4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Harpa Viðarsdóttir sem er í sérnámi í barnahjartalækningum við Astrid Lindgren barnasjúkrahúsið í Stokkhólmi

Harpa Viðarsdóttir varði doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 12. febrúar. Ritgerðin heitir Miklir þungburar – fylgikvillar fæðingar fyrir móður og barn, og mynstur efnaskiptamerkja

Fyrir utan hátíðasalinn í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Fulltrúar læknadeildar, þeir Hans Tómas Björnsson og Engilbert Sigurðsson, voru ánægðir með góða vörn Hörpu Viðarsdóttur. Mynd/Gunnar Sverrisson

Andmælendur voru Lars Mörkryd, prófessor við Háskólann í Ósló, og Hans Tómas Björnsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Umsjónarkennari var Ragnar Bjarnason, prófessor, og leiðbeinandi Þórður Þórkelsson, yfirlæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Reynir T. Geirsson, prófessor emeritus, Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor, og Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor.

Ágrip af rannsókn

Markmiðið var að kanna áhættuþætti fyrir fæðingu mikilla þungbura (fæðingarþyngd ≥5000 g) og hugsanlegar afleiðingar þess fyrir móður og barn (grein I). Að skoða mynstur efnaskiptamerkja mikilla þungbura og bera saman við börn með eðlilega fæðingarþyngd og börn með lága fæðingarþyngd (<2500 g) (grein II). Að meta áhrif fæðingarmáta á mynstur efnaskiptamerkja barna við fæðingu og við nýburaskimun (grein III). Hár líkamsþyngdarstuðull og of mikil þyngdaraukning móður á meðgöngu auka áhættu á fæðingu mikilla þungbura. Í slíkum tilfellum er aukin hætta á fylgikvillum í fæðingu, bæði hjá móður og barni. Það virðist munur á efnaskiptum mikilla þungbura og barna með eðlilega fæðingarþyngd, sem er ólíkur muninum milli barna með lága fæðingarþyngd og eðlilega. Fæðingarmáti virðist tengjast mynstri efnaskiptamerkja í blóði barna við fæðingu en í nýburaskimuninni er þessi munur lítill sem enginn.

Doktorsefnið

Harpa lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 2010, fékk lækningaleyfi 2011 og var þá deildarlæknir á Barnaspítala Hringsins. Í janúar 2014 hóf Harpa störf sem sérnámslæknir í barnalækningum við Astrid Lindgren barnasjúkrahúsið, Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, og hefur sinnt því samhliða doktorsnáminu og varð sérfræðingur í barnalækningum í janúar 2020. Hún stundar nú sérnám í barnahjartalækningum við Astrid Lindgren barnasjúkrahúsið í Stokkhólmi.

Hvað segir doktorsefnið?

Hvað ertu að lesa og eða horfa á?

Concise guide to pediatric arrythmias eftir Christopher Wren. Annars er ég rétt byrjuð á Agent Zigzac eftir Ben Macintyre sem er fríbókin.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Ætli á heildina litið sé það ekki 7, sum tímabil auðveldari og önnur erfiðari, en aldrei gefins.

Hvað er framundan í námi og starfi?

Er í undirsérgrein í barnahjartalækningum. Framundan er að ganga inn í bakvaktarúlluna þar.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem forstjóri Landspítala?

Kynna mér núverandi stöðu spítalans, líklega ýmislegt breyst síðan 2013.

Hvenær fórstu síðast til læknis?

Ætli það hafi ekki verið haustið 2019.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica