vitandi, önnur en hin stóra og flotta Blóðskimun til bjargar.“
Mikilvægt að taka þátt
Gunnar segir að hægt sé að stunda vísindi á margan hátt. „Ef ritaskráin mín er skoðuð hef ég náð mestum árangri með því að vinna með vísindahópum. Ég er ekki alltaf sá sem dregur vagninn heldur er hluti keðju í stórum rannsóknarhópum. Þar er hver hlekkur mikilvægur og ég hef verið einn af þeim.“
Hann hafi ekki sóst eftir stórum styrkjum í gegnum tíðina því hann þurfi að ráða yfir miklum tíma fyrir slíkt, sem hann ekki hafi. „Ég hef litið á mig sem klínískan lækni og vísindamann. Mikil umræða hefur farið fram bæði hér og erlendis um að það sé orðið æ erfiðara að vera í þeirri stöðu, því klíníkin krefst orðið meiri tíma. Það er því meira um að fólk sé eingöngu í rannsóknum og sinni lítið sjúklingum,“ lýsir hann.
„Með þessari þróun vita læknar síður hvaða spurningar eru mest spennandi,“ segir hann. Mikilvægt sé því að glata ekki vísindunum úr klíníkinni. Hann bendir á að víða erlendis séu læknar 20% með sjúklingum en 80% við rannsóknir.
„Hérna er þetta oft öfugt eða jafnvel enn lægra hlutfall sem fer í rannsóknir. En það getur verið allt í lagi ef maður er í samstarfi eins og ég, þar sem maður er einn hlekkur í stórri keðju.“
En mun Elías halda í vísindin í starfi sínu? „Já, ég held það. Ég tel að hér séu mikil tækifæri. Hér á Landspítala höfum við heila deild sem hefur hannað mjög öflugt rafrænt kerfi sem er töluvert gott út af nálægð forritara og starfsfólksins,“ segir hann og vísar til heilbrigðis- og upplýsingatæknisviðs Landspítala og hvernig nálægðin og afraksturinn hafi verið nýttur við uppsetningu COVID- göngudeildar.
„Ég sé fyrir mér þann möguleika að hægt sé að byggja inn í sjúkrarskrárkerfið tól sem auðvelda vísindamönnum að gera slembiraðaðar inngripsrannsóknir, sem eru að mörgu leyti ákveðinn gullstandard í læknavísindum,“ segir hann. „Það væri spennandi að taka þátt í að byggja það upp á næstu 10 árum. Þar finnst mér framtíðin vera,“ segir hann.
Ávinningur af samvinnu
En hverju er svo heiðursvísindamaðurinn stoltastur af? „Þetta hefur allt verið jafn skemmtilegt. Maður hefur kynnst mörgu góðu fólki,“ segir hann.
„Öll þessi samvinna og hafa verið heppinn og unnið með virtum vísindahópum.“ Svo mjög hefur hann gaman að ráðstefnum að hann hefur skipulegt eina með Gísla Jenkins, hálfíslenskum lungnalækni í Bretlandi. Eftir að hafa verið tvífrestað hillir undir að hún verði haustið 2022. „Þá hittast 300 manns sem hafa áhuga á lungnatrefjun og fara yfir hana.“
Vísindi Elíasar leita einnig til Bretlandseyja en grein sem hann leiddi byggð á gögnum COVID-deildarinnar birtist í British Medical Journal. „Við gátum gert þetta því við erum hér í einstakri stöðu að vera með hönnun sjúkraskrárkerfisins innan veggja spítalans. Boðleiðir eru því stuttar,“ segir hann.
„Þetta opnaði augun fyrir því að fjármagnið sem fæst til vísindanna getur einnig nýst til þess að byggja upp innviði og leysa verkferla innan spítalans til að svara rannsóknarspurningum og gagnast þjónustunni og þekkingunni.“
Gunnar er af miklum læknaættum. Faðir hans, Guðmundur Björnsson, fyrsti prófessor í augnsjúkdómafræði við Háskóla Íslands. Bróðir hans Björn heimilislæknir. Elías er ekki af miklum læknaættum en þó skyldur Jóni Eyjólfi Jónssonar öldrunarlæknis. Hann líti á frænda sinn sem fyrirmynd þótt hann hafi ekki valið að verða læknir vegna hans.
„Ég hef oft hugsað að ég ætti að skálda upp góða sögu um af hverju ég kaus að fara í læknisfræði. Það einfaldlega gerðist,“ segir hann um leið og hurðin á leynistaðnum í turninum á Landspítala í Fossvogi opnast. Gunnar er kallaður til verka á vaktinni. Elías lítur á símann sinn sem víbrar. Verkefnin þar á bæ eru einnig aðkallandi. „Nei, nú bíða börnin ekki lengur á leikskólanum. Ég verð að sækja þau.“