6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Stríðsþreyta. Salóme Arnardóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Við erum í stríði er orðfæri sem hefur verið notað mikið á því rúma ári sem liðið er síðan ósýnilegur óvinur kvaddi dyra. Stríði fylgir stríðsþreyta. Í bók sinni Undir fána lýðveldisins segir Hallgrímur Hallgrímsson frá því þegar hann fór árið 1938 af hugsjónaástæðum til að berjast fyrir lýðræði og jafnrétti í borgarastríðinu á Spáni. Þar lýsir hann því hvernig stríðsþreyta, og það sem hann kallar demóralísering, gat farið með hermenn lýðveldissinna, stríðsþreyta sem versnaði mikið þegar ákvarðanir úr efstu lögum valdastigans í Evrópu takmörkuðu möguleika lýðveldishersins:

„Þeir sem utan við standa gera sér tæplega í hugarlund hvað stríðsþreyta er. Það er ekki venjulegur lúi vegna of mikillar vöðvaáreynslu eða ellihrörnunar. Hún er annað og verra. Stríðsþreytan er „andlegs“ eðlis. Hún er ástand þess sem orðinn er óstyrkur, önuglyndur, kvíðinn og vondapur sökum þess að allt taugakerfi hans er komið í megnasta ólag af völdum langdvalar á vígstöðvum. Enginn sem þar dvelur lengi kemur jafngóður heim aftur, þó að viðnámsþrótturinn sé að sjálfsögðu misjafn.“

Kulnun

Nútímahugtakið er sennilega kulnun eða útbruni. Þótt aðstæður nú séu aðrar en þá er lýsandi orðalagið: „óstyrkur, önuglyndur, kvíðinn og vondapur“ sláandi líkt. Nú ætla ég ekki að leggja að jöfnu læknisstarfið og stöðuga lífshættu stríðshrjáðra, en sumt getur vakið mann til umhugsunar. Það hefur áhrif á vinnugleði, atorku og þreytustig þegar við búum við sífelldan skort á fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins.

Þegar ég vann fyrst á sjúkrahúsi var verið að spara fyrir Albert sem þá var fjármálaráðherra, orðavalið hefur breyst en niðurskurðarstefnan er sú sama. Starfsfólk upplifir að á þeirra starfsævi sé aldrei samræmi milli réttinda og þarfa sjúkra og fjárframlaga. Aldrei má láta sig dreyma um að fjárframlög komi nálægt því sem það kostar að reka „bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu“ í hvívetna. Hvort sem maður er á launaskrá og getur beint gremju sinni að yfirmanni eða stofnun sinni, eða „sjálfstætt starfandi“ og með framlög frá almannatryggingum, þá er þreytan sú sama, vonleysið og mögulega uppgjöfin söm.

Læknir sem ekki getur treyst því að geta veitt þá þjónustu sem honum ber samkvæmt sinni samvisku og bestu vitund fyllist stríðsþreytu.

Fjárveitingavaldið

Við vitum öll að „nægt“ fé er ekki raunhæf ósk í veruleika sem einkennist af hratt vaxandi þekkingu og tækni, ört vaxandi kröfum um þjónustu og eftirlit. Ef læknisfræðin ein fengi að ráða færu útgjöld til heilbrigðismála langt fram úr almennri skynsemi. Við getum aftur á móti farið fram á að þeir samningar og rammar sem stofnanir fjárveitingavaldsins setja, séu gerðir og endurskoðaðir með bestu vitund og þekkingu, sem er sama krafa til faglegra vinnubragða og við gerum til okkar sjálfra. Við getum krafist þess að starfsaðstæður og skipulag vinnu okkar styðji við það sem við vitum að er besta möguleg þjónusta. Og við getum notað skynsemi okkar til að bruðla ekki með rannsóknir og meðferðir.

Samstaða

Meðferð við streitu og kulnun felur ekki bara í sér breytingu á ytra fyrirkomulagi heldur líka hugarfarsbreytingu. Læknar vita manna best hversu mikilvægt er að líta í eigin barm og endurskoða afstöðu sína til þess að koma í veg fyrir að starfið yfirtaki lífið. Við skiljum hvaða áhrif álag lífsins hefur á alla heilsu og vitum hvað faglegur kærleikur til sjúklinga, samstarfsfólks og sjálfs sín er afgerandi.

Þegar stríðsþreytan og demóralíseringin helltist yfir herdeild Hallgríms á Spáni varð að hafa hraðar hendur og endurvekja samstöðuna með því að rifja upp hugsjónina sem þessir ungu menn komu með til Spánar og voru tilbúnir að deyja fyrir. Við verðum líka að vara okkur á því að missa ekki samstöðuna, muna að fjárveitingar til heilbrigðismála snerta okkur öll. Við læknar höfum öll sömu grunnmenntun og erum angar af sama meiði merkustu uppgötvana, ekki aðeins af vísindalegum heldur ekki síður af samfélagslegum toga. Það sem skilgreinir okkur sem manneskjur eru ekki stríðstól, örvaroddar eða tinnuhnífar, heldur hvort og hvernig hlúð er að særðum og sjúkum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica