5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Helgi Kristinn Björnsson

Helgi Kristinn Björnsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 16. apríl. Ritgerðin ber heitið Lifrarskaði af völdum lyfja: Faraldsfræði, áhætta af völdum tiltekinna lyfja og gagnsemi sterameðferðar við lyfjaorsakaðri lifrarbólgu

Helgi Kristinn Björnsson tók doktorspróf 16. apríl frá læknadeild Háskóla Íslands. Mynd/Gunnar Sverrisson

Andmælendur voru Fernando Bessone, prófessor við Háskólann í Rosario í Argentínu, og Helga Eyjólfsdóttir, öldrunarlæknir við Landspítala. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Einar Stefán Björnsson. Auk hans sátu í doktorsnefnd Ásgerður Sverrisdóttir, Gerður Gröndal og Raul J. Andrade.

Ágrip

Lifrarskaði af völdum lyfja (drug-induced liver injury: DILI) er sjaldgæf aukaverkun fjölmargra lyfja og getur valdið allt frá einkennalausum hækkunum lifrarprófa til lifrarbilunar og dauða. Í doktorsverkefninu er leitast við að meta nýgengi DILI í almennu þýði á Íslandi, finna helstu orsakavalda og reikna út hlutfall þeirra sjúklinga sem fá lifrarskaða af tilteknum lyfjum. Einnig er kannað mikilvægi DILI sem orsakavalds hjá sjúklingum með verulegar hækkanir á lifrarprófum auk þess sem áhætta á DILI er könnuð í sjúklingum á blóðþynningarlyfjum og krabbameinslyfjum. Enn fremur er rannsakaður lifrarskaði af völdum líftæknilyfsins infliximab og ávinningur af sterameðferð í þeim sjúklingahópi metinn. Nýgengi DILI á Íslandi var 19,1 á hver 100.000 persónuár.

Verkefnið undirstrikar að lyf eru mikilvæg orsök lifrarskaða í almennu þýði. Áhættan af lifrarskaða af völdum blóðþynningarlyfja og krabbameinslyfja reyndist vera lág. Sterameðferð virtist hraða bata í sjúklingum með lifrarskaða af völdum infliximab, en frekari rannsóknir þarf til að staðfesta orsakasamhengi.

Doktorinn

Helgi Kristinn lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2015. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum á Landspítala og lauk þar þriggja ára námi með MRCP-gráðu 2020. Samhliða námi og starfi sem læknir hefur Helgi stundað rannsóknarvinnu.


Hvað segir nýdoktorinn?

- Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Erfitt að segja. Þetta er langhlaup en líklega er meðaltalið 7. Góður leiðbeinandi er lykilatriði og ég var heppinn þar.

- Hvað er framundan í námi og starfi?

Sérnám í almennum lyflækningum og meltingarlækningum á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg.

- Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Hlusta á raddir lækna, sem almennt vilja það besta fyrir sjúklinga og eru merkilega samhljóma varðandi stóru atriðin. Að leggja lækna- og hjúkrunarráð Landspítala niður og semja ekki við sjálfsstætt starfandi sérgreinalækna segir allt um hvaða leið hefur verið valin síðustu ár.

- Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Besta bókin sem ég hef hef lesið nýlega er Truflunin eftir Steinar Braga.

Er þessa dagana að horfa á Gösta sem er ein fyndnasta sjónvaps­sería sem ég hef séð síðustu ár.

Hlustað mikið á Christine and the Queens, Jessie Ware og Little Dragon undanfarið, annars er Stevie Wonder alltaf skammt undan enda besti tónlistarmaður síðustu aldar. Besta en jafnframt hættulegasta líkamsræktin er bumbubolti með góðum vinum.

- Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Þamba kaffi, horfa á fótbolta og lesa bækur. Svo koma vonandi bráðlega post-covid tímar með ferðalögum, þétt pökkuðum tónleikum og íþróttaviðburðum. Ef ekki, þá hugga ég mig við að hversdagurinn er almennt ánægjulegur, kærasta mín er blessunarlega þeim eiginleika gædd að hversdagslegir hlutir eru merkilega skemmtilegir í hennar návist.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica