6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Greiða Hvidovre 147 danskar krónur fyrir greiningu leghálssýna

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins greiðir 145 danskar krónur fyrir greiningu á hverju leghálssýni til dönsku meinafræðideildarinnar og 2 danskar krónur aukalega fyrir geymslu í lífsýnabanka. Hvert þeirra kostar því rúmar 2987 íslenskar krónur hjá Amager og Hvidovre sjúkrahúsinu, miðað við miðgengi Seðlabankans 17. maí.

Óskar Reykdalsson bíður eftir ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um hvar eigi að greina leghálssýni sem tekin eru hér á landi. Mynd/gag

Samkvæmt frétt RUV 15. apríl segir heilbrigðisráðuneytið að Landspítali hafi metið kostnaðinn 3656 kr. á sýni en 9587 kr. á sýni þegar veirugreining leiddi eitthvað athugavert í ljós, ólíkt því danska.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir það nú í höndum ráðuneytisins að ákveða hvort staðið verði við danska samninginn eða samið við Landspítala. „Við erum til í báða.“ Hann segir þjónustuna örugga í höndum dönsku meinafræðideildarinnar. „En hún gengur hægar en við hefðum viljað sjá. Við erum því að setja mikinn kraft í að laga það sem þarf svo að við náum þeirri stöðu sem við teljum ákjósanlegasta.“

Í samningnum við Hvidovre er búist við að sýnin verði um 20-25.000 ári. Má því ætla að upphæðin verði á bilinu rúmar 179 milljónir íslenskra króna til 224 milljónir á samningstímanum sem nær til ársloka 2023.

Heilsugæslan gaf verðið upp eftir að Læknablaðið kærði ákvörðun um að leyna því til Kærunefndar um upplýsingamál. Heilsugæslan féllst í kjölfarið á rök Læknablaðsins um að upplýsingarnar varði almannahagsmuni.

Samningurinn var undirritaður 18. febrúar 2021 en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók við þjónustunni af Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um áramót. Samkvæmt Ríkiskaupum er heilbrigðisþjónusta útboðsskyld þótt viðmiðunarfjárhæðir séu talsvert hærri en vegna annarrar þjónustu. Hún sé 97.770.000 krónur. Óskar segir að samið hafi verið í samráði við Sjúkratryggingar Íslands og metið að útboð væri óþarft í þessu tilviki.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica