5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Sænskir straumar á nýju Brjóstamiðstöðinni við Eiríksgötu

Ný kynslóð sérfræðinga í brjóstaskurðlækningum hefur hreiðrað um sig í
glænýrri Brjóstamiðstöð á Landspítala sem opnuð var í apríl.
Allt nýtt. Aðstaðan til fyrirmyndar og þau ánægð

„Við ætlum að gera konum auðveldara að leita til okkar vegna allra vandamála frá brjóstum,“ segir Svanheiður Lóa Rafnsdóttir sem ásamt þeim Eyrúnu Valsdóttur og Hafsteini Inga Péturssyni eru í 100% stöðu sem brjóstaskurðlæknar á Landspítala.

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, Hafsteinn Ingi Pétursson og Eyrún Valsdóttir á skurðstofu nýju Brjóstamiðstöðvarinnar við Eiríksgötu. Mynd/gag

Öll eru þau komin heim frá Svíþjóð, Svanheiður fyrir þremur árum, Eyrún í mars í fyrra og Hafsteinn Ingi nú í október. Kóvíd? „Já, bæði og,“ svarar hann. „Það var kominn tími. Ég var tilbúinn að koma heim.“ Eyrún tekur undir: „Já, ég sé ekki eftir því að hafa komið heim. Alls ekki.“

Öll voru þau deildarlæknar á svipuðum tíma fyrir sérnámið. Nú aftur sameinuð ná þau rétt í skottið á skurðlæknunum Þorvaldi Jónssyni og Höskuldi Kristvinssyni sem hafa verið með hnífana á lofti og haldið uppi þjónustu Landspítala í brjóstaskurðlækningum í áratugi. Þorvaldur enn í 50% starfi.

„Það er tómlegt án Höskuldar og við höldum dauðahaldi í Þorvald,“ segir Eyrún. „Þeir búa yfir svo mikilli þekkingu og margt hægt að læra af þeim.“

Öll þrjú lærðu þau til læknis hvert á sínum staðnum. Eyrún í Danmörku, Svanheiður í Þýskalandi og Hafsteinn hér heima. Sérnámið stunduðu þau í Svíþjóð og ber framtíðarsýn Brjóstamiðstöðvarinnar merki þess.

„Við stefnum að því fyrirkomulagi sem þar var,“ segir Svanheiður sem kom að uppsetningu brjóstamiðstöðvar í Svíþjóð en á Brjóstamiðstöðinni hér sameinast á einn stað þjónusta skurðlækna, krabbameinslækna, röntgenlækna og hjúkrunarfræðinga frá 10E og 11B við Hringbraut.

Þau eru sammála um að með sænsku áhrifunum takist að að bjóða persónulegri og einstaklingsmiðaðri þjónustu hér. „Nándin er meiri, sem er af hinu góða,“ segir Svanheiður. Aðgengi að sérfræðingum sé mikið. „Ég er ekki frá því að við tökum fram úr miðstöðvum annars staðar. Við höfum allar forsendur til þess.“

Hafsteinn bendir einnig á að fókusinn sé víðari hér. Í Svíþjóð hafi áherslan helst verið á illkynja mein og þeim góðkynja sé sinnt á einkastofum. Svanheiður bendir á að nýja Brjóstamiðstöðin sinni einnig erfðaráðgjöf og áhættuminnkandi þjónustu fyrir konur með BRCA-gen og aðrar hááhættustökkbreytingar, ásamt þeim sem þurfi lagfæringar á brjóstum af ýmsum ástæðum. „Hér bjóðum við heildræna lausn.“

Þau eru öll sammála um að Brjóstamiðstöðin sé mikil framför í þjónustu við konur. „Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvar skimað er, svo framarlega sem það er framkvæmt og því fylgt eftir af fagmennsku eins og hér hefur verið gert. En undir einu þaki næst betri samvinna milli sérgreina,“ segir Svanheiður.

„Kosturinn við einn stað er líka meiri fyrir konurnar sem tékka sig inn, fara í myndatöku og hitta lækna á einum stað, þarfnist þær meðferðar.“

Spurð um aldurstakmörk í skimanir, sem var mikið þrætuepli í vetur, segja þau þá umræðu eiga eftir að þróast mikið. Í framtíðinni verði sú þjónusta einstaklingsmiðuð enn frekar, til dæmis út frá ættarsögu og áhættuþáttum. Mikilvægast sé að konur mæti í skimun en um 240 konur greinast árlega með brjóstakrabbamein.

„Konur á Íslandi þurfa að bæta sig þar,“ segja þau. Eyrún slær lokatóninn. „Þær mega heldur ekki gleyma að skoða brjóst sín, fínt í sturtunni – einu sinni í mánuði.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica