6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Berglind, Engilbert og Martin Ingi fá viðurkenningu læknanema

Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum, hlaut kennsluverðlaun Félags læknanema fyrir skólaárið 2020-2021. Heiðursverðlaun hlaut Engilbert Sigurðsson, forseti læknadeildar og prófessor í geðlækningum, og Berglind Bergmann, sérnámslæknir í lyflækningum, hlaut deildarlæknaverðlaun. Verðlaunin voru afhent 21. apríl.

Frá afhendingu viðurkenningarinnar. Í öftustu röð eru Ingi Pétursson og Daníel Pálsson, fyrir framan þá eru Hjördís Ásta Guðmundsdóttir og Sólveig Bjarnadóttir, og fremstu menn eru Teitur Ari Theodórsson og Martin Ingi Sigurðsson. Mynd / Jökull Sigurðarsson

Martin Ingi fékk þau fyrir fyrir framúrskarandi metnað og jákvæðni við kennslu læknanema. „Þegar ég tók við starfi prófessors í svæfinga- og gjörgæslulækningum 2019 stefndi ég að þessum verðlaunum innan 10 ára, svo þetta er framar mínum björtustu vonum,“ segir Martin Ingi við Læknablaðið: „Verðlaunin hvetja mig og okkur til dáða að halda áfram og reyna að gera námsdvöl læknanema enn betri.“

Deildarlæknaverðlaun hlaut Berglind Bergmann sérnámslæknir í lyflækningum, fyrir einstaka kennslugleði og hlýhug í garð læknanema. „Manni hlýnar alveg ótrúlega um hjartaræturnar að fá svona fína viðurkenningu frá þeim en mér finnst fátt skemmtilegra en að kenna áhugasömum læknanema. Þessi viðurkenning er mér sérstaklega þýðingarmikil og ég er virkilega þakklát,“ segir Berglind.

Engilbert hlaut heiðursverðlaunin fyrir einstaka hjálpsemi og velvild í garð læknanema. „Mér þykir sérstaklega vænt um þau verðlaun sem Félag læknanema hefur veitt mér, kennsluverðlaunin 2002 og heiðursverðlaun félagsins í ár. Nánasta samstarfsfólk í læknadeild og á Landspítala á þó þessi heiðursverðlaun ekki síður en ég,“ segir hann við Læknablaðið.

Árlega veitir Félag læknanema viðurkenningar til þeirra sem hafa staðið sig sérstaklega vel við kennslu, leiðsögn og móttöku læknanema.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica