6. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Alþingiskosningar 2021. 3. spurning: Stjórnmálaflokkarnir samstiga í sóttvörnum
Vinstri græn munu að sjálfsögðu halda áfram á sömu braut í sóttvörnum, segir í svari stjórnmálaflokksins við spurningu Læknablaðsins um sóttvarnarstefnu flokkanna eftir Alþingiskosningarnar í september. Píratar segja einnig að engar breytingar myndu verða ef þeir væru við stjórnvölinn. En Flokkur fólksins vill meira samráð við löggjafann.
Ljóst er að flokkarnir eru samstiga. Þeir vilja fylgja ráðum fagfólks en Alþingi beri þó ábyrgð á reglum og framkvæmd. Viðreisn segir þetta samspil hafa reynst vel til þessa í baráttunni við COVID-19. Sjálfstæðisflokkurinn segir mikilvægt að ekki sé gengið lengra í að setja daglegu lífi fólks skorður en brýna nauðsyn ber til.
Samfylkingin segir að aðkoma Alþingis ætti þó að vera meiri þegar kemur að meiriháttar hömlum á daglegu lífi almennings. Framsóknarflokkurinn bendir á að tryggja verði eins vel og unnt er heilsu fólks ásamt samspili milli heilsu og efnahags þjóðarinnar. Miðflokkurinn segir mikilvægt að skoða vel alla kosti þegar kemur að öflun bóluefna og hafa þar samskipti við sem flestar þjóðir.
3. SPURNING
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda í COVID-19 hafa verið leidd af fagfólki í heilbrigðismálum. Ekki er fyrirsjáanlegt að farsóttin hverfi úr alþjóðasamfélaginu í bráð. Telur flokkur þinn rétt að sóttvarnalæknir leiði næstu aðgerðir eða á að breyta áherslunum? Hvert á hlutverk löggjafarvaldsins að vera?
Flokkur fólksins: Fagfólkið veiti ráð og framkvæmdavaldið beri ábyrgð
Við teljum rétt að við reiðum okkur á ráð fagfólks, þar með talið sóttvarnalæknis, þegar kemur að aðgerðum gegn COVID-19. Ákvarðanataka og ábyrgð hlýtur þó ávallt að hvíla á framkvæmdavaldinu, það er ríkisstjórn og ráðherrum hennar. Við myndum vilja sjá meira samráð við löggjafann, það er Alþingi, en verið hefur í þessum efnum. Hlutverk löggjafans er að koma með tillögur og veita stjórnvöldum aðhald, m.a. með umræðum. Við teljum að öll umræða um þessi mál sé af hinu góða. Baráttan gegn COVID-19 er samfélagslegt verkefni. Flokkur fólksins hefur frá upphafi stutt strangar aðgerðir í þeirri vinnu svo halda mætti smiti innanlands í algeru lágmarki og helst útrýma því.
Framsókn: Meta aðgerðir, fara að lögum og tryggja efnahag
Hlutverk löggjafans er að meta þær aðgerðir sem sóttvarnalæknir leggur til og meta hvaða áhrif þær hafa. Tryggja verður eins vel og unnt er heilsu fólks ásamt samspili milli heilsu og efnahags þjóðarinnar. Hlutverk löggjafans er einnig að bregðast við tillögum sóttvarnalæknis ef breyta þarf reglugerðum, lögum eða öðru slíku svo aðgerðir hans nái fram að ganga og
standist lög.
Miðflokkurinn: Fylgja leiðsögn sérfræðinga og lögum
Stjórnvöld hafa eftirlátið sérfræðingum að stýra sóttvörnum, sem hefur gefið góða raun og er ástæða til að fylgja áfram þeirri stefnu að fylgja leiðsögn þeirra sem hafa náð árangri á sviði sóttvarna hér á Íslandi. Heimildir sóttvarnalæknis eru ríkulegar og því mikilvægt að ávallt sé stuðst við lög og Alþingi haft með í ráðum þegar verið er að leggja álögur og einangrun á borgara landsins. Þá er mikilvægt að skoða vel alla kosti þegar kemur að öflun bóluefna sem krefst yfirsýnar og skilnings í alþjóðlegum viðskiptum. Þar er nauðsynlegt að hafa samskipti við sem flestar þjóðir til að tryggja að hagsmunir Íslendinga séu alltaf í heiðri hafðir.
Píratar: Engar breytingar á núverandi stefnu
Íslendingar hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að aðgerðum gegn COVID-19 hefur verið stýrt af sérfræðingum í sóttvörnum. Landlæknir og sóttvarnalæknir hafa staðið sig gríðarlega vel í baráttunni við útbreiðslu COVID-19. Engar breytingar myndu verða þar á ef Píratar væru við stjórnvölinn. Þess ber þó að geta að sóttvarnalæknir er hvorki sérfræðingur í lögfræði, mannréttindum né lagasetningu. Þar tekur löggjafinn og framkvæmdavaldið við taumunum. Það er þeirra hlutverk að tryggja að framkvæmdin á tillögum sóttvarnalæknis sé í samræmi við alþjóðasamninga, gangi ekki lengra en þörf krefur til að ná markmiðinu og standist lög og stjórnarskrá. Píratar hafa tekið það hlutverk alvarlega og lagt áherslu á að sóttvarnir standist rýni dómstóla, þannig vöruðu Píratar réttilega við því að upprunaleg útfærsla sóttkvíar-hótelanna væri ólögleg. Aðhald flokksins hefur þannig lotið að lögmæti og ferli lagasetningar, frekar en að réttmæti þeirra tillagna sem sóttvarnalæknir setur fram.
Samfylkingin: Fylgja áfram tilmælum og auka aðkomu Alþingis
Samfylkingin hefur verið fylgjandi því að ráðum fagaðila sé fylgt þegar kemur að sóttvörnum og telur því rétt að fylgja áfram tilmælum sóttvarnalæknis, enda hefur það gefist vel þegar slíkt hefur verið gert. Aðkoma Alþingis ætti þó að vera meiri þegar kemur að meiriháttar hömlum á daglegu lífi almennings, rétt eins og þekkist víða í ríkjum heims. Fyrirkomulagið ætti því að vera á þann hátt að sóttvarnalæknir skili af sér tillögum líkt og verið hefur og heilbrigðisráðherra leggi til reglugerð en þegar um verulega íþyngjandi aðgerðir er að ræða, líkt og lokun starfsemi, ferða- og athafnafrelsi, verði ráðherra að leggja fram þingmál til staðfestingar á ákvörðun sinni innan viku frá gildistöku reglugerðar. Slíkt fyrirkomulag eykur öryggi almennings. Þá þarf á öllum tímum faraldurs að tryggja að full lagaheimild sé fyrir þeim aðgerðum sem gripið er til svo stjórnvöld séu ekki gerð afturreka með mikilvægar ráðstafanir líkt og var raunin með skyldudvöl í sóttvarnarhúsi í vor.
Sjálfstæðisflokkurinn: Ekki sé gengið lengra í að setja daglegu lífi skorður
Vel hefur gengið að kljást við heimsfaraldurinn hér á landi undanfarna mánuði, á sama tíma og lífskjör Íslendinga og grunnstoðir samfélagsins eru varðar. Stjórnvöld hafa notið dýrmætrar ráðgjafar sóttvarnalæknis og annarra fagaðila þegar kemur að ákvörðunum í sóttvarnamálum.
Með auknum bólusetningum snúast næstu skref um að hverfa loks aftur til eðlilegs lífs. Mikilvægt er að ekki sé gengið lengra í að setja daglegu lífi fólks skorður en brýna nauðsyn ber til. Slíkar skorður með lögum eða reglugerðum verða svo eðli málsins samkvæmt ekki settar af öðrum en lýðræðislega kjörnum fulltrúum.
Hins vegar er að sjálfsögðu gott og mikilvægt að stjórnvöld njóti áfram ráðgjafar sóttvarnalæknis og annarra fagaðila eins og þörf er á við töku ákvarðana á þessu sviði.
Vinstri græn: Byggja á vísindum og halda áfram á sömu braut
Forystufólk Vinstri grænna hefur lagt ríka áherslu á að byggja allar ákvarðanir sínar í faraldrinum á vísindum og þekkingu og mun að sjálfsögðu halda áfram á sömu braut. Markmið stjórnvalda hafa verið skýr, að vernda líf og heilsu landsmanna ásamt því að lágmarka samfélagslegan og efnahagslegan skaða faraldursins. Löggjafarvaldið hefur tryggt nauðsynleg úrræði í löggjöf til að unnt sé að ná þessum markmiðum, sem og fjármagn til að fylgja eftir þeim aðgerðum sem þarf á hverjum tíma.
Það hefur reynst okkur vel að fara að ráðleggingum fagfólks í heilbrigðismálum í baráttunni gegn heimsfaraldri kórónuveirunnar. Samstarf heilbrigðisyfirvalda, framkvæmdavalds og löggjafarvalds skiptir miklu máli en ekki síður að almenningur sé vel upplýstur um ákvarðanir og áherslur varðandi sóttvarnir.