6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Höfuðborgin heldur fast í læknana segja forstjórar heilbrigðisstofnana úti á landi

Samanburður launa lækna eftir dreifbýli og þéttbýli er dreifbýlinu ekki hagstæður, segja forstjórar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem þurfa nú að meta þörf á mönnun samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins

Jón Helgi, Gylfi og Díana

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, Gylfi Ólafsson, forstjóri HVEST, Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

„Það horfir ekkert sérstaklega vel í dreifbýlinu. Kannski er það eitthvað í samfélagsmyndinni. Fólk vill ekki þessa vaktabindingu og það vill búa á stærri stöðum. Samanburður launa dreifbýlis og þéttbýlis er ekki hagstæður fyrir landsbyggðina,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. 15% stöðugilda lækna séu leystar í verktöku.

Læknablaðið heyrði í forstjórum sjúkrastofnana um landið og spurði um mönnun. Samhljómur var í svörum þeirra. Hvatinn til að starfa úti á landi væri ekki mikill.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir nýja reglugerð heilbrigðisráðuneytisins kveða á um að stofnanir heilbrigðisumdæma geri árlega starfsáætlun, áætlun um mönnun og mönnunarþörf sem tekur mið af þarfagreiningu. Nú sé unnið að þessu formlega í fyrsta sinn.

Kostnaðarsamt að jafna tækifærin

„Eftir því sem launin hækka í Reykjavík þurfum við að greiða læknum meira til að koma hingað. Ekki endilega til að yfir-borga heldur til að jafna,“ segir Gylfi. „Góðir tekjumöguleikar eru í Reykjavík fyrir lækna. Það er kostnaðarsamt að ná kjörum hjá okkur upp í hliðstæð laun. Nefna má að ferðadagar, sem eru kannski hálfir dagar hér og þar, geta verið afar kostnaðarsamir því fórnarkostnaður lækna er svo hár,“ bendir hann á.

Stofnaður hafi verið vinnuhópur til að skoða með hvaða hætti megi bæta kjörin á landsbyggðinni, eins og samið var um við gerð kjarasamningsins. Hann hafi þegar hafið störf.

„Hópurinn á að skila tillögum að úrbótum þann 1. okt 2021 og jákvætt að læknar sjálfir hafi aðkomu að málinu með þessum hætti. Ég er vongóður um að þetta gangi vel upp. Þá hefur María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, sagt að við endurskoðun á samningi við sérgreinalækna verði ákvæði um þjónustu við landsbyggðina. Það er ekki búið að formgera það en við erum vongóð um að það verði hagfellt fyrir alla,“ segir Gylfi og leggur áherslu á að mikilvægt sé að landsbyggðin reiði sig ekki einvörðungu á héraðsvitund sérgreinalæknanna sjálfra, heldur verði hvatinn innbyggður í kerfið.

Róðurinn þyngist á landsbyggðinni

„Þetta er gömul saga og ný og stafar af ýmsum ástæðum,“ segir Gylfi. „Eftir því sem tækni og þekkingu fleygir fram verða læknarnir sérhæfðari og þurfa því stærra upptökusvæði til að þeir geti sinnt sérgrein sinni. Þeim fækkar til að mynda sem titla sig almenna skurðlækna,“ bendir hann á. Því þyngist róðurinn enn á landsbyggðinni þegar kalla eigi lækna til starfa og afleysinga.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir læknaskort vandamál og fólk sé því dekstrað með samningum til að koma út á land.

„Við erum þokkalega vel mönnuð eins og er. Við höfum þó áhyggjur því við erum með lækna sem komnir eru á aldur og vitum ekki hvað tekur við þegar þeir hætta. Við höfum verið heppin því ungir læknar sækjast í að koma til okkar.“ Vaktir á bráðamóttökunni kalli þó á frítöku sem komi niður á heilsugæslunni.

„Íbúum fjölgar gríðarlega á Selfossi. Margt ungt barnafólk flytur hingað og fólk sem hætt er að vinna. Þetta er hópurinn sem sækir í heilsugæsluþjónustu og því mikilvægt að hún sé góð.“

Þau fari þó vongóð inn í framtíðina. Bráðamóttakan hafi vaxið með 15.000 heimsóknum árlega fyrir COVID-19 og ungir læknar sjái tækifæri á Selfossi. „Síðan erum við með dreifðar byggðir; Vík, Klaustur og Höfn. Á Höfn eru tvö stöðugildi og er annað þeirra mannað með verktöku. Það er ekki endilega gott því þá er ekki samfella í þjónustunni,“ segir hún. Einnig sé staðan þung í Eyjum.

Nýta fjarheilbrigðisþjónustu

„En við nýtum fjarheilbrigðisþjónustuna. Við erum að ráða til okkar lækna sem eru tilbúnir að fara á stöðvarnar og fylgja eftir með fjarheilbrigðisþjónustu. Svona hugsum við til framtíðar,“ segir Díana.

„Við viljum byggja upp forvarnarstarfið og nýta þverfaglega þekkingu en það er enginn hvati til að fara út á land. Tækifærin eru í Reykjavík. Í Noregi er alltaf verið að finna lausnir. Þar fær heilbrigðisstarfsfólk skattaafslátt. Spurning hvort hægt væri að setja upp hvetjandi kerfi fyrir fólk að fara út á land,“ segir hún.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica